Search
Close this search box.

Höfundakvöld í Gunnarshúsi – Guðrún Guðlaugsdóttir, Páll Kristinn Pálsson og Sigurjón Magnússon.

gudrun_auglysing_dios_mynddsc02848-1img_9976

Guðrún Guðlaugsdóttir, Páll Kristinn Pálsson og Sigurjón Magnússon lesa upp og spjalla um nýútkomnar skáldsögur sínar í Gunnarshúsi að Dyngjuvegi 8 í Reykjavík fimmtudagskvöldið 17. nóvember nk. kl. 20.00.

Dauðinn í opna salnum er þriðja bókin í sakamálabálki Guðrúnar Guðlaugsdóttur um blaðamanninn Ölmu Jónsdóttur, þroskaðrar konu á tímamótum í lífi sínu. Áður hafa komið út Beinahúsið (2014) og Blaðamaður deyr (2015). „Á Ólympíumóti í bridge á Rhodos verður skyndilega niðamyrkur í opnum spilasal þar sem Alma Jónsdóttir blaðamaður horfir á viðureign Ítala og Íslendinga. Í myrkum salnum gerast óhugnanlegir atburðir. Leikurinn berst heim til Íslands og fyrr en varir er Alma farin að rannsaka dauðsföll sem tengjast bridgeheiminum.“

Ósk er ellefta bók Páls Kristins Pálssonar. Þetta er þroskasaga sem gerist á síðari hluta síðustu aldar. „Óskar Pétursson greinist á miðjum fertugsaldri með alvarlegan sjúkdóm. Frá barnæsku hefur hann búið yfir djúpstæðu leyndarmáli og við að horfast í augu við dauðann fyllist hann knýjandi þörf fyrir að sannleikurinn komi fram í dagsljósið. Hann hefst því handa við að skrifa sín eigin eftirmæli.“

Sonnettan er áttunda skáldsaga Sigurjóns Magnússonar, sem vakti strax mikla athygli með fyrstu sögu sinni Góða nótt, Silja árið 1997. „Er alþekkt sonnetta Snorra Hjartarsonar – Land, þjóð og tunga – andstæð fjölmenningu á Íslandi? Um það er deilt innan menntaskólans þar sem Tómas kennir. Deilurnar leiða til þess að hann hrekst úr starfi. Sumarið eftir fer hann ásamt eiginkonu sinni Selmu í frí til Spánar. Þau hafa fjarlægst hvort annað, en Tómas vonar að fríið geti snúið þeirri þróun við. Á Spáni kynnast þau fólki af ýmsu þjóðerni. Þar eru líka nokkrir Íslendingar – og Tómasi verður fljótlega ljóst að skuggi sonnettu-deilunnar er lengri en hann óraði fyrir.“

Dagskráin hefst kl. 20.00. Boðið upp á léttar veitingar. Allir velkomnir.

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email