Aðventa, saga Gunnars Gunnarssonar um eftirleitir Fjalla-Bensa og förunauta hans á Mývatnsöræfum verður að venju lesin á aðventunni á sama tíma í Gunnarshúsi í Reykjavík og á Skriðuklaustri.
Lesturinn fer fram þann 10. desember, annan sunnudag í aðventu og hefst á báðum stöðum kl. 13:30
Hjá Rithöfundasambandi Íslands í Gunnarshúsi á Dyngjuvegi 8, les Friðgeir Einarsson, sviðslistamaður og rithöfundur. Friðgeir túlkar einmitt Benedikt í Aðventu sem sýnd er um þessar mundir á Nýja sviði Borgarleikhússins í uppfærslu sviðslistahópsins Rauða sófans.
Hjá Gunnarsstofnun á Skriðuklaustri les Jóhanna Friðrika Sæmundsdóttir rithöfundur og leikkona.
Gunnar Gunnarsson skrifaði nóvelluna Aðventu árið 1936 og kom hún út í fyrsta sinn það ár í Þýskalandi. Síðan þá hefur sagan um Benedikt, Eitil og Leó verið lesin víða um heim af milljónum manna, ekki síst í desember. Aðventa er það verk Gunnars sem þýtt hefur verið á flest tungumál og selst í stærstum upplögum.
Aðgangur er ókeypis og eru allir velkomnir á þessa kyrrðarstund í amstri aðventunnar. Boðið verður upp á kaffi og smákökur með lestrinum sem tekur rúmar tvær klukkustundir.
Mynd: Eva Lind