BarnabókinSíung- samtök barnabókahöfunda standa fyrir ráðstefnu um barnabókina i Ráðhúsinu kl. tvö í dag. Ráðstefnan ber yfirskriftina ,,Barnabókin er svarið.“

Neyðaráætlun fyrir íslenska tungu
Höfum eitt á hreinu, svo það sé sagt, skrifað og lesið upphátt. Íslendingum þykir heilt yfir ekkert sérlega vænt um tungumálið sitt. Þeir bera litla virðingu fyrir því, ýta því til hliðar og eðlilega er þá þetta tungumál á hröðu undanhaldi. Íslenskan er vanrækt og vannærð örtunga í útrýmingarhættu og hvergi virðist neyðaráætlun sjáanleg. Til samanburðar við risastóru nágrannalöndin má geta þess að Norðmenn skilgreina norsku sem örtungu í útrýmingarhættu og fylgja sérlegri aðgerðaráætlun til að viðhalda og bjarga norskri tungu og bókmenntum.

Gröf íslenskra fræða
Hvað veldur þessu virðingarleysi fyrir þjóðararfinum? Er þetta ekki latína norðursins sem þó er enn töluð? Kannski finnst okkur þetta tungumál skilgreina okkur sem smælki í alþjóðlega samhenginu, gera okkur pínulítil og púkaleg á torgum stórþjóða. Fyrir vikið er íslenskunni ekkert sérstaklega hampað hér í heimalandinu, nema kannski þennan dag í nóvember þegar hann Jónas fæddist. Merki vanrækslunnar eru víða og hróplegasta táknið er gröf íslenskra fræða. Pyttur sem sýnir táknrænt viðmót þjóðar til móðurmáls. Þar í forinni liggur sorglega sjálfsmyndin. Okkar Louvre og Lundúnarturn sem á að varðveita gersemarnar. Og af því að mörg okkar skilja fyrirbærin betur ef hægt er að tengja þau viðskiptahagsmunum þá liggja ónýtt tækifæri í því að sýna ekki gestum, okkur sjálfum og skólabörnum þúsund ára gamlar bækur á tungumáli sem enn er talað. En líklega er tungumálið of svipað súrefni í notkun. Það er bara þarna og við söknum þess ekki fyrr en það er horfið. Kjörnir fulltrúar og viðskiptajöfrar leggja sumir til að íslenskunni verði sleppt í stórvægilegum daglegum skýrslugerðarverksmiðjum stjórnmála- og viðskipta til að auðvelda, spara og stytta boðleiðir. Tungumál eru eins og landslag og þegar eitt hverfur myndast eyðimörk með uppfoki.

Felum tungumálið
En um leið flæða hingað ferðamenn sem aldrei fyrr. Við keppumst við að þýða allt viðmót til ferðamannsins, felum tungumálið og tökum á móti gestum á syngjandi amerísku svo heimstungan enska ber ekki einu sinni keim af íslensku. Kveðjuorðin okkar eru lítt notuð og á undraverðum tíma hefur tekist að skapa fullkomið enskt viðmót við ferðamönnum. ,,Börn eru svo tvítyngd nú til dags,“ segja þá einhverjir. En staðreyndin er sú að algengara er að börn sitji uppi með tvö hálfmál ef þau eru ekki sterk í sínu móðurmáli. ,,Svona er þetta allsstaðar,“ segja þá aðrir. En, nei, þetta er alls ekki svona allsstaðar. Yfirferð um Evrópu sýnir virðingu og væntumþykju á heimavöllum gagnvart frönsku, þýsku, flæmsku, svissnesku. Og það er ljúft að heyra tungumál á framandi stað, glíma jafnvel við það sjálfur og sjá það, heyra það og fá í fangið. Það er hluti af því að ferðast og upplifa. Tungumál er hljóðmynd hvers lands.

Barnabókin er svarið
Við eigum ekki kastala og hallir, bara þetta tungumál sem er okkar stóri þjóðararfur. Við skattpínum bókaútgáfu, getum ekki gefið út myndskreyttar barnabækur og fjársveltum öll skóla- og héraðsbókasöfn landsins í innkaupum á nýju efni fyrir börn. Ef við viljum lesa áfram á þessu tungumáli, hugsa og skilgreina okkur út frá því verðum við að grípa til aðgerða líkt og norðmenn og fleiri þjóðir hafa gert. Barnabókin er grunnliturinn í stóru myndinni. Hún er grunnurinn að læsi þeirra sem taka við kefli og halda áfram. Læsi er lykill að tungumáli og það er margsannað að því færara sem barn er á sínu móðurmáli þeim mun sterkara verður það í öðrum tungumálum. Við þurfum neyðaráætlun til bjargar íslenskri tungu og bókmenntum. Stjórnvöld bera þessa ábyrgð. Barnabókin er svarið og þeir sem stýra þjóðarheimilinu þurfa að hanna menningaráætlun fyrir tungumál og bókmenntir og fylgja henni fast og strax.

Kristín Helga Gunnarsdóttir

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email