Bætur vegna eintakagerðar til einkanota skv. 11.gr. höfundalaga
Rithöfundasamband Íslands (RSÍ) tekur við greiðslum frá Innheimtumiðstöð rétthafa (IHM). Greiðslurnar renna í Ljósvakasjóð sem úthlutar til höfunda og þýðenda leiktexta og annarra skáldverka í samræmi við reglur þessar. Hagþenkir annast úthlutanir til rétthafa fræðslu- og heimildaefnis eftir eigin reglum.
Réttur til greiðslu er bundinn því að viðkomandi verki hafi verið útvarpað, hafi verið gert aðgengilegt almenningi þannig að hver og einn geti fengið aðgang að verkinu á þeim stað, á þeirri stundu og með þeim búnaði er hann sjálfur kýs eða hafi verið gefið út á hljóðriti eða myndriti. Rétturinn nær til frumsaminna og þýddra verka, þ.m.t. leikins hljóðvarps- og sjónvarpsefnis, kvikmynda, stakra þátta eða þáttaraða, leikinna atriða, útvarpssagna, ljóða, brota úr verkum og annarra skáldverka. Séu fleiri en einn höfundur að sama verki, skiptist réttur til úthlutunar eftir samkomulagi þeirra.
Réttur til úthlutunar er án tillits til félagsaðildar.
Skráning í Ljósvakasjóð: Leitað er eftir skráningarupplýsingum rétthafa, sem telja sig eiga rétt til úthlutunar skv. 2. gr. Skráningarupplýsingum skal skilað á þar til gerðu skráningareyðublaði. Athugið að greitt er út skv. 2. gr. eftir skýrslum frá sjónvarps- og útvarpsstöðvum. Þeir sem þegar hafa skilað skráningu og/eða fengið greitt úr sjóðnum þurfa ekki að skrá sig aftur.
Úthlutun skv. 5. gr. B: Rétthafagreiðslur skv. sérstökum umsóknum. Um slíka úthlutun geta sótt; þýðendur skjátexta, rétthafar að styttri verkum, brotum úr verkum, stökum ljóðum sem og frumhöfundar skáldverka sem leikgerðir, þættir eða kvikmyndir hafa verið gerðar eftir. Í umsóknum um greiðslur skv. þessum lið skal rökstyðja og gera grein fyrir notkun á einstökum verkum á umsóknartímabili. Úthlutað er á grundvelli mats úthlutunarnefndar. Umsóknareyðublað.
Umsóknarfrestur vegna úthlutunar fyrir birt efni 2020 er til 5. nóvember 2021. Ekki er tekið við umsóknum eftir þann tíma.