Kristín Ómarsdóttir og Sigurlín Bjarney Gísladóttir skrifast á:
Hitasótt og hjartasár
10. febrúar 2016
Sæl mín kæra,
ætli sé ekki fínt að byrja þannig? Það er oftast erfiðast að byrja, taka til máls, velja upphafstóninn og vera búin að ákveða takttegundina fyrirfram eða nei, best að ákveða sem minnst.
Ég þarf að segja þér frá því en í dag varð ég fyrir dularfullri reynslu. Í byrjun ársins bjó ég til draumaspjald fyrir árið 2016 þar sem ég gramsaði í gegnum alls konar tímarit og myndir og klippti og límdi á blað allt sem mig dreymir um fyrir árið framundan. Sumt var unnið í meðvitund og annað á öðrum slóðum. Ein furðuleg mynd kallaði sterkt til mín og vildi komast á draumaspjaldið og ég skildi ekki af hverju en ákvað að hlýða. Ég sagði viðstöddum að þessi mynd þyrfti að vera þarna en að ég fengi vonandi seinna að vita hvers vegna. Svo hugsaði ég ekki meira út í það þangað til ég sat í kennslutíma í dag þar sem verið var að ræða alkemíu og Jung og ýmsum bókum dreift um borðin og þá dúkkaði þessi sama mynd upp í einni bókinni. Ég fletti af handahófi og þarna blasti hún við mér: Maður liggjandi á jörðinni með ör í hjartanu og upp úr honum stendur stórt tré eins og reðurtákn og hönd á himni bendir á hann. Í bókinni var einhver texti um dauðann og lífið. Þetta er eitthvað mjög dulrænt og sálrænt og krassandi. Reyndar hef ég verið að vinna í ljóðahandriti þar sem trjámaður kemur við sögu, trjámaður sem ég elskaði en hann stakk ör í hjarta mitt og ég held stundum að ég sé bækluð til frambúðar. Annars hef ég verið að lesa texta Jungs um drauma og erkitýpur og gleypi textann í mig eins og nammi, næturlíf mitt verður aldrei samt.
Mig langar að spyrja þig hefur þú orðið fyrir dulrænni reynslu eða einhverju sem erfitt er að útskýra?
(Myndin fylgir hér með svolítið óskýr)
Með dulrænum kveðjur,
Bjarney
11. febrúar 2016
Sæl mín kæra,
Takk fyrir bréfið og takk fyrir myndina, sem ég elska, og einnig bréfið þitt. Á tímabili fékk ég stundum háan dularfullan hita, mjög snögglega rauk hitastig líkamans upp um kvöld en fyrir sólarupprás varð ég aftur hitalaus. Oft fór ég á Bráðavaktina. Þetta byrjaði að gerast eftir að landið varð næstum því gjaldþrota – eða varð það gjaldþrota? – enginn veit – í framhaldi af niðurbroti lands tóku við t.d. ófáar þjóðaratkvæðagreiðslur. Það brást ekki að nóttina fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu lá ég á Bráðavaktinni og ræddi stjórnmál við sjúkraliða í vínrauðum og fölgulum stökkum. Í hitaköstunum sá ég sýnir, inn í aðra heima: myndir runnu hratt fyrir hugskotsjónum, raunverulegar myndir, ekki eins og í draumi, heldur líkar ljósmyndum frá öðrum tímum, stöðum, mjög skírar, oft ótrúlega fallegar. Hraði myndasýningar gat orðið ofsafullur, svo stöðvaðist hún og ég hvarf inn í heimana, eins og andi, sá og gaumgæfði hvert smáatriði. Þá hvarf ég líka inn í persónur: c.a. átta ára gamlan dansandi strák sem átti heima þröngt; þar var mikið drasl og lítið gólfpláss því afi hans safnaði dóti, henti engu. Afinn var viðgerðarmaður eða úrsmiður og strákurinn þurfti mikið að dansa og heyra og búa til takt undir fótunum: líkami hans öskraði á hreyfingu. Strákurinn vandi sig á að dansa heima í stiganum milli fyrstu og annarrar hæðar, þar var autt pláss, upp og niður þrepinn – taktur, taktur, taktur – hlaupandi taktur, svona taktur, svona. Enn heyri ég í fjarlægðinni strákinn dansa í stiganum. Svo leið hitatímabilið, eins og flest tímabil, næstum því, undir lok. Hvað ætli gerist í næstu þjóðaratkvæðagreiðslu? Eins gott henni verði frestað um eilífð.
Dvelur örin enn í hjarta þínu?
Ég held það sé hægt að lækna bæklun, ég er þess fullviss, ég er algjörlega sannfærð um það, það er hrein og bein sannfæring mín og eldmóðurinn segir mér og staðfestir að lækning finnist við hvers kyns bæklun. Segðu mér allt. Afsakaðu prentvillurnar. Með dulrænum kveðjum, k
p.s.
ó boj! afsakið, þetta er eflaust rugl-reynsla sem ég segi hér frá, eða deleríum-reynsla, hundrað prósent sóber, engin verkjalyf. nei, líklega hef ég ekki orðið fyrir dularfullri reynslu.
12. febrúar 2016
Sæl mín kæra,
Takk fyrir bréfið og þessar tvær myndir sem renna svo fallega saman: bráðamóttökuhitasóttin og dansandi drengur í stigagangi. Það er gott að hitatímabilið er liðið en spurning hvað gerist í næstu þjóðaratkvæðagreiðslu. Fyrir nokkrum árum fór ég að kjósa í Hagaskóla og þá sagði sonur minn þriggja ára að ég væri að fara að gjósa. Ég tengi þarna á milli, hitinn er kannski aðdragandi gosningar. Að kjósa og gjósa eru ólík orð en hljómur þeirra er mjög líkur og þau eru nánast eins á blaði. Ætli orð sem eru lík í hljómi og útliti leitist við að ná saman og ná svipaðri merkingu? Mér dettur í hug bækur og lækur, væri gaman að búa til merkingarbrýr á milli svona orða. Ást og þjást er rakið dæmi en dáldið klént og ofnotað. Reyndar er það þekkt að mannslíkaminn og jörðin fái að tengjast í myndmáli. Aristóteles sagði að eldsumbrot í jörðinni mætti líkja við umbrot í iðrum líkamans. Æ, nú er ég kannski bara að slá um mig en þarf að fletta þessu upp, ætla aðeins að gramsa. Búin að kíkja og þetta er í Meterologíu en þar er hann meira að tala um að vindar í iðrum jarðar orsaki eldgos og jarðskjálftar séu svipaðir þeim titringi sem verður þegar vatn fer um líkamann. Alltaf gott að blanda Aristótelesi inn í umræðuna, þá fær hún stærri tímavídd. Reyndar getur verið gott að hafa líka alltaf Hildegard von Bingen með því tónlistin hennar er svo falleg. Já, held það barasta, hlusta á Hildegard.
Annars elska ég strax þennan dansandi strák í stigaganginum og þessa knýjandi þörf til að dansa. Hann lætur ekkert stoppa sig, finnur plássið og notar það fyrir taktinn. Knýjandi þörf getur verið svo undurfögur. Svo er ég líka forvitin um afann. Æ, þetta hjartasár er að gróa en það gerist allt of hægt. Því miður er ekki hægt að stjórna hraðanum. Það væri gott að hafa bensíngjöf og bremsur á lífinu, gírskiptingar og stefnuljós en lífið lætur ekki stjórna sér eins og einhverjum kagga. Heilinn og vitsmunirnir vita vel hver staðan er en það er eins og taugakerfið lifi sjálfstæðu lífi óháð heilanum. Taugakerfið sendir af stað tár við akstur og á ólíklegustu tímum og eflaust blandast þar inn í heimsharmurinn mikli. Hef snýtt mér við flest umferðarljós borgarinnar og sogið kröftuglega upp í nefið. Stundum stend ég mig að því að brosa og hlakka til einhvers og þá sé ég að eitthvað er að breytast, taugabrautirnar eru að færast til. Ég skrifa og dansa og þokast þannig í aðra átt, en mjög hægt. Hef mikla trú á lækningarmætti dansins, að láta tónlist stjórna hreyfingum, láta taugakerfið lækna sig sjálft í dansi því heilinn getur það ekki einn. Dansinn er lykillinn. Þar býr vonin.
Knúskveðjur,
Bjarney
12. febrúar
Sæl mín kæra,
í dag er afmæli Abrahams Lincolns, fegurðardrottning sem er líka ljósmyndari á afmæli, skáld sem er líka bókasafnsstrákur á afmæli, skáld sem er líka myndlistarkona og kúrekastelpa á afmæli, sjúkraliði, gullmoli og móðir vinkonu minnar á afmæli, fleira mektarfólk og vatnsberar eiga afmæli á fallegum gulllituðum degi. Bráðum set ég Hildegard á fóninn. Stendur manneskjan oft í veginum fyrir sjálfri sér? Eitthvað “ég” sem er svona egó, þykist vita margt, er frekt og fyrirferðasamt, viðkvæmt og lítillátt, vesen á því og hefur að jafn miklu skapi ríka hvöt til þess að láta sig hverfa. Svo er líkaminn sem hreyfir tannhjólin, með trilljón frumur innanborðs, eins og stóriðja, pláneta, etc., og alls ólíkur stóriðju, plánetum, etc… Líkaminn veit sínu viti, að ég held og trúi, betur en t.d. ég, þetta ég-ég. Ég uppgötvaði í vikunni, daginn eftir að ég fór snemma að sofa, en um sama kvöld hugsaði ég: nú geri ég eins og ég vil, [ég-ég-ið], fer snemma að sofa – en eftir á fannst líkamanum það ekki jafn spennandi og mér – sem fannst ég hlýða honum en hlýddi nöldurseggi inn í mér sem kvabbar um svefn og hvíld. Nú veit ég að líkamanum finnst hressandi að sofa ekki of mikið. (Vonandi er líkaminn ekki harðstjóri). Ég uppgötvaði að hann nennir minna að hangsa, að eitthvað egó í mér er kisulega værukært, nennir ekki út á meðan líkaminn þrífst á útiveru. Þess vegna set ég á átópælót og færi líkamanum völdin. (Hann þiggur þau ekki.) Tár eru líkamleg viðbrögð og best að standa ekki í veginum fyrir þeim og venja egóið (ég-ég-ið) á anarkí. Líkaminn er alþýðan, ég-ég-ið einræðisherra, byltingu takk. Kannski leiða anarkíið og völdin heim til líkamans (sem þiggur ekki völd) til þess að ég baki aldrei aftur brauð, hætti að nota hnífapör. Ég dáist jafnt að siðmenningu skógar og borgar. Fellibylir vs. styrjaldir. Fellirbylir og styrjaldir. Og trúi á þríhyggju, marghyggju, núll-hyggju og tvíhyggju, um leið og ég veit ekkert. Ég mæli með þú gefist upp á að stjórna vélinni og njótir samviskulauss tilgangsleysis um hríð, setjir þér engin siðsemismörk. .
Ástin er á matseðli stjörnukerfisins: Ástríður í hvert mál! Eftirréttur: sætur, bitur, súr – man ekki hvað fjórða bragðið heitir. Grátur með kaffinu. Meiri grát. Ást-ást. Völdin til fólksins. Ég nenni ekki út. Líkaminn bannar mér ekkert. Dönsum.
Knúskveðjur,k
14. febrúar
Ó, takk fyrir bréfið. Ég smjatta á hverju orði og ligg á meltunni. Þetta land er svo lítið en ég þekki einmitt eitt af afmælisbörnunum sem þú nefndir. Sjálf átti ég afmæli í síðustu viku og rifna reglulega úr stolti yfir því að vera vatnsberi. Hvar væri heimurinn án okkar frumlegu og hugvitssömu vatnsberanna? Samkvæmt stjörnuspám eru vatnsberar félagslyndir einfarar. Í dag er ástardagurinn mikli og þú segir ,,Ástin er á matseðli stjörnukerfisins”, ó mig sundlar, þetta er svo fallegt, svo stórt, eins og ástin. (Ó, mig sundlar er dásamlegur frasi, ætla að reyna að nota hann oftar í hversdagslegu spjalli.)
Á sunnudögum býr stjörnukerfið til matseðil vikunnar og þar er ástin alltaf í aðalrétt ýmist soðin, djúpsteikt eða hrá. Meðlæti og hliðardiskar eru stjörnuhröp, sporbaugsdífur og öll þau egó sem hafa brunnið og gufað upp. Já, grátur með kaffinu sem kallast kaffitár, án gríns. Æ, ég verð bara hrædd við þetta egó sem þú talar um og þá sé ég hvað það er flókið og lúmskt og vill húka í felum, vaxa í myrkri, sannfærir mig um að það sé ekki til staðar og stækkar um leið. Skömmin hefur nákvæmlega sama hegðunarmunstur, egó og skömm, skömmegó, þau eru hluti af skugganum mínum. Þegar ég beini ljósinu á þau þá missa þau vald sitt yfir mér. Við þurfum að taka að okkur egó-hreinsistörf en samt án þess að okkar eigið egó þvælist þar inn í, varpa ljósinu þangað sem það vill ekki fara.
Núna er sunnudagur og þá er verið að setja saman matseðla og núna er líka ástardagurinn mikli og það þarf að tala meira um ástina, það hefur ekki verið tala nógu mikið um hana, það vantar fleiri ástarljóð, ástarsöngva. Fátt hefur þvælst jafn mikið fyrir ástinni og egóið, ástin krefst þess að við afklæðumst egói. Nýlega kom í ljós að ljóðahandritið sem ég er að sauma saman fjallar einmitt um ástina frá ólíkum hliðum, kærleikann til lífsins, foreldra og barna, sjálfsást, alls konar ást og líka um sorg, hún verður að fá að vera memm, alltaf. Dante segir að himnarnir séu fullir af ást og ég held að stundum fái ástin mann til að líða þannig að maður sé kominn heim, að allt sé eins og það eigi að vera og þetta sé heimahöfnin. ,,Það rofar til inní mér…” syngur Sálin hans Jóns míns í besta ástarlagi allra tíma, hér er krækja til að smella á og hlusta (passaðu þig ég get verið hræðilega uppáþrengjandi tónlistartrúboði):
https://www.youtube.com/watch?v=FbPxfLQXUoo
Svo er ekki verra að það er hægt að dilla sér við lagið, það er alltaf kostur, dillimöguleikarnir sko. Textann er hægt að túlka á svo margan hátt, út frá öllum ástartegundunum og líka ástinni á Guði.
Mig langar að brenna egóið mitt upp. Stundum fer ég í svitahof og svitna heilu úthafi í myrkri með öðrum fólki, sit og kyrja söngva og svitinn streymir og alltaf koma líka tár og svo er öskrað og svo kyrjað og svitnað meira. Yfirleitt krafsa ég í moldina þar inni til að fá eitthvað kalt á fingurgómana, sandur fer í hárið og út um allt. Ég dey og skríð út úr tjaldinu án hýðis, svo örmagna að ég get ekki haft skoðanir á neinu og stjórnsemin mín er langt í burtu. Þá held ég að egóið deyji, í nokkra daga en svo byrjar það aftur að vaxa og stækka. Ég var búin að fara oft í svona tjald þegar ég fékk knýjandi þörf til að skrifa um menn sem voru fastir í hita og myrkri ofan í jörðinni. Á þeim tíma tengdi ég ekki á milli heldur elti þessa knýjandi þörf þó það væri engin glóra í henni. Textinn varð að bók og hún var komin út þegar ég sá að svitatjaldið hefur líklegast komið þessu af stað. Svona raðast púslin saman eftir á og sýna mér stöðugt að allt sem ég geri með líkamanum smitast yfir í texta og hugsanir. Það er líkaminn sem skrifar textann, líkami í rými, líkami með rödd, líkami sem hreyfist. Það minnir mig á leikritun, að skrifa leikrit er það skemmtilegasta sem ég skrifa því þar lifnar textinn við og orðið verður hold. Ég missti af leikritunum þínum þegar þau voru sett upp hér um árið, ertu hætt að skrifa leikrit? Við verðum að skrifa fullt, fullt af leikritum og gefa svo bara út á bók eftir 20 ár eða aldrei, leyfa leikhúsunum að rífast um þau þegar við erum allar og gufaðar upp sem ástarbúðingar á matseðli stjörnukerfisins. Pant fara til Úranusar, sem er sjöunda reikistjarna frá sólu og gúggúl segir hana eina af gasrisum sólkerfisins (hljómar spennandi). Ég umorða spurninguna: Ertu ekki örugglega að skrifa leikrit?
Hjartaknús,
Bjarney
16. febrúar
Takk takk, mjög mörg tökk fyrir bréfið. Nú hlusta ég á lagið sem þú kræktir í bréfið eins og öskupoka, takk, lagið hefur angurvær áhrif, mig langar á ball, í partý, í bíltúr um dimma nótt, stuttan og tilgangslausan spöl, með vörldsmerti í, heimsharmi, eins og þú talaðir um fyrir nokkru. Mhm. Ó. Partýþörf tekur af mér ráðin, veit ekki hvort ég geti haldið áfram að skrifa bréfið mikið lengur. En það er hábjartur dagur – tókstu eftir birtunni í morgun? – alveg mjólkurþokuhvít* – ómögulegur tími fyrir bíltúr út á 170 – Ástarbraut um rafmagnslausa vetrarnótt. Til hamingju með afmælið í vikunni sem leið. Þegar ég var lítil sagði vinkona mín mér að ég væri egóisti – við vorum á göngu eftir mjóum stíg – ég mótmælti og mótmælti oft, skildi ekki við hvað hún ætti eða útskýringarnar, enn skil ég ekki bofs og veit ekki hvað orðið þýðir. (Þessi vinkona mín kenndi mér mörg orð, mamma og hún kenndu mér að tala.) Egó er örugglega bara svona nammibúð í eigu ókunnugra. Það er gaman að fara inn í nammibúð og fylla poka. Oft hefur maður ekki efni á valinu og tínir upp úr pokanum áður en maður opnar veskið. Það er mjög leitt. Egó getur ekki verið jafn dýrt og það lítur út fyrir og egó hlýtur að vera í eigin eigu en ekki ókunnugra. Eða hvað?** Einhvern veginn hefur maður ekki efni á sjálfri sér. Einhvern veginn kostar allt líka það sem er ókeypis – heyrði ég sagt í kvikmynd og vildi helst ekki fara að blanda kostnaðarhliðunum inn í umræðuna, afsakaðu nammibúðartalið, nóg er nú rætt um $$$$$. Í dag þriðja þriðjudag í febrúar dýrka ég egó og finn til með því og tefli fyrirbærinu fram sem lífverði, skugga og vini. Við skulum ekki hreinsa það með vírbursta, bara standa undir bilaðri þakrennu og skola það. Algjörlega já, þú segir það satt: maður skrifar með líkamanum. Ástin, já, algjörlega, hún. Já, ég er sammála, það er skemmtilegt að skrifa leikrit, en ég er ekki að skrifa leikrit, hef haft á matseðlinum að gera það og að gefa leikritin út óbirt og birt. Ertu komin langt með leikritið þitt – tími kominn á flutning? Mig langar að sjá leikrit eftir þig, panta sæti strax.
Hjartaknús,k
p.s. heyrðu já, eitt að lokum: slysist listakona til að fá e.k. athygli heims er athyglin oft posthumous, þegar hún er farin til úranusar, höfundaréttur verkanna útrunninn, ábyggilegt að enginn hagnist á þeim. ég held ekki – einsog ég las í ljóði um daginn – að fólk skrifi til að verða eilíft, allt mun á endanum gleymast, verk eftir konur hverfa fyrst úr minninu, og þau eru líka ódýrari en verk eftir karla (sbr. myndlist, afsakaðu enn og aftur $$$-talið). það þarf ekki tilgang eða ástæðu fyrir þessari iðju: að skrifa – og – alla vega – skrifar fólk ekki til að verða lesið þegar það er dautt. það er nú eða aldrei. ég óska leikritum þínum góðrar ferðar upp á fjalirnar.
*mjólkurþotuhvít, mjólkurþorstahvítt
**eða hvað? er spútnikk frasi, nota hann í hermiskyni