Lög Rithöfundasambands Íslands

 

1. grein
Rithöfundasamband Íslands er stéttarfélag og rétthafasamtök rithöfunda, handritshöfunda, leikskálda, þýðenda og myndhöfunda bóka; þeirra sem vinna með texta í sköpun sinni, óháð bókmenntagreinum eða birtingarformi verka.

2. grein
Aðalskrifstofa Rithöfundasambands Íslands, heimilisfang og varnarþing er í Reykjavík.

Tilgangur Rithöfundasambands Íslands er að efla samtök íslenskra rithöfunda, gæta hagsmuna þeirra og réttar í samræmi við alþjóðavenjur, verja frelsi og heiður bókmennta og ritlistar og standa gegn hvers kyns ofsóknum á hendur rithöfundum og hindrunum í starfi þeirra. Sambandið fylgist með þróun laga, reglna og viðskiptahátta á sviði höfundaréttar en eitt meginhlutverk sambandsins er umsjón með höfundarrétti og tengdum réttindum.Tilgangur Rithöfundasambandsins er einnig að standa vörð um tjáningarfrelsið, vinna að framgangi ritlistar, standa vörð um réttindi félagsmanna og annarra rétthafa verka sem vernduð eru af höfundarétti, þ.m.t. listræn, menningarpólitísk, fagleg, fjárhagsleg og félagsleg réttindi. Að standa vörð um og fara með höfundarrétt og önnur réttindi rétthafa gagnvart stjórnvöldum. Gera heildarsamninga og aðra sameiginlega samninga. Vinna að því að veita fjármagni og styrkjum úr sjóðum rétthöfum til hagsbóta og vera í samvinnu við tengd hagsmunafélög jafnt innanlands sem utan. Rithöfundasamband Íslands tekur ekki þátt í baráttu stjórnmálaflokka né hlutast til um listastefnur, stjórnmálaskoðanir eða trúarbrögð. Rithöfundasambandið starfar fyrir ritlistamenn á breiðum vettvangi. Sambandið er stéttarfélag, fagfélag og rétthafasamtök rithöfunda, handritshöfunda, leikskálda, þýðenda og myndhöfunda bókmennta. Rithöfundasambandið annast samningagerð félagsmanna við opinbera- og einkaaðila um höfundaréttarleg hagsmunamál félagsmanna og tekur einnig að sér innheimtu höfundaþóknunar utanfélagsmanna í þeim tilvikum sem gerðir eru samningar um greiðslur fyrir afnot ritverka og ábyrgist jafnframt skil þeirra gjalda til viðkomandi höfunda, þannig að þeir verði jafnsettir félagsmönnum hvað innheimtu og skil þessara gjalda varðar. Vísast í því sambandi m.a. til 23. gr. höfundalaga nr. 73/1972 („höfundalög“).. Þá hefur RSÍ heimild til að veita samningskvaðaleyfi á grundvelli 2. mgr. 26. gr. a., að nánari skilyrðum uppfylltum og ef viðurkenning fæst sbr. 2.- 4. mgr. sömu greinar. Þá annast Rithöfundasambandið umsýslu höfundarréttar, þ.á.m. með því að innheimta tekjur og úthluta fjárhæðum til rétthafa í skilningi 11. gr. höfundalaga.Hver félagsmaður getur fellt úr gildi heimild til að hafa umsjón með réttindum, flokkum réttinda eða tegundum verka og öðru efni sem hann veitir Rithöfundasambandinu eða afturkallað hver þau réttindi, flokka réttinda eða tegundir verka og annað efni sem hann vill hjá Rithöfundasambandinu með þriggja mánaða fyrirvara. Slík uppsögn eða afturköllun tekur þó aldrei gildi fyrr en við lok þess reikningsárs sem lýkur a.m.k. þremur mánuðum eftir að uppsögnin eða afturköllunin berst Rithöfundasambandinu.

Þá getur hver utanfélagsmaður gert kröfu til að fá einstaklingsbundna þóknun fyrir not á grundvelli samningskvaðaleyfis og ef hann vill nýta rétt sinn til að banna nýtingu verka sinna á grundvelli samningskvaðaleyfis. Unnt er að koma kröfum þess efnis skriflega á framfæri við Rithöfundasambandið.

Rithöfundasambandið birtir upplýsingar um að samningur sem veitir samningskvaðaleyfi hafi verið gerður, ásamt upplýsingum sem nauðsynlegar eru til þess að utanfélagsmenn geti gert kröfu um þóknun á grundvelli þeirra í samræmi við 3. mgr. 26. gr. b. höfl., sbr. einnig 3. tölul. 2. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 821/2021.

4. grein

Rétt til félagsaðildar eiga íslenskir höfundar og þýðendur, handritshöfundar, leikskáld, myndhöfundar bókmennta, auk erlendra höfunda og þýðenda sem hafa fasta búsetu á Íslandi. Félagar geta orðið þeir sem birt hafa ígildi a.m.k. tveggja fullgildra verka, þýddra, eða frumsaminna,sem teljast hafa ótvírætt listrænt-, heimilda- eða menningargildi og falla í einhvern eftirfarandi flokka:

1. Útgefið skáldverk.

2. Útgefið fræðirit eða rit almenns eðlis.

3. Handrit að verki sem sýnt hefur verið í sjónvarpi, kvikmyndahúsum, flutt í hljóðvarpi á sviði eða birt á streymisveitum.

Á aðalfundi séu kjörnir þrír menn í inntökunefnd og mega þeir ekki vera úr hópi stjórnarmanna sambandsins. Inntökunefnd sé kjörin til eins árs í senn. Enginn sitji þó lengur í nefndinni en þrjú ár samfleytt. Inntökunefnd skipar sér formann sem ber ábyrgð á boðun funda og samskiptum við skrifstofu RSÍ. Inntökunefnd  fjalli ítarlega um hverja inntökubeiðni  áður en ákvörðun er tekin. Inntökunefnd meti vægi framlagðra verka meðal annars með tilliti til listræns gildir, umfangs þeirra, útgáfu eða birtingarháttar, hvort höfundur standi einn að þeim o.s.frv. Þannig má meta að verðleikum sjálfsútgefin verk, ritlinga eða samstarfsverkefni þótt ekki telji þau endilega ein og sér sem ígildi fullgilds verks. Umsóknum skal svarað innan mánaðar frá því að þær berast. Unnt er að fara fram á rökstuðning ef umsókn um inngöngu er hafnað. Félagsmenn eru bundnir af samþykktum og gerðum samningum Rithöfundasambands Íslands, sjá nánar í 3. og 7. grein.

5. grein
Stjórn Rithöfundasambands Íslands skipa fimm aðalmenn og tveir til vara. Kjörtímabil stjórnarmanna er 2 ár. Stjórnarkjöri skal lýst á aðalfundi. Formaður og varaformaður skulu kosnir sérstaklega, síðan aðrir stjórnarmenn. Aðalfundur skal auglýstur í fréttamiðlum sambandsins með 8 vikna fyrirvara hið minnsta. Skrifleg tilkynning um framboð til stjórnarstarfa skal hafa borist skrifstofu RSÍ eigi síðar en 5 vikum fyrir aðalfund. Allir félagar eru kjörgengir nema heiðursfélagar og þeir sem eru á aukaskrá svo sem segir í 11. grein laga þessara.Stjórn skal kosin rafrænt. Kjörfundur hefst tveimur vikum fyrir aðalfund og lýkur á miðnætti fyrir aðalfund. Eftir að kjörfundi lýkur skulu niðurstöður kosninga tilkynntar á aðalfundi. Á aðalfundi skal kjósa tvo skoðunar­menn reikninga sambandsins og mega þeir ekki vera úr hópi stjórnarmanna. Um kosningu í nefndir eða einstaklinga til sérstakra starfa fer eftir ákvörðun fundarstjóra nema tillögur um annan hátt hljóti stuðning fundarins. Nú hljóta tveir menn jafna atkvæðatölu og skal þá varpað hlutkesti milli þeirra. Ef stjórn RSÍ eða varastjórn er ekki fullmönnuð er stjórn heimilt að boða til aukaaðalfundar í því skyni að bæta þar úr. Um framkvæmd slíks aukaaðalfundar gilda að öðru leyti sömu reglur og um aðalfund, m.a. hvað varðar boðun, kjörgengi, kjör o.s.frv.

6. grein
Stjórn samtakanna ber ábyrgð á daglegum rekstri og eftirliti með starfseminni, þ.á.m. umsýslu réttindagreiðslna. Stjórn vinnur í þágu samtakanna í samræmi við samþykktir þessar og lög og reglur eins og þau eru hverju sinni. Stjórn sambandsins skal ráða sér framkvæmdastjóra til að sinna daglegum rekstri sambandsins. Hann er sambandsstjórn til aðstoðar við samningagerð, annast fjárreiður sambandsins, bókhald, bréfaskriftir, ræður annað starfsfólk sambandsins og annað sem hér að lýtur. Framkvæmdastjóri stýrir daglegum rekstri í samræmi við ákvarðanir stjórnar. Framkvæmdastjóri skal sitja fundi stjórnar og hefur þar málfrelsi og tillögurétt. Framkvæmdastjóri undirbýr fundi stjórnar og hefur umsjón með framkvæmd þeirra ákvarðana sem stjórn tekur. Framkvæmdastjóri er prókúruhafi Rithöfundasambandsins. Stjórn skal gera skriflegan ráðningarsamning við framkvæmdastjóra þar sem starfskjör hans eru ákveðin og verksvið hans nánar skilgreint. Stjórn Rithöfundasambandsins, sem gegnir eftirlitshlutverki gagnvart starfsemi Rithöfundasambandsins, skal gefa skýrslu um störf sín, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga þessara, á aðalfundi Rithöfundasambandsins a.m.k. einu sinni á ári.Framkvæmdastjóri, og eftir atvikum aðrir sem sinna daglegri stjórnun reksturs Rithöfundasambands, skulu senda frá sér sérstakt árlegt yfirlit, hagsmunaskrá, til aðalfundar Rithöfundasambandsins með eftirfarandi upplýsingum:

  1. Hvort þeir hafa einhverra hagsmuna að gæta er varða Rithöfundasambandið.
  2. Hvort þeir hafa fengið greiðslur á næstliðnu fjárhagsári frá Rithöfundasambandinu.
  3. Hvort þeir, sem rétthafar, hafa fengið fjárhæðir frá Rithöfundasambandinu á næstliðnu fjárhagsári.
  4. Yfirlýsingu um raunverulegan eða hugsanlegan árekstur milli persónulegra hagsmuna og hagsmuna Rithöfundasambandsins eða milli skuldbindinga gagnvart Rithöfundasambandinu og skyldu gagnvart einhverjum öðrum einstaklingi eða lögaðila.

Rithöfundasambandið skal hafa vefsíðu og birta þar m.a. lög þessi, upplýsingar um stjórn Rithöfundasambandsins, almenna úthlutunarstefnu vegna réttindagreiðslna og aðrar upplýsingar sem skulu aðgengilegar á opinberum vef lögum samkvæmt.

7. grein
Stjórn RSÍ skipar í samninganefndir þegar gerðir eru heildarsamningar við félög og stofnanir. Rithöfundasamband Íslands er m.a. samningsaðili við Ríkisútvarpið/Sjónvarpið, Þjóðleikhúsið, Leikfélag Reykjavíkur, Menningarfélag Akureyrar, Félag íslenskra bókaútgefenda (útgáfu- og þýðingasamningar), Menntamálastofnun og Menntamálaráðuneyti f.h. Hljóðbókasafns. Rithöfundasambandið fer með réttindi félagsmanna og utanfélagsmanna gagnvart FJÖLÍS og IHM. Stjórn Rithöfundasambandsins kemur enn fremur fram f.h. félagsmanna við gerð annarra heildarsamninga svo og einstakra samninga sem kann að vera óskað eftir. Enn fremur hefur stjórn RSÍ með höndum samskipti við hliðstæða erlenda aðila og kemur fram fyrir hönd félagsmanna gagnvart innheimtusamtökum og öðrum höfund­a­sam­tök­um í samræmi við tilgang sambandsins. Stjórn Rithöfundasambandsins skipar og/eða tilnefnir í stjórnir og ráð þ.m.t. úthlutunarnefnd Bókasafnssjóðs höfunda, uppstillinganefnd vegna úthlutunarnefndar starfslauna rithöfunda og stjórn Miðstöðvar íslenskra bókmennta. Þá tilnefnir hún fulltrúa í stjórn Fjölís, í stjórn IHM, í inntökunefnd ritlistar við Háskóla Íslands og höfundaréttarráð. Stjórnin skipar m.a. í stjórn Stofnunar Gunnars Gunnarssonar, stjórn Þórbergsseturs, stjórn Tónmenntasjóðs, Íslenska málnefnd, stjórn Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO og ýmsar dómnefndir eftir því sem við á hverju sinni. Stjórn RSÍ fundar að jafnaði mánaðarlega. Umboð sitt til ofangreindra starfa þiggur réttkjörin stjórn á aðalfundi. Stjórnin kemur fram fyrir hönd félagsmanna gagnvart innheimtusamtökum og öðrum höfunda­sam­tök­um í samræmi við tilgang samtakanna. Stjórn sambandsins kemur enn fremur fram f.h. félagsmanna við gerð annarra heildarsamninga svo og einstakra samninga sem kann að vera óskað eftir eða mælt er fyrir um í lögum.

8. grein
Rithöfundasambandið annast umsýslu höfundarréttar og skyldra réttinda höfunda skv. 11. gr. höfundalaga nr. 73/1972. Í því felst m.a. að innheimta tekjur af réttindum og úthluta fjárhæðum til rétthafa. Úthlutunarstefna skal samþykkt á aðalfundi. Stjórn útfærir reglur um úthlutun slíkra fjármuna á grundvelli úthlutunarstefnu og hefur umsjón og eftirlit með úthlutun. Rithöfundasambandinu er heimilt að innheimta umsýslukostnað til að standa straum af kostnaði við umsýslu þeirra á höfundarrétti eða skyldum réttindum og draga hann frá réttindatekjum. Sambandinu er einnig heimilt að úthluta fjármagni af réttindatekjum í félagslega, menningarlega og menntunartengda þjónustu og skal um slíka fjárúthlutun nánar fjallað í úthlutunarstefnu og úthlutunarreglum. Samtökin halda aðskilið bókhald vegna slíkrar umsýslu og birta árlega gagnsæisskýrslu um starfsemina. Skulu reikningsskilaupplýsingar sem fram koma í árlegu gagnsæisskýrslunni endurskoðaðar af löggiltum endurskoðanda í samræmi við lög um endurskoðendur.

9. grein
Aðalfund Rithöfundasambandsins skal halda árlega í vetrarlok, þó aldrei síðar en 1. júní. Á aðalfundi skýrir formaður frá starfi Rithöfundasambandsins á liðnu ári. Ársreikningar Rithöfundasambandsins skulu endurskoðaðir af skoðunarmönnum sem kosnir eru samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga þessara og skulu lagðir fyrir aðalfund til afgreiðslu.Á aðalfundi skulu umsýslumál og úthlutun réttindagreiðslna tekin fyrir og skal dagskrá þess hlutar fundarins vera:

  1. Formaður skýrir frá starfi Rithöfundasambandsins á liðnu ári, sbr. 1. mgr. 9. gr. laga þessara.
  2. Stjórn flytur skýrslu stjórnar um framkvæmd eftirlitsins, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga þessara.
  3. Almenn stefna um úthlutun réttindagreiðslna til rétthafa, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga þessara.
  4. Almenn stefna um notkun óráðstafanlegra fjárhæða.
  5. Almenn fjárfestingarstefna með tilliti til réttindatekna og arðs af fjárfestingu þeirra.
  6. Almenn stefna um frádrátt frá réttindatekjum og arðs af fjárfestingu þeirra.
  7. Notkun óráðstafanlegra fjárhæða.
  8. Áhættustýringarstefna.
  9. Þeir einstaklingar sem stjórna daglegri starfsemi sameiginlegrar umsýslustofnunar leggja fram hagsmunaskrá, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga þessara.
  10. Samþykkt fyrir hvers konar kaupum, sölu eða tryggingarrétti fastafjármuna.
  11. Samþykkt um samruna og bandalög, stofnun dótturfélaga og kaup á öðrum einingum eða hlutum eða réttindum í öðrum einingum.
  12. Samþykkt fyrir lántöku, lánveitingum eða útgáfu lánatrygginga.
  13. Kjör stjórnar, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga þessara.
  14. Kjör inntökunefndar, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga þessara.
  15. Kosning skoðunarmanna, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga þessara.
  16. Tilnefning og uppsögn endurskoðenda vegna gagnsæisskýrslu.
  17. Samþykkt ársreiknings Rithöfundasambandsins, sbr. 1. mgr. 9. gr. laga þessara.
  18. Samþykkt árlegrar gagnsæisskýrslu, sbr. 23. gr. laga nr. 88/2019.
  19. Önnur mál löglega borin fram.

10. grein
Aðalfundur Rithöfundasambands Íslands hefur heimild til að kjósa Rithöfundasambandi Íslands heiðursfélaga sem verði ævilangt undanþeginn félagsgjöldum. Þarf 3/4 hluta greiddra atkvæða á aðalfundi til að kjör heiðursfélaga sé lögmætt. Tillögu um heiðursfélaga skal senda stjórn sambandsins eigi síðar en tveimur mánuðum fyrir aðalfund og komi hún því aðeins til álita að stjórnin sé henni meðmælt.

11. grein
Aðalfundur ákveður árgjöld sambandsins. Nöfn þeirra félagsmanna, sem 1. mars hafa ekki greitt árgjald fyrra árs, skulu sett á aukaskrá. Félagar á aukaskrá hafa ekki atkvæðisrétt á sambandsfundum né heldur kjörgengi í stjórn eða önnur trúnaðarstörf fyrir sambandið. Þeir félagsmenn, sem ekki hafa greitt árgjaldið í tvö ár samkvæmt framansögðu, falla sjálfkrafa út af félagaskrá og verða ekki félagsmenn á ný fyrr en þeir hafa greitt skuld sína. Stjórn sambandsins er þó heimilt að veita félagsmönnum eftirgjöf eða ívilnun á árgjöldum ef efnahagslegar ástæður valda vanskilunum. Félagsmenn skulu undanþegnir árgjaldi sjötugir og upp frá því enda hafi þeir verið félagar í Rithöfunda­sambandinu í a.m.k. fimm ár. Skylt er að taka skriflega úrsögn félagsmanna til greina.

12. grein
Rithöfundasamband Íslands er aðili að Bandalagi íslenskra listamanna. Stjórnarmenn RSÍ eru gjaldgengir fulltrúar í stjórn BÍL. Stjórn getur valið staðgengil úr röðum félagsmanna í forföllum. Stjórn RSÍ sækir jafnframt aðalfundi Bandalags íslenskra listamanna. Til að rifta aðild sambandsins að bandalaginu þarf 3/4 greiddra atkvæða á aðalfundi.

13. grein
Breytingar á lögum Rithöfundasambands Íslands verða ekki gerðar nema á lögmætum aðalfundi og þó því aðeins að 2/3 fundarmanna gjaldi þeim jáyrði sitt. Allar tillögur um lagabreytingar, svo og aðrar veigamiklar tillögur sem bera skal upp til atkvæða á félagsfundi, skulu boðaðar í dagskrá fundarins.

14. grein
Auk aðalfundar skal sambandið halda eigi færri en tvo almenna fundi á ári. Eru slíkir fundir ályktunarhæfir um atriði sem snerta hagsmuni stéttarinnar og allt annað er viðkemur félagsmönnum, hafi þeir verið boðaðir með viku fyrirvara. Stjórn Rithöfundasambandsins skal ávallt kveðja saman félagsfund ef tíu félagsmenn æskja þess og tilgreina ástæðu.

15. grein
Kvörtunum vegna starfa stjórnar, þ.á.m. vegna umsýslu réttindagreiðslna, skal beina til stjórnar sem staðfestir móttöku og upplýsir viðkomandi aðila um þá meðferð sem kvörtunin mun fá. Slík staðfesting skal send innan 14 daga. Stjórn svarar kvörtun skriflega og rökstutt innan hæfilegs tíma frá því að erindi barst stjórn.

16. grein
Lög þessi öðlast þegar gildi. (Lögin svo breytt, samþykkt á aðalfundi 30. apríl 2024).