Ragnheiður Eyjólfsdóttir hlýtur íslensku barnabókaverðlaunin 2015 fyrir fantasíubókina Arftakinn. Bókin var valin úr 28 handritum sem send voru dómnefnd verðlaunanna.
Verðlaunin voru veitt við hátíðlega athöfn í Hagaskóla í morgun. Eftir þverflautuleik Sigrúnar Valgeirsdóttur, nemanda við Hagaskóla, lagði skólastjórinn Ómar Örn Magnússon áherslu á mikilvægi þess og fagnaði því að skrifaðar væru spennandi barna- og unglingabækur. Næst söng Steinunn Lárusdóttir, nemandi, lagið Ást. Þá steig Sigþrúður Gunnarsdóttir, fyrir hönd stjórnar barnabókaverðlaunanna, á svið og kynnti sigurhöfundinn.
Arftakinn er fyrsta bók Ragnheiðar en tilgangur verðlaunanna er einmitt meðal annars að hjálpa ungum rithöfundum að koma sér á framfæri. Sigþrúður sagði alla dómnefndina hafa fallið fyrir bókinni sem fjallar um unglingsstelpuna Sögu sem uppgötvar falinn furðuheim rétt fyrir 13 ára afmælisdaginn. Ragnheiður segir bókina fjalla um „upprunann, völd, svik, fortíðina, furður, vinskap og fjandskap.“
Íslensku barnabókmenntaverðlaunin voru fyrst veitt árið 1986 en stofnað var til þeirra í tilefni af sjötugsafmæli rithöfundarins Ármanns Kr. Einarssonar. Auk fjölskyldu hans standa Barnavinafélagið Sumargjöf, IBBY á Íslandi og Forlagið að verðlaununum og skipa fulltrúar þessara aðila dómnefndina. Í ár bárust dómnefndinni 28 handrit undir dulnefni og valdi hún sigurbókina í samstarfi við tvo nemendur úr áttunda bekk í Hagaskóla, Hrafnhildi Einarsdóttur og Matthías Löve. Verðlaunaféð sem sigurvegarinn hlýtur er hálf milljón króna.