Formaður Hagþenkis, Gunnar Þór Bjarnason, kynnti tilnefningar Hagþenkis fyrir útgáfuárið 2024 í Borgarbókasafninu í Grófinni þann 22. janúar að viðstöddum tilnefndum höfundum og gestum þeirra, stjórn Hagþenkis og viðurkenningarráðinu. Í því sátu Halldóra Jónsdóttir, Kristján Leósson, Ólöf Gerður Sigfúsdóttir, Unnur Þóra Jökulsdóttir og Vilhjálmur Árnason. Friðbjörg Ingimarsdóttir er verkefnastýra ráðsins. Viðurkenning Hagþenkis verður veitt í Þjóðabókhlöðunni í lok febrúar við hátíðlega athöfn og hlýtur sá höfundur 1.500.000 kr.
Eftirfarandi rit og höfundar eru tilnefndir og óskar Rithöfundasamband Íslands þeim innilega til hamingju með verk sín og tilnefningarnar:
Árni Heimir Ingólfsson.
Tónar útlaganna. Þrír landflótta tónlistarmenn sem mótuðu íslenskt menningarlíf. Útgefandi: Hið íslenska bókmenntafélag.
Vel skrifuð örlagasaga þriggja einstaklinga sem umbyltu tónlistarmenningu landsins. Bókin er ríkulega studd heimildum og prýdd mörgum myndum.
Ásdís Ingólfsdóttir.
Undirstaðan – Efnafræði fyrir framhaldsskóla. Útgefandi: Iðnú.
Vandað kennsluefni í rafrænu formi sem kynnir undirstöðuatriði efnafræðinnar. Efnið er lagað að nútímaþörfum nemenda og kennara með margskonar innbyggðum hjálpartækjum, auk fjölda vísana í ítarefni sem nálgast má á veraldarvefnum.
Erla Hulda Halldórsdóttir.
Strá fyrir straumi. Ævi Sigríðar Pálsdóttur 1809–1871. Útgefandi: Bjartur.
Áhrifarík ævisaga sem varpar nýju ljósi á 19. öldina og veitir einstaka innsýn í heim kvenna. Byggir á ómetanlegum bréfum Sigríðar til bróður síns sem spanna hálfa öld.
Guðjón Friðriksson.
Börn í Reykjavík. Útgefandi: Forlagið.
Fræðandi og forvitnileg bók um þær stórfelldu breytingar sem orðið hafa á íslensku samfélagi og aðstæðum barna í borginni í hálfa aðra öld. Fallegur prentgripur með fjölda einstakra ljósmynda.
Guðmundur Jónsson (ritstjóri).
Ástand Íslands um 1700. Lífshættir í bændasamfélagi. Útgefandi: Sögufélag.
Yfirgripsmikið verk sem er afrakstur margra ára rannsókna á lífsháttum á Íslandi við upphaf 18. aldar. Unnið er á nýstárlegan, þverfaglegan hátt úr frumheimildum sem eru einstæðar á alþjóðavísu.
Gunnar Harðarson.
Fingraför spekinnar. Kaflar úr sögu íslenskrar heimspeki á miðöldum. Útgefandi: Hið íslenska bókmenntafélag.
Vandað og vel skrifað ritgerðasafn sem varpar nýju ljósi á heimspekilega hugsun í íslenskum fornritum. Hugmyndir, hugtök og rökfærslur eru skýrð í ljósi heimspeki miðalda.
Ingunn Ásdísardóttir.
Jötnar hundvísir. Norrænar goðsagnir i nýju ljósi. Útgefandi: Hið íslenska bókmenntafélag.
Höfundur kannar frumheimildir um jötna og jötnameyjar í norrænum kveðskap og forminjum óháð túlkun kristinna miðaldamanna og kemst að frumlegum og áhugaverðum niðurstöðum í aðgengilegu fræðiriti.
Margrét Tryggvadóttir og Linda Ólafsdóttir.
Einar, Anna og safnið sem var bannað börnum. Útgefandi: Forlagið.
Fróðleg og falleg barnabók sem opnar persónulega leið inn í sögu merkilegs safns. Samspil myndefnis og texta varpar áhugaverðu ljósi á árdaga íslenskrar nútímalistasögu.
Skafti Ingimarsson.
Nú blakta rauðir fánar. Saga kommúnista- og sósíalistahreyfingarinnar á Íslandi 1918–1968. Útgefandi: Sögufélag.
Mikilvægt innlegg í íslenska stjórnmálasögu tuttugustu aldarinnar. Verkið veitir nýja innsýn í þátttöku almennings í flokksstarfi og verkalýðsbaráttu um land allt.
Þórir Óskarsson.
Svipur brotanna. Líf og list Bjarna Thorarensen. Útgefandi: Hið íslenska bókmenntafélag.
Metnaðarfull ævisaga byggð á ítarlegum rannsóknum og hugmyndasögulegri greiningu. Ljóðlist skáldsins er sett í samhengi við þjóðlegan arf og alþjóðlega strauma.