Elín Pálmadóttir blaðamaður og rithöfundur er látin, 95 ára að aldri.
Hún var fædd í Reykjavík 31. janúar 1927. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1947 og lagði síðan stund á nám í ensku og frönsku við Háskóla Íslands og síðar erlendis. Þá gekk hún til liðs við utanríkisþjónustuna og starfaði m.a. hjá Sameinuðu þjóðunum og í sendiráðinu í París. Elín hóf störf sem blaðamaður hjá Vikunni 1952, en 1958 réðst hún til Morgunblaðsins þar sem hún vann þar til hún lét af störfum fyrir aldurs sakir 1997. Hún hlaut heiðursviðkenningu Blaðamannafélagsins 1992, riddarakross fálkaorðunnar 1995 og var sæmd æðstu heiðursorðu Frakklands, Légion d’honneur, árið 2015.
Eftir Elínu komu m.a. út bækurnar Gerður: ævisaga myndhöggvara 1985, Fransí biskví um franska Íslandssjómenn 1989,en hún var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 1990 og kom einnig út á frönsku, og endurminningarnar Eins og ég man það 2003.
Rithöfundasambandið þakkar Elínu samfylgdina og sendir ættingjum hennar samúðarkveðjur.