Search
Close this search box.

Þórdís Helgadóttir nýtt Leikskáld Borgarleikhússins

Þórdís Helgadóttir hefur verið valin Leikskáld Borgarleikhússins. Kristín Eysteinsdóttir, leikhússtjóri, tilkynnti um valið á móttöku í Borgarleikhúsinu í dag. Hún tekur við af Birni Leó Brynjarssyni en verk hans Magnum Opus verður sýnt í Borgarleikhúsinu á næsta leikári. 

Brynjólfur Bjarnason, Vigdís Finnbogadóttir, Þórdís Helgadóttir og Kristín Eysteinsdóttir.

Fyrri leikskáld hússins eru Tyrfingur Tyrfingsson, Salka Guðmundsdóttir, Auður Jónsdóttir, Jón Gnarr og Kristín Marja Baldursdóttir.

Þórdís Helgadóttir er rithöfundur og leikskáld. Hún er menntuð í heimspeki, ritstjórn og ritlist og hlaut Fulbright-styrk til framhaldsnáms í heimspeki við Rutgers-háskóla í New Jersey. Smásagnasafn hennar Keisaramörgæsir kom út 2018 og leikverkið Þensla var sýnt í Borgarleikhúsinu árið 2019 sem hluti af sýningunni Núna! 2019. Með Svikaskáldum hefur Þórdís gefið út ljóðabókina Ég er ekki að rétta upp hönd, og smásögur hennar, ljóð, esseyjur og þýðingar hafa birst víða í tímaritum og bókum.

Það er stjórn Leikritunarsjóðs Leikfélags Reykjavíkur sem stendur fyrir valinu en í henni sitja Frú Vigdís Finnbogadóttir, Brynjólfur Bjarnason auk Kristínar Eysteinsdóttur, leikhússtjóra. Sjóðurinn var stofnaður árið 2007. Markmið hans er að efla nýsköpun og fjölbreytni í íslenskri leikritun, auka vægi leikritunar í samfélaginu og stuðla að því að hún njóti virðingar í samfélagi lista. Stefnt er að því að afrakstur vinnu leikskálda sjáist í starfsemi Borgarleikhúss. Annað megin markmið sjóðsins er að stuðla að auknum áhuga ungs fólks á leikritunarforminu og kynna verðandi leikskáldum lögmál leiksviðsins.

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email