Search
Close this search box.

Kristín Ómarsdóttir og Sigurlín Bjarney Gísladóttir halda áfram að skrifast á:

Tryllt tungl, kannski-árátta og vissjónsessjón

Sæl mín kæra!

Þá höfum við látið framkalla myndirnar okkar og sýnt öllum þær sem kæra sig um að skoða. Það getur verið ótrúlega mikil togstreita í þessu að vilja bæði sýna sig og fela á sama tíma, ég man þú minntist á þetta einu sinni í sjónvarpsviðtali og ég þóttist kannast við þessa tilfinningu. Samt hafði ég ekki tekið eftir henni áður en þegar þú nefndir þetta þá rann upp fyrir mér ljós. Um þetta snýst öll sköpun: að renna upp ljósum, draga gardínurnar frá augum sem vita ekki að gardínur byrgja sýn, nú eða draga nýjar gardínur fyrir sem gefa nýja skynjun. Allaveganna, draga gardínur (fyrir eða frá, hægt eða hratt), um það snýst þetta allt. Við ættum kannski að setja upp myndlistarsýningu þar sem gardínur dragast lárétt eða ljóðrétt (hmm, ég get aldrei skrifað lóðrétt rétt, ljóðið brýst þar inn) fyrir glugga eða spegla eða myndir eða kannski glugga þar sem sjá má spegilmynd af mynd.

Leikritin mín eru ekkert á leiðinni á neina fjalir en þeirra tími kemur seinna, á einhverju öðru tungli en þessu og þá færðu sæti á besta bekknum. Mig langar ekkert að skrifa núna en geri það samt. Þessi dagur hefur verið svo undarlegur. Ég finn að þetta verður bara hversdagsflaumur. Dagurinn byrjaði hægt og rólega með góðum kaffibollum, einbeitingu og lestri og spjalli. Síðan þurfti ég að fara til læknis sem krukkaði í mér en það leið ekki yfir mig (eins og gerist víst stundum, sögðu læknirinn og hjúkkan á staðnum) og ég sagði þeim frá dagbókarfærslum mínum frá því ég var 14 ára og sýna svart á hvítu mikla fyrirtíðarspennu sem ég sé í dag en sá ekki þá en ég vildi líka bara rausa yfir þeim til að dreifa huganum en strax eftir það spólaði ég til Keflavíkur að sækja veikan son úr pössun, til að spóla með hann aftur í bæinn og til læknis (það vellur úr öðru eyranu) en þar þurftum við að bíða mjög lengi. Heilsugæslustöðin var nýlega opnuð aftur eftir breytingar og lagfæringar á húsnæðinu og í fréttabréfi á borðinu sá ég að hún þjónar um 16.000 manns. Uppgert húsnæði á besta stað í bænum og bara einn læknir á vakt. Jamm, síðdegisvaktin fyrir 16.000 manns státar sig af nýjum stólum og pússuðum veggjum en múrskemmdirnar eru á öðrum sviðum. Kannski ættum við auðveldara með að byggja heilbrigðiskerfið upp ef það væri bygging. En þessi bið varð til þess að dóttirin varð mjög sein á námskeið og ég tættist um alla borg að sækja og skutla og flautaði á hægfara bíla. Þetta voru ítölsk element í þessum degi og það var eins og ég væri hálftíma of sein í lífinu. En núna er þögn í húsinu, búið að vaska upp og ganga frá þvottinum, gefa lyf og líma plástra. Rétt áðan stökk ég út í bíl að sækja poka sem höfðu gleymst þar og þá blasti tunglið við mér. Það er einhver tryllingur í þessu tungli. Eða er tryllingur í mér og ég klíni sjálfri mér á tunglið? Þetta tungl er öllu vant – við mænum á það stöðugt og smyrjum sjálfum okkur yfir það. Það er eitthvað magnað/dularfullt við það að hafa svona stórt ljós á spangólandi svörtum himni. Einu sinni settist ég niður með dagbókina mína og kannaði aftur í tímann tunglstöðu og skapsveiflur og gat ekki fundið samhengi. Hefur tunglið einhver áhrif á þig? Vonandi hefur þú verið alfarið laus við nokkurs konar trylling í dag og dvalið í annarri tímavídd.

Ciao,

Bjarney

 

23. febrúar 2016

Sæl mín kæra,

Takk fyrir bréfið sem ég las í nótt og skrifaði um hæl svar, en komst ekki í að ritvéla fyrr en nú. Bréfið fékk síðan viðbótarlíf – viðbótarlíf? – í draumum, en ekki fæ ég leyfi til að sækja afritið. Næst mun ég skrifa þér um kvöld, þegar allt er orðið hljótt. Sé fyrir mér leikrit sem felur sig og sýnir til skiptis – ég er hníf jafnt hrifin af sýnisþörf og feimni. Pollróleg bíð ég á bekk í leikhúsi þínu á öðru tungli en tunglið hér lék mig hræðilega í gær, platti lagðist á hausinn. (Eða lagði ég plattann ofan á hausinn?) Ég orti sorgmædd ljóð. Ég las bók, bókin létti smávegis á plattþunganum á meðan á lestrinum stóð. Svo gerðist kraftaverkið: um kvöldmatarleytið, að ég reif blöð af salathaus og lagði á disk, skar tómat ofan á, hellti olíu yfir, sítrónusafa, berki, hvítlauk, og er ég hafði borðað salatið varð ég ofsaglöð. Vissi ekki fyrr hvað salat gerir mann glaðan. Ef til vill hafði tunglið haft þau áhrif fyrr um daginn að ég breyttist í vælukjóa, þetta fulla tungl í gær saug snuð. Í morgun skrapp ég síðan á tælenska heilsugæslustöð. Með aðstoð spjallsímans. Þar klæðist hjúkrunarfólk fallegum fötum, úr silki, stöðvarnar eru flottar, með besta búnaði. Það væri skemmtilegt ef kjólar kæmust aftur í notkun á spítölunum hér. Núverandi buxnaklæðnaður starfsliðsins minnir á trúarreglu sem iðkar sjálfsafneitun. Sting upp á að Landspítalinn hanni fleiri tegundir af einkennisfötum og fælist ekki aðskorin snið. Þessi eina manneskja á heilsugæslustöðinni þinni sem læknar sextánþúsundir gæti verið staðgengill Jesús. Ó, alveg rétt: nóttina áður en ég borðaði salatið dreymdi mig að ég skar niður kreditkort og át. Þau koma án bragðs.

Ciao,k
26. febrúar 2016

Sæl mín kæra!

Jú, sko hamingjan býr í salatinu, beibí. (Hefurðu tekið eftir því hvað setningar verða skemmtilegar þegar maður endar þær á orðinu beibí?) Best er að skvetta yfir salatið annað hvort sítrónu- eða chiliolíu og svo elska ég bláberin sem er farið að selja í fötum í búðunum, þá þarf maður bara að taka upp fulla lúku og skvetta yfir diska og skálar og blár himinn birtist um allt (enginn hnífur, engin híði eða hýði, man aldrei hvar yfsilonið vill vera og enginn skrælingur), bara skvetta af heiðbláum himni. Ég þarf að skrifa þetta bréf í litlum gusum, kemst í tölvuna af og til. Finnst það svo merkilegt og skrítið hvað sköpunarkrafturinn er misjafn á milli daga og milli mínútna. Í dag er mikill skriðþungi en aðra daga þarf ég að draga hvert orð upp eins og flísar djúpt úr iljunum. Æ, kannski er þetta ekkert merkilegra en meltingin, hún er jú misjöfn á milli daga og ekkert eðlilegra. Tek eftir því hvað ég nota orðið ,,kannski” mikið, þannig dreg ég úr og er varkár. Slæ varnagla. Þarf að fækka þessum ,,kannskium” í lífi mínu og texta, vera meira yfirlýsingaglöð, setja hluti fram sem staðhæfingar og standa styrkum fótum með sannfæringu minni sem er yfirleitt eins og blakandi lauf. Kannski fylgir þetta allt, nei ekki kannski (hér breytist setningin í yfirlýsingu): Þetta fylgir dægursveiflunum og nú sé ég hvað orðið ,,dægursveifla” er svakalega fallegt, það er einhver dulinn dans í því, þetta er örugglega (ekki kannski) nafn á flugutegund sem er svona fluga með langa vængi sem fara mjög hratt um andrúmsloftið, svo hratt að maður greinir ekki sláttinn. Þarf að rjúka, meira seinna, örugglega og ekki kannski.

Komin aftur og komið kvöld. Raða í mig snakki og finnst ég ekki hafa neitt að segja. Ég elskaði veðrið í dag, hlýtt og sól en samt snjór og ég brunaði í Breiðholtið til að komast í sleðabrekkur. Þessi dagur heimtaði útiveru og fékk hana. Sonurinn heimtaði rafknúinn vélsleða og fékk hann ekki. Fór í búð og keypti granatepli og sítrónur. Ég er yfirleitt ekki í rónni fyrr en granatepli kemst í hús, lúrir með sinn blóðrauða safa í skúffu í ísskápnum. Núna er eins og skriðþunginn sé að breytast og ég þurfi að sækja flísatöngina. Á kvöldin kemur yfir mig mikill doði, eitthvað sem ég er farin að venja taugakerfið á, og þessum doða fylgir gláp á fésbókarfréttaveitu og aðrar fréttaveitur því það er alltaf einhvers staðar eitthvað alveg að fara að gerast, það er einmitt núna sem ég er alveg að fara að fá svakalegar fréttir, jákvæðar fréttir sko, kannski er þetta ekki doði heldur spennufíkn sem er samt líka doði (ó þarna kom kannski, laumaði sér lúmst og loðið inn í hugsunina, sveiattan) en það er eitthvað að fara að gerast, eitthvað alveg stórkostlegt. Rifjaði í morgun upp gamla möntru sem ég bjó mér til fyrir löngu síðan, kyrjaði hana nokkrum sinnum í dag: ,,Allt er eins og það á að vera, líf mitt er eins og það á að vera og allt gerist í réttri röð.”

Ég hlakka til að lesa næsta bréf frá þér og vonandi náði sólin að bræða þig í dag. Óska ykkur Hrafni til hamingju með DV tilnefninguna, njótið vel 🙂 Já, var að uppgötva í þessum töluðu orðum að þú átt sama afmælisdag og barnsfaðir minn, hann fæddist á 17 ára afmælisdaginn þinn, skemmtilegt.

Bestubestu,

Bjarney

27. febrúar 2016

Sæl mín kæra,

Mm, skemmtilegt bréf, takk, kom mér í gott skap, takk, takk, eins og sigling eftir á, þannig leið mér við lesturinn, á báti eftir langri á, umkringd gróðri. Kannski híði, hýði, bláberin, dægursveiflurnar, sleðinn, sítrónan, granateplið, flísatöngin, hafi búið til hugargaldurinn, sem kom mér í árabátinn; þar dvel ég enn og er líklega að byrja að veiða með færi, litla tánögl, sem ég mála bláa. Kannski. Líklega. Kannski. Ég er einnig haldin kannski-áráttunni, sem ég uppgötvaði aldrei sjálf, öðruvísi en þú, ekki fyrr en fyrir ófáum árum, að ég las eitthvað, sem ég man ekki hvað var, eftir Gerði Kristný, þá opinberaðist mér áráttan, og staðhæfingarfælnin, síðan hef ég átt til að breyta kannski í ef til vill, ef ekki tekst að stroka kannski út. Ég hélt “stundum” (annað áráttuorð), að áráttan stafaði vegna sameiginlegs fæðingardags barnsföður þíns og mín, sem erum fædd undir óákveðnu tungli. En sálfræðingur borgarinnar tilkynnti mér – um daginn – að áráttan stafaði vegna skorts á ríkidæmi og sjálfstrausti. Hefur borgarsálfræðingurinn haft samband við þig? Ég treysti honum algjörlega, bara nema í þessu tilfelli, fullyrði ég, hafði hann rangt fyrir sér. Möntruna þína mun ég tileinka mér. Nú ferðast ég á drottins vegum. Heyrðu annars! Úl la la! Í morgun sá ég vissjón og vissjónin sýndi mér hver myndi taka í höndina á næstu verðlaunahöfum Íslensku bókmenntaverðlaunanna næstkomandi ár á Bessastöðunum. Verðlaunahafana sá ég ekki en silfurhött forsetans. Lokaðu augunum, reyndu að sjá fyrir þér stundina, áður en forsetinn tekur í hönd þína. Núna. Teldu upp á fjórum. Pása. Andartak. Frímínútur. Hlé. Nú máttu lesa framtíðina. Ó, nei, nei, nei, ég tef revellesjónina pínupons. Eins og nefnt var, sá ég ekki verðlaunahafana, enda dvaldi ég stutt við sýnina, held þó að þeir hafi hárið stuttklippt, klæðist jakkafötum, venjulegum rithöfundafötum, með eða án slifsis (sýfiliss) – eða… bíðum hægar – kannski verða ein jakkafötin úr vínrauðu flóneli, og kannski ber einn rithöfundurinn grænan flókahött. Og nú birtist handatakið: rithöfundur + forseti. Og… The winner is… Ath. Á morgun fer fram afhending hinna bleiku Óskarsverðlauna. Annað hvort: Jónína Benediktsdóttir eða Marilyn Monroe. Vissjónsessjón lokið. Í morgun lauk ég við að lesa æðislega bók, setningarnar í henni gustuðu svona eins og segl fyrir augum mér á meðan ég las. Úff, bjútí. Nú er báturinn kominn út á opið haf, á sólarheiðum degi, tánöglin blá.

bestubestu,k

Ath:

ég fullyrði og endurtek: sálfræðingurinn hafði rangt fyrir sér. 12 árum áður en barnsfaðir þinn fæddist elskaði undirrituð Svanhildi Jakobsdóttur söngkonu, en þá var líka lagið: Segðu ekki nei, segðu kannski, kannski, kannski… mjög vinsælt. líklega, kannski erum við vélmenni, og staðhæfir undirrituð og fullyrðir: að minnsta kosti 50%ið af henni!     hlakka til næsta bréfs, xo, vélmenni-k

Fyrsti spjallþráður: Hitasótt og hjartasár. Lestu meira …

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email