Skáldsögurnar Náttúrulögmálin eftir Eirík Örn Norðdahl og Armeló eftir Þórdísi Helgadóttur eru tilnefndar til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2025 fyrir Íslands hönd.
Alls eru fjórtán bækur tilnefndar til verðlaunanna sem veitt verða í Stokkhólmi í október.
Úr umsögn dómnefndar um bók Þórdísar:
Þórdís býður lesendum upp í trylltan dans og þeytir þeim í óteljandi hringi þar sem hún ögrar skynjuninni með óvæntum rangölum, ólíkum sjónarhornum mismunandi sögupersóna, skemmtilegu tímaflakki og fjölskrúðugu persónugalleríi. Í bland við góðan húmor, ljóðrænan stíl, yfirnáttúrulega fléttu og sterkt myndmál skapar Þórdís einstaklega hrífandi rússíbanareið fyrir forvitna og hugrakka lesendur.
Úr umsögn dómnefndar um bók Eiríks Arnar:
Í skáldsögu Eiríks er djarflega tekist á við samhengi og rök tilverunnar. Sögusviðið er Ísafjörður árið 1925, persónur eru fjölmargar og í rás sögunnar myndast umtalsverð spenna milli heimamanna og guðsmanna, þjóðtrúar og guðstrúar, trúar almennt og vísinda, siðmenningar og náttúrulögmála. Drykkjuskapur og lauslæti eru frekar regla en undantekning í fari bæði Ísfirðinga og prestastéttarinnar sem mætt er á staðinn.
Rithöfundasamband Íslands óskar höfundunum tveimur til hamingju með verðskuldaðar tilnefningar!