Árlegur húslestur á Aðventu Gunnars Gunnarsson fer fram annan sunnudag i Aðventu, 8. desember á nokkrum stöðum um landið. Í skrifstofu skáldsins að Skriðuklaustri, hjá Rithöfundasambandi Íslands í Gunnarshúsi á Dyngjuvegi og hjá bókasafninu á Akranesi. Lestur hefst klukkan 13:30 og stendur í um 2,5 tíma með hléi.
Í Gunnarshúsi á Dyngjuvegi er það Salka Guðmundsdóttir, þýðandi, leikskáld og dramatúrg sem les Aðventu fyrir viðstadda.
Á Skriðuklaustri er það Vera Illugadóttir sem les. Veru þekkja flestir vegna starfa hennar í fjölmiðlum þar sem hún hefur meðal annars verið framleiðandi og þulur útvarps- og hlaðvarpsþáttarins Í ljósi sögunnar á Rás 1. Og í ár er það Gunnar Björn Gunnarsson sem les bókina í bókasafninu á Akranesi.
Á öllum stöðunum er aðgangur er ókeypis og öll velkomin á meðan húsrúm leyfir.
Aðventa kom fyrst út árið 1936 og síðan þá hefur sagan um Benedikt, Eitil og Leó verið lesin víða um heim af milljónum manna, ekki síst í desember. Aðventa er það verk Gunnars sem þýtt hefur verið á flest tungumál og selst í stærstum upplögum.