80 ára útgáfuafmæli Aðventu – nýjar útgáfur, málstofa og upplestrar

Um þessar mundir eru liðin 80 ár frá því að skáldasaga Gunnars Gunnarssonar Aðventa kom í fyrsta sinn út hjá Reclam í Þýskalandi og Gyldendal í Danmörku. Sagan af Benedikt og eftirleit hans á Mývatnsöræfum með sínum trygglyndu félögum, Eitli og Leó er klassísk og tímalaus. Á síðustu árum hefur hún verið þýdd á ný tungumál og kemur til að mynda út fyrir þessi jól á hollensku, ítölsku, arabísku og norsku.

Er Benedikt kominn til byggða? – málstofa í Gunnarshúsi

Í tilefni útgáfuafmælisins efna Gunnarsstofnun og Rithöfundasamband Íslands til málstofu um söguna að kvöldi miðvikudags 7. desember á Dyngjuvegi 8 í Reykjavík. Málstofan hefur yfirskriftina Er Benedikt kominn til byggða? Þar munu fjórir fræðimenn fjalla um söguna frá ólíkum sjónarhornum. Þeir eru: Jón Yngvi Jóhannsson bókmenntafræðingur, Halla Kjartansdóttir þýðandi og kennari, Trausti Jónsson veðurfræðingur og Hjalti Hugason guðfræðingur. Að loknum stuttum framsögum mun Vésteinn Ólason prófessor emeritus stýra umræðum. Málstofan hefst kl. 20.00 og er öllum opin.

Aðventa lesin  víða um land þann 11. desember

Síðastliðin áratug hefur Gunnarsstofnun í samvinnu við aðra staðið fyrir upplestri á Aðventu í desember, bæði hérlendis og erlendis. Aðventa verður að þessu sinni lesin á þremur stöðum sunnudaginn 11. des. Í Reykjavík les Gunnar Helgason rithöfundar söguna á Dyngjuvegi 8 hjá Rithöfundasambandinu. Á Akureyri les Pétur Halldórsson fyrrum útvarpsmaður í setustofu Icelandair Hótel Akureyri og á Skriðuklaustri hljómar önnur góðkunnug útvarpsrödd en þar les Gunnar Stefánsson söguna. Upplesturinn hefst á öllum stöðunum kl. 14.

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email