Search
Close this search box.

Skýrsla formanns á aðalfundi 2. maí 2019

Ágætu félagar.

Áður en ég hef mál mitt legg ég til að við minnumst þeirra félaga okkar sem hafa látist frá síðasta aðalfundi, en þeir eru: Kristín R. Thorlacius, Kristján Árnason, Guðjón Sveinsson, Jón R. Hjálmarsson, Erlingur Sigurðsson og Valgarður Egilsson.

Ég vil biðja fundarmenn um að rísa úr sætum og minnast þeirra sem fallið hafa frá með einnar mínútu þögn.

Þetta ár sem nú er liðið frá því sá sem hér stendur tók við formannstitli RSÍ hefur verið lærdómsríkt og að mörgu leyti viðburðaríkt líka. Hér í Gunnarshúsi er sjaldan lognmolla, sem betur fer, og þó að það sem á daga sambandsins drífur sé misskemmtilegt er að minnsta kosti ekkert ráðrúm til að láta sér leiðast.
Á þessu ári ákváðum við að standa fyrir námskeiðum hér í húsinu fyrir félagsmenn um mál sem höfundar hafa brýna þörf fyrir að fræðast um vegna starfa sinna. Brynja Baldursdóttir stýrði námskeiði fyrir þá sem hugðust sækja um starfslaun. Farið var yfir vinnulag við umsóknir, hvað bæri að varast í því ferli og hvað væri vænlegra til árangurs. Brynja gat miðlað af innanbúðarreynslu, þar sem hún sat í úthlutunarnefnd í þrjú ár. Inga Jóna Óskarsdóttir viðurkenndur bókari hélt síðan námskeið um bókhald og skattamál einyrkja. Bæði námskeiðin þóttu mjög áhugaverð og sérlega gagnleg og þátttaka var nokkuð góð. RSÍ hefur hug á að bjóða áfram uppá námskeið um sömu mál og ýmislegt annað sem getur komið rithöfundum að gagni og eru allar hugmyndir og tillögur afskaplega vel þegnar.

Eins og flestir vita var samþykkt á alþingi lagafrumvarp um stuðning við útgáfu bóka á íslensku. Um leið og frumvarpið var lagt fram varð það ljóst að fyrirheit núverandi stjórnarflokka um að fella niður virðisaukaskatt af bókum yrðu ekki efnd. Þetta voru auðvitað gríðarleg vonbrigði, svo gripið sé til staðlaðs orðalags. Í beinu framhaldi sat stjórn RSÍ fund með menntamálaráðherra og starfsfólki ráðuneytisins þar sem farið var yfir helstu atriði frumvarpsins. Skilningur allra á þeim fundi var skýlaust sá að höfundagreiðslur teldust hluti af útgáfukostnaði og að endurgreiðslur til útgefena ættu því skilyrðislaust skila sér til höfunda. Við höfum líka fengið ótvíræð skilaboð um það frá menntamálaráðherra að ekki megi túlka lögin á annan hátt. Og það er deginum ljósara að Rithöfundasamband Íslands ætlar sér að tryggja að með tilkomu þessara laga verði kjarabætur rithöfunda ekki minni en þær hefðu orðið ef staðið hefði verið við afnám virðisaukaskattsins. Án höfunda verður engin bókaútgáfa og það er eiginlega hjákátlegt að þurfa að segja jafnaugljós sannindi upphátt, en samt er eins og á vissum stöðum sé litið á rithöfunda sem einhvers konar afætur á forlögunum. Þess vegna getum við ekki hætt að orða það sem ætti að liggja í augum uppi fyrr en þeir sem á stundum hafa ráð okkar í hendi sér hafa skilið það til fulls.

En fleira þarf að segja um kjaramál og lífskjör rithöfunda á Íslandi. Stjórn RSÍ kallaði menntamálaráðherra á sinn fund til að kynna niðurstöður úr nýlegri kjarakönnun sem sambandið stóð fyrir. Á fundinum fórum við yfir nokkrar sláandi staðreyndir sem könnunin leiddi í ljós. Þeim sem ekki hafa séð þessar upplýsingar áður eða reynt þessi kjör á eigin skinni bregður yfirleitt illa í brún þegar þær eru kynntar. Svo var einnig í þetta skipti. Ráðherrann var okkur sammála um að margt yrði að breytast ef kjör rithöfunda ættu að verða mannsæmandi. Nú er að komast á samstarf á milli RSÍ og ráðuneytisins sem á að fleyta þessum málum fram á við. Við höldum fast í vonina um að einhver árangur sé í augsýn.

Og hvað viljum við að breytist til þess að rithöfundar geti sinnt hlutverki sínu í samfélaginu og lifað af vinnu sinni? Það er auðvitað fjölmargt, en hér eru veigamikil atriði:

1. Starf rithöfunda þarf að skilgreina sem fullt starf en ekki hlutastarf. Starfslaun þurfa að hækka í samræmi við það.
2. Rithöfundum á starfslaunum þarf að fjölga verulega.
3. Tryggja þarf samfellu í starfi höfunda með því að fleiri höfundar séu á launum alla mánuði ársins.
4. Bókasafnssjóður þarf að eflast til mikilla muna.
5. Endurgreiðslur á útgáfukostnaði til bókaútgefenda mega ekki verða til þess að heildsöluverð bóka lækki, þar sem það mun skerða hlut höfunda.
6. Öllum þarf að vera ljóst að rithöfundar á miðjum aldri með stórt höfundaverk eru EKKI búnir að koma sér vel fyrir fjárhagslega. Skert starfslaun höfunda sem verið hafa á árslaunum lengst af starfsferli sínum þýða einfaldlega að þeir geti ekki lengur lifað af höfundastarfinu. Hvaða starf á almennum vinnumarkaði stendur sextugum rithöfundum til boða? Og er það gróði fyrir íslenskt samfélag að gera höfundum ókleift að skrifa eftir að sextugsaldri er náð? Við þurfum að finna leið til að „tappa af“ launasjóði en gera um leið höfundum með gríðarlegt ævistarf að baki kleift að halda áfram og skila jafnvel enn meiri menningarverðmætum til samfélagsins.

En það eru ekki einungis starslaunin sem skipta okkur höfunda máli. Við höfum nú þegar blásið til samningaviðræðna við ýmsa viðsemjendur okkar því alls staðar er mjög brýnt að rétta okkar hlut.

Nýlega voru skipaðar samninganefndir sem ætlað er að endurskoða samninga við Félag bókaútgefenda, annars vegar höfundasamninga og hins vegar samninga þýðenda. Ljóst er að margt má betur fara í þeim samningum sem nú eru látnir gilda og því löngu orðið tímabært að gera þar bragarbót á, enda eru þeir komnir til ára sinna. Vinna að kröfugerðum er langt komin og við vonumst til að hægt verði að fara í snarpar og árangursríkar viðræður áður en sumarið brestur á af fullum þunga. Ef það gerist þá einhvern tíma – en það er önnur saga.

Við bíðum enn eftir þeim Godot sem sér um samningagerð fyrir hönd Ríkisútvarpsins ohf. Samninganefnd RÚV hefur ekki gefið kost á viðræðum og heldur ekki svarað tillögum RSÍ að rammasamningi. Nú eru að verða tvö ár síðan þessar viðræður fóru af stað og satt að segja er þolinmæði okkar á þrotum. Við getum ekki sætt okkur við þann dónaskap að kröfum okkar og hugmyndum sé einfaldlega ekki svarað. Við munum því á næstunni gera harða hríð að RÚV og krefjast þess að þetta mál verði klárað.

Starfshópur sem stofnaður var af RSÍ og Félagi leikskálda og handritshöfunda (FLH) hefur nú unnið um nokkurt skeið að því að móta rammasamning handritshöfunda og framleiðenda í kvikmyndum og sjónvarpi. Hópurinn hefur rýnt í sambærilega samninga frá öðrum löndum og það er von beggja félaganna sem að honum standa að hægt verði að ná kvikmyndaframleiðendum að samningaborðinu áður en langt um líður. Handritshöfundar búa við óþolandi frumskógarlögmál í kjaramálum og það er oft þyngra en tárum taki að heyra af því hvernig framleiðendur traðka á þeim skapandi listamönnum sem sannarlega leggja grunninn að hverju kvikmyndaverki. Handrit kvikmyndar eða sjónvarpsþáttar er einn allra mikilvægasti hlekkurinn í framleiðslukeðjunni. Hins vegar virðist handritshöfundurinn iðurlega lenda neðst í fæðukeðjunni – vera sá sem minnst ber úr býtum, jafnvel þegar best gengur og aðrir hljóta sanngjarna umbun fyrir sitt framlag.

Frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu berast ýmis plögg, tillögur og reglugerðir sem okkur er vissara að lúslesa, því satt að segja skín alltof oft út úr þeim gögnum skilningsleysi á hlutverki listamanna í samfélaginu, svo ekki sé minnst á kjör þeirra.

Okkur barst ekki alls fyrir löngu þingsályktunartillaga með titlinum Íslenska sem opinbert mál á Íslandi. Stjórn RSÍ hafði eitt og annað við þá tillögu að athuga og lét ráðuneytisfólk vita af því. Einkum furðuðum við okkur á því að í tillögunni skyldi lítið sem ekkert vikið að hlutverki höfunda sem skrifa á íslensku. Einhverjum hefði fundist það liggja í augum uppi að íslenskar bókmenntir og ritlistir hvers konar væru einn af hornsteinum íslenskrar tungu. Með bættum kjörum rithöfunda og eflingu þeirra sjóða sem fæða af sér íslensk verk, hvort sem er á bók, á leiksviði, í sjónvarpi, útvarpi, kvikmyndum eða á öðru formi, tryggjum við best veg og hag íslenskunnar. Í framhaldi var stjórnarfólk kallað á fund allsherjarnefndar Alþingis til að skýra mál sitt. Við verðum að vona að sjónarmið rithöfunda og annarra listamanna verði tekin til greina.

Málefni Hljóðbókasafns hafa borið ótt og títt á góma undanfarna mánuði. Einkum er það óhófleg dreifing á verkum safnsins sem veldur okkur rithöfundum angri. Guðmundur Andri Thorsson þingmaður og félagi í RSÍ beindi fyrirspurn til menntamálaráðherra varðandi Hljóðbókasafn, þar sem hann spyr meðal annars hvort til standi að skoða starfsemi safnsins í ljósi breyttra markaðsaðstæðna. Einnig hvort ráðherra telji að sanngjarnar greiðslur fyrir afnot komi til höfunda og annarra rétthafa. Þessi fyrirspurn kom fram 21. febrúar og ráðherra hefur enn ekki svarað henni. Við bíðum spennt eftir svari, þar sem öllum má vera ljóst að þær greiðslur sem berast til höfunda eru ekki í nokkru samræmi við þann feykistóra hóp sem notar Hljóðbókasafnið að staðaldri. Þetta er stórt mál og mikilvægt og þarfnast fullrar athygli bæði okkar og stjórnvalda.

Nú liggur líka fyrir alþingi frumvarp til laga um tekjuskatt og staðgreiðslu skatts af fjármagnstekjum. Í því segir meðal annars: „Með frumvarpi þessu er stigið næsta skref til eflingar listum og menningu og lagt til að höfundagreiðslur frá viðurkenndum samtökum rétthafa sem greiddar eru til höfunda og/eða annarra einstaklinga sem rétthafa verði skattlagðar sem eignatekjur.“ Þetta er auðvitað gott og blessað, þar sem skattur af eignatekjum er umtalsvert lægri en almennur tekjuskattur. RSÍ hefur hins vegar gert athugasemdir við frumvarpið, þar sem við viljum að gengið verði lengra og allar afleiddar tekjur af höfundaverkum verði einnig skilgreindar sem eignatekjur, hvort sem greiðslurnar berast frá viðurkenndum samtökum rétthafa eða ekki. Þar með teldist til dæmis sala á kvikmyndarétti eða leikgerð á skáldsögu afleiddar tekjur og skattlögð samkvæmt því. Ef flutningsmaður frumvarpsins, hæstvirtur fjármála- og efnahagsráðherra, tekur mark á þessari sanngirniskröfu verður það til verulegra hagsbóta fyrir höfunda og eigendur höfundaréttar.

Af erlendum samskiptum er það helst að frétta að formaður og framkvæmdastjóri sóttu fundi í útlöndum, fyrst í Kaupmannahöfn, þar sem haldin var ráðstefna samtaka norrænna rithöfundafélaga, Nordisk Forfatter og Oversetter Råd, NFOR, og um leið var haldið uppá 100 ára afmæli þessa norræna samstarfs. Hluti af afmælisdagskránni var sýning á stuttri kvikmynd sem tekin var 1919 þar sem rithöfundar mættu til fyrsta fundarins og það gladdi hjörtu okkar Frónbúanna að sjá Gunnar Gunnarsson á meðal stofnfélaga. Við höfum sem sagt verið með frá upphafi og full ástæða til að halda uppá það.

Annan fund sóttum við í New York, en það var ársfundur International Authors Forum, sem RSÍ gerðist aðili að fyrir skömmu.

Rauði þráðurinn á báðum þessum ráðstefnum var áhyggjur skapandi listamanna af ólöglegri og taumlausri dreifingu efnis á veraldarvefnum annars vegar og hins vegar viðskiptarisinn amazon.com, sem gerir sig um þessar mundir líklegan til að gleypa alla útgáfustarfsemi sem að kjafti kemur. Mörgum í rithöfundastétt þykir þetta ógnvekjandi þróun, þó að fulltrúi dönsku neytendasamtakanna á ráðstefnunni í Kaupmannahöfn tæki henni fagnandi og teldi að aðkoma Amazon að bóksölu og bókaútgáfu hefði þegar stórlækkað bókaverð til neytenda og sú þróun hlyti að halda áfram. Það yrði svo bara í höndum höfunda að gera almennilega samninga beint við útgáfurisann.

Það er sem sagt á ýmsum vígstöðvum sem mikilvægt er að rithöfundar haldi vöku sinni og einmitt vegna hinnar öru þróunar í útgáfu og dreifingarmálum er afskaplega brýnt að við störfum þétt með kollegum okkar í öðrum löndum til þess að verja höfundarétt okkar, hvort sem er gegn sjóræningjum sem vilja gera hann ómerkan, eða auðhringjum sem ætla að gera okkur að þrælslunduðum vinnudýrum til að byggja upp ennþá stærra og auðugra veldi.

Og hvað fleira? Við hér á Dyngjuveginum fylltumst ofsakæti þegar bókmenntadagskrá okkar Skáld í skólum hlaut sérstaka viðurkenningu á degi íslenskrar tungu á síðasta ári. Skáld í skólum hóf göngu sína árið 2006 og síðan hafa rithöfunar af öllum stærðum og gerðum heimsótt skóla landsins með ríflega 60 mismunandi dagskrár. Það var Aðalsteinn Ásberg sem var helsti hvatamaður að þessari mikilvægu kynningu á íslenskum samtímabókmenntum og það var einnig hann sem veitti viðurkenningunni viðtöku fyrir hönd Höfundamiðstöðvar Rithöfundasambands Íslands.

Maístjarnan, ljóðaverðlaun Rithöfundasambandsins og Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns verða veitt í þriðja sinn 20. maí næstkomandi, en tilnefningar til verðlaunanna voru kynntar hér í Gunnarshúsi fyrir tveimur dögum. Það eru sex útgefnar ljóðabækur sem tilnefndar eru, en til álita komu allar ljóðabækur sem gefnar voru út á síðasta ári.

Eftir miklar vangaveltur og flóknar umræður varð stjórn RSÍ nýverið sammála um að láta hanna nýtt merki fyrir sambandið. Það mál er komið í vinnslu og verður væntanlega eitthvað af því að frétta áður en langt um líður.

Bókmenntahátíð í Reykjavík er nýafstaðin og af því tilefni efndu rithöfundar og útgefendur til fótboltakeppni á KR vellinum í Reykjavík. Leikurinn var æsispennandi og drengilega háður af hálfu rithöfunda, en tvennum sögum fer af heilindum útgefenda. Og kemur kannski engum á óvart. Leikurinn fór sem sagt 4-3 fyrir útgefendur. Framkvæmdastjóri RSÍ hefur af sinni alkunnu röggsemi brugðist snaggaralega við úrslitunum og fest kaup á markmannshönskum handa liðinu, sem vonast er til að tryggi okkar fólki sigur í næsta leik. Og þessi naumi ósigur er vitaskuld enginn fyrirboði um árangur okkar í komandi kjarasamningum.

Rithöfundasamband Íslands er stéttarfélag allra rithöfunda, óháð því í hvaða miðlum verk þeirra koma fyrir almenningssjónir. Við viljum kappkosta að hér eigi allir vísan stuðning, hvort sem um ræðir þá sem skrifa bækur, skáldverk, leikrit, handrit að kvikmyndum, útvarps eða sjónvarpsefni, ljóð, smásögur eða önnur verk sem fallið geta undir ritlist. Hér í Gunnarshúsi er rekin skrifstofa, þjónustumiðstöð og félagsheimili rithöfunda. Þetta vita auðvitað allir sem hér sitja, en ég vil eftir sem áður hvetja félagsmenn til að nýta sér þjónustu Rithöfundasambandsins hiklaust, hvenær sem uppá kunna að koma vafamál sem gott er að fá aðstoð við að greiða úr. Við veitum lögfræðiaðstoð þegar það á við, við búum yfir sérþekkingu í málum sem snerta réttindi höfunda, við þiggjum með þökkum allar ábendingar um það sem betur má fara í starfsemi sambandsins, við bjóðum aðstöðu hér í húsinu til fundahalda, upplestra og hvers kyns samkomuhalds félagsmanna okkar. Og svo er yfirleitt heitt á könnunni og oft ráðrúm til að tylla sér og spjalla um hvaðeina sem snertir lífið og listina.

Sem sagt: Verið alltaf velkomin í Gunnarshús.

Kærar þakkir

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email