Search
Close this search box.

Yrsa Sigurðardóttir hlýtur Blóðdropann

Yrsa Sigurðardóttir

Blóðdropinn 2021, verðlaun Hins íslenska glæpafélags fyrir bestu glæpasögu ársins 2020 voru veitt í fimmtánda sinn þann 13. mars sl. Blóðdropann hlaut að þessu sinni Yrsa Sigurðardóttir fyrir glæpasögu sína Bráðin

Umsögn dómnefndar Hins íslenska glæpafélags er svohljóðandi:

Dómnefnd Blóðdropans las fjölbreyttar og spennandi glæpasögur ársins 2020 og er á einu máli að glæpasagan lifi góðu lífi á Íslandi og að framtíð hennar sé björt. Dómnefnd óskar höfundum, útgefendum og lesendum glæpasagna til hamingju með uppskeruna.

Dómnefnd var sammála um að Bráðin eftir Yrsu Sigurðardóttur stæði upp úr að þessu sinni enda um að ræða hörkuspennandi og frumlega glæpasögu.

Yrsa Sigurðardóttir hefur hlotið Blóðdropann í tvígang áður, árið 2011 fyrir Ég man þig og árið 2015 fyrir DNA. Bráðin gefur hinum tveimur verðlaunabókum höfundar ekkert eftir. Helsti kostur sögunnar að mati dómnefndar er flókin sögufléttan sem rígheldur lesandanum. Yrsa missir aldrei niður boltann og allir þræðir sameinast að lokum – og koma lesendum talsvert á óvart. Fjölbreytt persónugallerí er annað einkenni bókarinnar en persónurnar koma úr öllum áttum og eru eins ólíkar og þær eru margar.

Yrsa Sigurðardóttir hlýtur því Blóðdropann í ár og verður Bráðin jafnframt framlag Íslands til Glerlykilsins á næsta ári, en hann er veittur fyrir bestu, norrænu glæpasöguna.

Dómnefndina í ár skipuðu:

Kristján Atli Ragnarsson, formaður

Bryndís Áslaug Óttarsdóttir

Helga Birgisdóttir

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email