Stjórn Rithöfundasambands Íslands mótmælir fyrirhuguðum sumarlokunum flestra útibúa Borgarbókasafnsins í sumar. Með því skerðist þessi nauðsynlega og lögbundna þjónusta við íbúa borgarinnar. Það er að mati stjórnar sérlega viðsjárvert að loka hverfisbókasöfnum á sama tíma og börn hafa ekki aðgang að skólabókasöfnum. Þessa dagana, þegar skólarnir ljúka sínum störfum berast foreldrum hvatningarpóstar frá kennurum og skólayfirvöldum um að halda bókum og lestri að börnum yfir sumarið. Það er ótækt að borgin, sem ber ábyrgð á grunnskólunum og þar með lestrarkennslu í sveitarfélaginu, loki á sama tíma bókasöfnum í hagræðingarskyni og torveldi þannig barnafjölskyldum og öðrum lesendum nauðsynlegt aðgengi að lesefni yfir sumartímann. Slík sparnaðarráðstöfun mun koma harðast niður á börnum í efnaminni fjölskyldum sem ekki hafa góðan aðgang að bókum heima við og mun verða samfélaginu dýrkeypt þegar upp er staðið.
Stjórn Rithöfundasambands Íslands