Fimmtudaginn 6. júní, veitti Miðstöð íslenskra bókmennta tveimur nýjum höfundum Nýræktarstyrki fyrir verk þeirra, en hvor styrkur nemur 500.000 kr. Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, afhenti styrkina við athöfn í Gunnarshúsi, húsi Rithöfundasambandsins.
Nýræktarstyrkir eru veittir árlega vegna skáldverka höfunda sem eru að stíga sín fyrstu skref á ritvellinum, óháð aldri, og til að hvetja þá til frekari dáða á þeirri braut. Átt er við skáldverk í víðri merkingu; sögur, ljóð, leikrit og fleira.
Nýræktarstyrki Miðstöðvar íslenskra bókmennta 2019 hljóta eftirtalin verk og höfundar:
Í gegnum þokuna
Barnabók
Höfundur: Auður Stefánsdóttir (f. 1983) er með BA gráðu í íslensku og meistaragráðu í íslenskum bókmenntum frá Háskóla Íslands og kennsluréttindi á framhaldsskólastigi. Auður er íslenskukennari í framhaldsskóla og er í meistaranámi í ritlist við Háskóla Íslands meðfram kennslu.
Umsögn bókmenntaráðgjafa um verkið:
„Í gegnum þokuna er fantasíubók fyrir börn um baráttu góðs og ills, dauðann og lífið. Höfundur tekur á viðkvæmu málefni á fágaðan hátt og fléttar saman við spennandi atburðarás á flöktandi mörkum raunveruleika og ímyndunar. Textinn er skýr og aðgengilegur, lýsingar á handanheiminum hugmyndaríkar og margar skemmtilegar skírskotanir í hvernig er að vera krakki á Íslandi í dag.”
Afkvæni
Smásagnasafn
Höfundur: Kristján Hrafn Guðmundsson (f. 1979) er bókmenntafræðingur með kennsluréttindi og kennir íslensku, heimspekisamræðu og kvikmyndalæsi í grunnskóla. Kristján þýddi bók Haruki Murakami Það sem ég tala um þegar ég tala um hlaup og hafði umsjón með menningarumfjöllun DV 2007–2010.
Umsögn bókmenntaráðgjafa um verkið:
„Afkvæni er safn smásagna sem eiga það sameiginlegt að gerast í hversdagslegum íslenskum samtíma. Sögurnar eru grípandi, persónulýsingar skarpar og textinn er skrifaður á blæbrigðaríku máli. Smávægilegum atvikum er gjarnan lýst á spaugilegan hátt; andrúmsloftið er létt og leikandi en um leið tekst höfundi að miðla samspili gleði og alvöru af sérstakri næmni.”
Að vali styrkhafa standa bókmenntaráðgjafar Miðstöðvar íslenskra bókmennta, sem í ár eru þau Þórdís Edda Jóhannesdóttir og Bergsteinn Sigurðsson.
Tólfta úthlutun Nýræktarstyrkja – á sjötta tug höfunda hafa hlotið viðurkenninguna
Þetta er í tólfta sinn sem Nýræktarstyrkjum er úthlutað, en alls hafa á sjötta tug höfunda hlotið þessa viðurkenningu frá upphafi. Meðal höfunda sem hlotið hafa Nýræktarstyrki á liðnum árum eru Fríða Ísberg fyrir Slitförina, Benný Sif Ísleifsdóttir fyrir Grímu, Þorvaldur Sigurbjörn Helgason fyrir Gangverk, Júlía Margrét Einarsdóttir fyrir Drottninguna á Júpíter, Dagur Hjartarson fyrir Eldhafið yfir okkur, Kristín Ragna Gunnarsdóttir fyrir Úlf og Eddu, Halldór Armand Ásgeirsson fyrir Vince Vaughn í skýjunum og Sverrir Norland fyrir bókina Kvíðasnillingarnir, svo einhver séu nefnd.
Umsóknum um Nýræktarstyrki hefur fjölgað verulega frá því þeim var fyrst úthlutað árið 2008 hjá Bókmenntasjóði, forvera Miðstöðvar íslenskra bókmennta, en þá bárust 9 umsóknir og 5 styrkir voru veittir, hver að upphæð 200.000 kr. Fjölgun umsókna hefur verið samfelld síðan og í ár og í fyrra var metfjöldi, eða 58 umsóknir, og styrkupphæð hefur hækkað og er nú 500.000 kr.
Verkin sem sótt var um fyrir eru af ýmsum toga s.s. skáldsögur, ljóð, barna- og ungmennabækur, ævisögur og smásögur og eru höfundarnir á öllum aldri. Í ár hljóta viðurkenninguna smásagnasafn og barnabók.