Search
Close this search box.

Jæja – frá formanni

… jæja. Við í Gunnarshúsi gerum okkur klárar fyrir veturinn. Næg verkefni framundan.

Fyrsta mál á dagskrá haustsins eru samningarnir. Þann 17. september næstkomandi verður haldin félagsfundur hér í húsinu og allir hvattir til að mæta. Við förum yfir samningamálin, ræðum útgáfusamninginn og þýðingasamninginn og forysta RSÍ vill sterkt umboð frá baklandinu áður en farið verður í viðræður um breytingar og umbætur. Fleiri félagsfundir eru einnig áformaðir í vetur og má þar nefna fund um nýliðun og stöðu nýrra rithöfunda – afkomu og aðstæður.

Framundan er líka fagþing um rafbókina þar sem hagsmunaaðilar koma saman að okkar frumkvæði og ræða framtíðina og landslagið sem blasir við. Rafrænt umhverfi bókmenntanna var mjög fyrirferðarmikið á fundi norrænu rithöfundafélagana í Hörpu á vordögum og við förum með gott nesti þaðan inn á fagþingið í haust.

Gunnarshús mun iða af lífi í vetur og nú þegar er hafinn undirbúningur að sérlegum höfundakvöldum í húsinu á vegum Húsráðs. Slík kvöld lukkuðust afar vel í fyrra. Kvöldin verða átta og tveir höfundar sameinast um hverja kvöldstund. Auk þess er vert að minna félagsmenn á að nýta húsið sjálfir til bókakynninga og útgáfufagnaða í vetur.  Svo minnum við á vinnustofurnar góðu sem bjóðast félagsmönnum í einn til þrjá mánuði í senn gegn afar vægu kaffigjaldi.

Við höldum áfram að berja dyra hjá menntamálaráðuneytinu til að ræða við okkar fagráðherra um framtíð Bókasafnssjóðs og lagalegt umhverfi hans.Við gerum okkur vonir um að frumvarp um breytingu á Bókasafnssjóði líti dagsins ljós í vetur og komist úr ráðuneyti og inn á þing. Auk þess viljum við ræða við ráðherra um aðkomu rithöfunda að hinu svokallaða þjóðarátaki í læsi- en það varðar afkomu bókmenntanna og höfunda með beinum hætti.

Þá er nú gaman að geta þess að verkefni RSÍ, Skáld í skólum, er að fara af stað þessa dagana. Þar er metnaðarfull dagskrá í boði fyrir öll skólastig og geta félagsmenn kynnt sér hana á vef sambandsins undir Höfundamiðstöð. Hliðarverkefni Skálda í skólum þetta starfsár eru dagskrár til heiðurs minningu Halldórs Laxness, en í ár eru liðin sextíu ár frá því að hann hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels.

Þá tókum við þátt í vígslu Steinshúss við Djúp nú í ágúst. Félagsheimilið að Nauteyri hefur verið gert upp til minningar um skáldið Stein Steinarr. Þar er sýning um skáldið og skáldaskjól- ibúð fyrir þá listasmenn sem vilja vinna tímabundið að verkefnum sínum á fæðingarslóð skáldsins. RSÍ á fulltrúa í stjórn hússins. Sambandið hefur einnig beitt sér fyrir því að Gröndalshús verði í eigu Reykjavíkurborgar í framtíðinni og þjóni þar sem skáldaskjól Bókmenntaborgar UNESCO. Sú hugmynd er í skoðun hjá borginni og verið að kanna leiðir til fjármögnunar á því verkefni til framtíðar.

Þetta er svona það helsta á borðinu nú þegar haustar og húmar að. Og svo vil ég endilega biðja ykkur að hafa samband og tala við okkur, fulltrúa ykkar, um það sem miður fer og það sem betur má fara, nýjar hugmyndir og ekki síst það sem vel er gert. Þetta er eins og með góðar fjölskyldur. Við verðum að tala saman.

Bestu kveðjur, Kristín Helga

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email