Alþjóðlega barnabókahátíðin Hay Festival hefur kynnt hinn svokallað Aarhus 39-lista, 39 bestu evrópsku barnabókahöfundana undir 39 ára aldri. Ævar Þór Benediktsson, var þar á meðal. Hann er staddur í London til að veita viðurkenningunni móttöku og taka þátt í pallborðumræðum um barnabækur.
Höfundarnir á listanum koma til með að vinna saman að metnaðarfullu verkefni fyrir menningarborg Evrópu, Aarhus. Til stendur að halda bókmenntahátíð þar síðar á árinu auk þess sem að út koma tvö söfn með verkum höfundanna á dönsku og ensku.
Í dómnefnd sátu þrír virtir barnabókahöfundar; Kim Fupz Aakeson frá Danmörku, Ana Cristina Herreros frá Spáni og Matt Haig frá Englandi. Höfundarnir sem valdir voru fengu það verkefni að skrifa sögu byggða á þemanu „Ferðalag“ en þær koma út í fyrrnefndum söfnum hjá Alma Books í Bretlandi og Gyldendal í Danmörku. Saga Ævars, ,,Bókaflóttinn mikli”, fjallar um einstaklega vaskan bókasafnsfræðing sem kemst í hann krappan.