Í ár, þann 10. desember, eru liðin 70 ár síðan Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna var samþykkt af 48 aðildarríkjum SÞ, þar á meðal Íslandi. Til að fagna þessum merku tímamótum hafa sendinefnd Evrópusambandsins á Íslandi, upplýsingaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna fyrir Vestur-Evrópu, Rithöfundasamband Íslands og Hugvísindastofnun Háskóla Íslands ákveðið að efna til smásagnasamkeppni.
Samkeppnin er opin öllum. Engar sérstakar kröfur eru gerðar um efni sagnanna, einungis að þær fjalli á einn eða annan hátt um mannréttindi eða skort á þeim og allt þar á milli. Þriggja manna dómnefnd mun taka við innsendum verkum og verður farið í einu og öllu eftir reglum Rithöfundasambands Íslands um slík verk.
„Þetta voru ótrúlega þýðingarmikil tímamót í mannkynssögunni, að algild mannréttindi væru samþykkt á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, árið 1948. Við tökum mannréttindum á Vesturlöndum sem gefnum, en síðustu ár hafa látið á sér kræla raddir sem tala gegn þeim, og gegn alþjóðasamstarfi eins og Sameinuðu þjóðunum. Því viljum við hvetja til umræðu í samfélaginu um mannréttindi frá sem flestum sjónarhornum. Við þurfum öll að sporna við þjóðernissinnaðri hatursorðræðu, og fólki sem hvetur til illrar meðferðar á þeim sem veikastir eru fyrir eða skera sig úr,“ segir Michael Mann, sendiherra Evrópusambandsins á Íslandi.
Vinningshafinn hlýtur að verðlaunum þriggja vikna dvöl í Evrópu á næsta ári, en nákvæmari staðsetning verður ákveðin í samráði við vinningshafann. Dvölin er hugsuð sem vinnuferð, þar sem höfundur getur unnið frekar að ritstörfum. Ferðir og uppihald innifalið.
Senda má inn sögur allt fram til 10. október 2018. Ef ekki berast nægilega góðar sögur áskilur dómnefnd sér rétt til að hafna öllu innsendu efni. Miðað er við að sögurnar verði á bilinu 1.500 til 5.000 orð að lengd. Nánari útlistun á skilyrðum má finna á heimasíðu Rithöfundasambandsins, sem hefur umsjón með framkvæmd samkeppninnar. Hverri sögu skal skila í 3 eintökum undir dulnefni. Með skal fylgja umslag merkt með dulnefninu sem inniheldur nafn, heimilisfang, símanúmer og netfang höfundar. Einungis umslög sem fylgja sögum sem fá verðlaun verða opnuð og öllum gögnum verður fargað að keppni lokinni. Sögurnar mega ekki hafa birst áður. Greint verður frá niðurstöðum samkeppninnar og verðlaun veitt mánudaginn 10. desember 2018.
Sögum skal skilað með eftirfarandi utanáskrift:
Smásagnasamkeppni í tilefni af 70 ára afmæli Mannréttindayfirlýsingarinnar
Gunnarshúsi
Dyngjuvegi 8
104 Reykjavík
Dómnefnd skipa þau Ástráður Eysteinsson prófessor, Gauti Kristmannsson prófessor og Halldóra K. Thoroddsen rithöfundur.
Um aðstandendur samkeppninnar:
Sendinefnd Evrópusambandsins á Íslandi er fulltrúi ESB á Íslandi. Hún hefur stöðu sendiráðs, og er ein af 140 slíkum sendinefndum um víða veröld. Sendinefndin hefur haft aðsetur á Íslandi síðan árið 2010, en var áður staðsett í Ósló. Nánari upplýsingar veitir Klemens Þrastarson í síma 864 3386.
Upplýsingaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna fyrir Vestur-Evrópu. Nánari upplýsingar veitir Árni Snævarr: snaevarr@un.org.
Rithöfundasamband Íslands var stofnað 1947 og er stéttar- og fagfélag rithöfunda á Íslandi. Tilgangur félagsins er m.a. að gæta hagsmuna og réttar félagsmanna og að verja frelsi og heiður bókmenntanna. Rithöfundasambandið hefur aðsetur sitt í húsi Gunnars Gunnarssonar skálds við Dyngjuveg 8 í Reykjavík. Nánari upplýsingar veitir Tinna Ásgeirsdóttir: tinna@rsi.gagnaver.is eða í s. 857 0298.
Hugvísindastofnun Háskóla Íslands er rannsóknastofnun sem starfrækt er við Háskóla Íslands og heyrir undir Hugvísindasvið. Hún er miðstöð rannsókna á sviðinu og aðrar rannsóknastofnanir þess starfa innan vébanda hennar. Stofnunin hefur aðsetur í Aðalbyggingu Háskóla Íslands. Nánari upplýsingar veitir Margrét Guðmundsdóttir í síma 525 4462.