Eiríkur Guðmundsson rithöfundur og útvarpsmaður er látinn, 52 ára að aldri.
Eiríkur fæddist hinn 28. september árið 1969 í Bolungarvík. Hann útskrifaðist með stúdentspróf frá Menntaskólanum við Sund árið 1988, lauk B.A. prófi í almennri bókmenntafræði árið 1991 og M.A. prófi í íslenskum bókmenntum 1995 frá Háskóla Íslands. Eiríkur starfaði lengst af við dagskrárgerð á Rás 1 og hafði lengi umsjón með Víðsjá og Lestinni þar sem hann fjallaði um menningarmál af ýmsum toga.
Fyrsta skáldsaga Eiríks, 39 þrep á leið til glötunar, kom út árið 2004 og þar á eftir fylgdu skáldsögurnar Undir himninum (2006), 1983 (2013) sem var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna, Sýrópsmáninn (2010), Ritgerð mín um sársaukann (2018) og ljóðabókin Blindur hestur (2015). Eiríkur gaf árið 2008 út bók um skáldskap Steinars Sigurjónssonar og ritstýrði heildarútgáfu á verkum hans. Eftir hann liggja þar að auki fjöldi tímaritsgreina, ritdóma og útvarpspistla.
Eiríkur lætur eftir sig einn son, Kolbein Orfeus, og stjúpdóttur, Vöku Blöndal.
Rithöfundasamband Íslands vottar aðstandendum Eiríks samúð.