Jæja, kæru félagar.
Haustverkin kalla og við höldum áfram að stuðla að bættu umhverfi höfunda og hugverka. Unnið er í hljóðbókamálum og fyrirhugað að halda hádegisfund um streymisveitur til samráðs og upplýsingar í næstu viku, mánudaginn 11. september kl. 12. Fljótlega hefst vinna á vegum menntamálaráðuneytis við mótun bókmenntastefnu og RSÍ á aðild að því starfi, en til stendur að sú nefnd skili af sér 1. desember.
Að venju eru Skáld í skólum að taka flugið þetta haustið og Tinna Ásgeirsdóttir stýrir því verkefni. Þá er stjórn að hanna herferð til að minna á greiðslur til höfunda og þá hrindum við úr vör kynningarverkefni fyrir handritshöfunda. Lögfræðiaðstoð við félagsmenn hefur verið stórlega aukin, enda margir sem nýta sér og njóta góðs af. Samningaviðræðum við RÚV miðar og lögmaður RSÍ leiðir það starf ásamt tveimur öflugum félagsmönnum. Það er óskandi að breiðvirkur og nothæfur samningur við RÚV liggi fyrir á vetri komandi.
Við trúum á mátt hinna mörgu. Í starfsumhverfi einyrkjans býr slagkrafturinn í fjöldahreyfingunni. Félagsmenn fara víða og gera margvíslega samninga eða standa jafnvel samningslausir. Landslag ritverkafólks hefur breyst mikið á liðnum áratug. Miðlarnir eru fjölbreyttir og ungir höfundar sem slást í hópinn skrifa inn í ótal ramma, rafræna og stafræna. Við erum sterk undir stórri regnhlíf þar sem 500 félagsmenn sameinast um að reka öfluga veitu fyrir upplýsingar, fjármagn og faglega ráðgjöf.
Frá upphafi stofnunnar hefur félagið starfað sem stéttarfélag allra rithöfunda og þótt rekja megi uppruna félagsins allt til ársins 1928 þá má þakka öll núverandi réttindi rithöfunda sameiningu þeirra í eitt stórt samband árið 1974. Í kjölfarið fengu rithöfundar mátt hinna mörgu til samstöðu og réttindabaráttu sem hefur skilað sér í breiðfylkingu sem starfar á traustum grunni.
Skrifstofa og lögmenn RSÍ hafa í gegnum tíðina aðstoðað við samninga um kvikmyndarétt að bókverkum, frumsamin handrit og leikverk hverskonar ásamt annarri ritverkasmíð. Þannig er RSÍ og verður alltaf stéttarfélag höfunda að hverskyns handritum og skiptir þá engu á hvaða formi verkið er í endanlegri mynd. Innan okkar raða er fjöldi handritshöfunda og leikskálda og RSÍ hefur alltaf þjónustað þá og sinnt þeirra réttindamálum og mun áfram gera. Þetta tel ég rétt að segja hér í okkar stóra hóp ef vera skyldi að það vefðist fyrir einhverjum.
Við skulum halda hópinn. Við ritverkafólk finnum okkar ótal farvegi. Leiðir okkar liggja víða en hagsmunirnir eru sameiginlegir. Við skulum standa saman og styðja hvert við annað. Þannig náum við best að finna mennskunni farveg í gegnum list okkar, hversu ólík sem verk okkar eru.
Kær kveðja, Kristín Helga