Höfundakvöld í Gunnarshúsi fimmtudaginn 27. október kl. 20.00 er helgað Álfrúnu Gunnlaugsdóttur sem í haust sendir frá sér nýja skáldsögu: Fórnarleikar.
Skáldsaga frá Álfrúnu sætir alltaf miklum tíðindum. Álfrún hefur fyrir löngu skipað sér í fremstu röð íslenskra rithöfunda. Fyrsta skáldverk hennar, smásagnasafnið Af manna völdum, kom út 1982 og sló strax sérstakan tón. Síðan hefur hún sent frá sér sex skáldsögur, Þel (1984), Hringsól (1987), Hvatt að rúnum (1993), Yfir Ebrófljótið (2001), Rán (2008) og Siglingin um síkin (2012). Hún er menntuð í bókmenntafræði á Spáni og í Sviss, var fyrsti kennarinn í nýrri deild, Almennri bókmenntafræði, við Háskóla Íslands og kenndi þar um langt árabil.
Spjallað verður við Álfrúnu um verk hennar, um lífið og tilveruna, um heima og geima, frásagnarlist og fagurfræði, um skáldskap og stjórnmál, um Spán þar sem hún hefur mikið dvalist, um Ísland og íslenskt samfélag, um hvað sem helst, en þó aðallega um nýju skáldsöguna sem á eftir að gleðja mjög alla dygga lesendur Álfrúnar og ekki síður þá sem eiga eftir að uppgötva hana.
Í hléi verður boðið upp á spænskt að narta í og hvítvín að sötra.
Eftir hlé verður opnað (upp í hálfa gátt) fyrir spurningar úr sal en þar sem heyrnarskynið er ekki skilningarvitið sem höfundarnæmi Álfrúnar Gunnlaugsdóttur reiðir sig mest á er vel þegið ef salurinn er til í að varpa fram spurningum sínum og því sem honum liggur á hjarta og vill vita hér á vegginn fyrirfram eða í einkaskilaboðum til umsónarmanns.
Umsjónarmaður er Hermann Stefánsson.
Allir velkomnir.