Search
Close this search box.

Álfrún Gunnlaugsdóttir minning

Álfrún Gunnlaugsdóttir heiðursfélagi í Rithöfundasambandi Íslands er fallin frá. Hún var ekki einungis magnaður höfundur, óumdeilanlega framúrskarandi með einstaka rödd, heldur var hún einnig einn fremsti fræðimaður okkar á sviði bókmennta, vel heima í verkum annarra rithöfunda og framandi menningargeirum.

Álfrún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1958 og hélt ári síðar til náms í rómönskum málum og bókmenntum í Barcelona. Hún lauk licenciatprófi (M.A,) frá Háskólanum í Barcelona (1965), öðlaðist rétt til að verja doktorsritgerð ári síðar við sama skóla, og vann að ritgerðinni við Háskólann í Lausanne í Sviss á árunum 1966 -1970. Doktorsritgerð sína varði hún svo við hinn nýstofnaða Óháða háskóla Katalóníuhéraðs 1970

Hún var lektor í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands 1971-77, síðan dósent í sömu grein og prófessor frá 1988 til 2006 þegar hún lét af störfum.

Eftir Álfrúnu liggur fjöldi skáldverka af ýmsu tagi, smásagnasafn og skáldsögur og oft og einatt hlutu verk hennar verðlaun og viðurkenningar, voru tilnefnd til Íslensku bókmennta¬verð¬laun¬anna, Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs, hlutu bókmenntaverðlaun DV og Fjöruverðlaun, svo eitthvað sé nefnt, auk þess sem Álfrúnu var veitt viðurkenning Rithöfundasjóðs Ríkisútvarpsins.

Álfrún var gerð að heiðursdoktor við Hugvísindasvið Háskóla Íslands árið 2010, og í ávarpi af því tilefni sagði Ástráður Eysteinsson um verk Álfrúnar sem þá voru komin út:

„ … þessar sex bækur búa yfir sterkum höfundareinkennum – í viðfangsefnum, frásagnaraðferðum, persónusköpun og lífssýn. Hér hefur orðið til eitt sérstæðasta höfundarverk íslenskra bókmennta á síðustu áratugum, mótað af samslætti djarfrar framsetningar, tilvistarhyggju og húmanisma. Verk Álfrúnar eru engan veginn öll steypt í sama móti en í þeim öllum er einhver sterkur og seiðandi höfundarkjarni sem við höfum enn ekki gert okkur nema takmarkaða grein fyrir.“

Íslenskir rithöfundar þakka Álfrúnu Gunnlaugsdóttur framlag hennar til íslenskra bókmennta og bókmennta heimsins. Minning hennar mun lengi lifa í þeim glæsilegu verkum sem hún lætur eftir sig.

Karl Ágúst Úlfsson formaður RSÍ

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email