Search
Close this search box.

Höfundar í Gunnarshúsi – Auður Ava Ólafsdóttir ,Kristín Ómarsdóttir, Sigurbjörg Þrastardóttir

3skaldkonur

Kristín Ómarsdóttir rithöfundur tekur á móti tveimur taugatrekktum höfundum jólabókaflóðsins, Auði Övu Ólafsdóttur og Sigurbjörgu Þrastardóttur, og segir þeim að þetta verði allt í lagi. Auður og Sigurbjörg lesa úr bókunum Ör og Óttaslegni trompetleikarinn og aðrar sögur. Þess á milli mun Kristín spyrja þær spurninga sem einungis dýralæknar kunna rétt svör við. Sjálf mun Kristín lesa brot úr bókmenntum framtíðarinnar.
Þungar veitingar verða á boðstólnum en kona í Drápshlíð hefur boðist til að baka stríðstertu.

Veislan fer fram fimmtudaginn 24. nóvember í Gunnarshúsi við Dyngjuveg, húsi Rithöfundasambands Íslands. Frítt inn. Húsið opnar klukkan 17. Dagskrá hefst kl. 17.30 og varir í klukkustund.

„Bestu stundirnar í lífi mínu eru þegar ég ligg einn uppi á heiði, ofan
í svefnpoka, með byssuna eldsnemma morguns, og bíð eftir að fuglarnir vakni. Maður þegir og horfir á hjarnið. Það er eins og að vera innan í kvenmannslegi. Maður er öruggur. Maður þarf ekki að fæðast. Maður þarf ekki að koma út.“
–úr Ör eftir Auði Övu Ólafsdóttur

Auður Ava Ólafsdóttir skrifar skáldsögur, leikrit og ljóð. Hún er líka textahöfundur popphljómsveitarinnar Milkywhale.

Kristín Ómarsdóttir skrifar skáldsögur, ljóð og leikrit. Hún ritar ennfremur höfundaviðtöl í Tímarit Máls og menningar.

Sigurbjörg Þrastardóttir skrifar ljóð, leikrit og skáldsögur. Hún flytur einnig fasta pistla í útvarpsþættinum Víðsjá.

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email