Karl Ágúst Úlfsson var kjörinn nýr formaður Rithöfundasambands Íslands á aðalfundi sambandsins í gær þann 26. apríl. Hann tekur við sem formaður af Kristínu Helgu Gunnarsdóttur sem gegnt hefur embættinu undanfarin fjögur ár.
Vilborg Davíðsdóttir var endurkjörin varaformaður og Bjarni Bjarnason endurkjörinn varamaður. Jón Gnarr var kjörinn meðstjórnandi í stað Hallgríms Helgasonar sem ekki gaf kost á sér til endurkjörs.
Auk ofantalinna sitja í stjórninni meðstjórnendurnir Margrét Tryggvadóttir og Vilhelm Anton Jónsson og varamaðurinn Sigurlín Bjarney Gísladóttir.
Á fundinum var Pétur Gunnarsson kjörinn heiðursfélagi Rithöfundasambands Íslands.