Kristján Árnason, bókmenntafræðingur, rithöfundur og fyrrverandi háskólakennari er látinn, 83 ára að aldri.
Kristján var fæddur í Reykjavík þann 26. september 1934. Hann stundaði nám við MR og útskrifaðist þaðan með stúdentspróf 1953. Þá útskrifaðist hann með BA-próf í grísku og latínu frá HÍ 1962 og lagði stund á nám í heimspeki, bókmenntum og fornmálum við háskóla í Þýskalandi og Sviss á árunum 1953-1958 og 1963-1965.
Kristján starfaði m.a. sem kennari við Menntaskólann á Akureyri og Kennaraskóla Íslands á sjöunda áratugnum og hjá Menntaskólanum á Laugarvatni á árabilinu 1967-1990.
Eftir Kristján liggja fjölmörg skáldverk og þýðingar en hann var sérstaklega gefinn fyrir gríska menningu og listir og var t.a.m. formaður Grikklandsvinafélagsins Hellas og var sæmdur stórriddarakrossi hinnar grísku Fönix-orðu, fyrir framlag sitt til eflingar grískum menntum á Íslandi.
Hann gaf út ljóðabækurnar Rústir 1962 og Einn dag enn 1990 sem var tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna. Hann var þó einnig þekktur fyrir þýðingaverk sín en hann þýddi leikrit, ljóð, skáldsögur og fræðirit m.a. eftir höfundana Aristóteles, Aristófanes, Catullus, François Mauriac, Goethe og Thomas Mann og hlaut árið 2010 íslensku þýðingaverðlaunin fyrir þýðingu sína á Ummyndunum eftir Óvíd.
Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands gaf út helstu ritgerðir hans um bókmenntir, þýðingarlist og heimspeki í ritinu Hið fagra er satt á sjötugsafmæli hans.
Rithöfundasamband Íslands þakkar Kristjáni samfylgdina og sendir fjölskyldu hans samúðarkveðjur.