Atli Magnússon, þýðandi, rithöfundur og blaðamaður, er látinn, 74 ára að aldri. Atli fæddist 26. júlí 1944, hann lést á heimili sínu aðfaranótt 14. júní.
Atli starfaði lengst af sem blaðamaður. Meðfram blaðamennsku lagði hann stund á ritstörf og eftir hann liggja bæði ævisögur sem og fjöldi úrvalsþýðinga.
Atli ritstýrði Sjómannadagsblaðinu um nokkurra ára skeið og starfaði sem dagskrárfulltrúi á ríkisútvarpinu. Hann þýddi mörg af stórvirkjum heimsbókmenntanna eins og Meistara Jim, Nostromo og Leynierindrekann eftir Joseph Conrad, Gatsby og Nóttin blíð eftir F. Scott Fizgerald, Mrs. Galloway eftir Virginiu Woolf, Hið rauða tákn hugprýðinnar eftir Stephen Crane og Fall konungs eftir Johannes V. Jensen.
Atli skrifaði að auki Skært lúðrar hljóma, sögu lúðrasveita á Íslandi, en hann starfaði tæp 30 ár í Lúðrasveit verkalýðsins.
Rithöfundasamband Íslands þakkar Atla samfylgdina og sendir fjölskyldu hans samúðarkveðjur.