Ný lestrarkönnun Miðstöðvar íslenskra bókmennta, sem gerð er í samstarfi við RSÍ og aðra helstu aðila á bókmenntasviðinu, leiðir í ljós að þjóðin les eða hlustar að meðaltali á 2,4 bækur á mánuði sem er svipað og á síðustu árum og ver til þess 30 til 60 mínútum á dag. Helsta breyting á lestrarvenjum er verulega aukin notkun hljóðbóka. Einnig vekur athygli að sá hópur sem hefur lesið lítið sem ekkert fer stækkandi.
Þetta er sjöunda árið sem sambærileg könnun er lögð fyrir þjóðina þar sem lestrarhegðun og viðhorf til lestrar og bókmenningar er kannað.
Könnunin leiðir í ljós að meðalfjöldi lesinna bóka er 2,4 bækur á mánuði
Yngsti hópurinn les meira nú en í fyrra, en sá elsti minna. Á sama tíma fer hópurinn sem les lítið sem ekkert stækkandi, en um 14% þjóðarinnar varði engum tíma daglega í lestur eða hlustun. Þriðjungur þjóðarinnar ver 30 til 60 mínútum á dag í lestur eða hlustun og 24% tveimur klukkustundum eða meira á dag. Konur verja að jafnaði meiri tíma í að lesa/?hlusta á bækur en karlar. Skáldsögur eru algengasta lesefnið í öllum aldurshópum. Mikill meirihluti þjóðarinnar, eða 77% svarenda, telur mikilvægt að íslenskar bókmenntir hafi aðgang að opinberum stuðningi, sem er hækkun frá fyrra ári, þegar hlutfallið var 74%.
Á síðu Miðstöðvar íslenskra bókmennta má lesa könnunina í heild sinni.