Birgir Sigurðsson, rithöfundur og leikskáld, lést á Landspítalanum í Fossvogi 9. ágúst sl., á 82. aldursári.
Birgir fæddist í Reykjavík 28. ágúst 1937. Hann auk kennaraprófi frá KÍ 1961, stundaði tónlistarnám við Tónlistarskólann í Reykjavík í fimm ár og söngnám í Amsterdam 1967. Birgir var blaðamaður á Tímanum 1961-64 og var kennari og skólastjóri í nokkrum skólum þar til hann sneri sér alfarið að ritstörfum árið 1979. Eftir Birgi liggur fjöldi ritverka; leikrit, skáldsögur, ljóð, þýðingar og fræðirit. Þekktasta leikrit Birgis er án efa Dagur vonar, sem frumsýnt var 1987, tilnefnt til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 1989 og hefur verið sýnt víða um heim. Fyrsta leikritið, Pétur og Rúna, vann 1. verðlaun í samkeppni Leikfélags Reykjavíkur 1972 og vakti mikla athygli. Meðal annarra leikrita hans eru Skáld-Rósa, Selurinn hefur mannsaugu, Grasmaðkur, Óskastjarnanog Dínamít. Birgir var heiðursfélagi Leikfélags Reykjavíkur en hann þýddi einnig fjölmörg leikrit, m.a. Barn í garðinum, eftir Sam Shephard, Glerbrot,eftir Arthur Miller, og Köttur á heitu blikkþaki, eftir Tennessee Williams. Þá þýddi hann tvær skáldsögur eftir Doris Lessing, Grasið syngurog Marta Quest.
Birgir var varaformaður Rithöfundasambands Íslands 1982-1986, var forseti Bandalags íslenskra listamanna 1985-87 og átti m.a. sæti í stjórn Listahátíðar og úthlutunarnefnd Kvikmyndasjóðs. Birgir var á þessu ári gerður að heiðursfélaga Rithöfundasambandsins.
Rithöfundasamband Íslands þakkar Birgi samfylgdina og sendir fjölskyldu hans samúðarkveðjur.