Um RSÍ

RSÍ – stéttarfélag allra rithöfunda

Ef þú ert rithöfundur; barna- eða unglingabókahöfundur, fræðibókahöfundur, handritshöfundur, ljóðskáld, leikskáld, skáldsagna- eða smásagnahöfundur, sjónvarpsþýðandi, þýðandi eða ævisagnahöfundur þá er Rithöfundasamband Íslands stéttarfélagið þitt.

RSÍ hvetur alla starfandi rithöfunda og þýðendur sem uppfylla inntökuskilyrði RSÍ til að leggja sitt af mörkum og slást í sístækkandi hóp öflugra félagsmanna. Með því að tilheyra og taka þátt í stórum hagsmunasamtökum fagfólks stuðla höfundar að samstöðu og gefa samningafulltrúum RSÍ slagkraft og styrk.

Rithöfundasamband Íslands er stéttarfélag höfunda og tilgangur félagsins er m.a. að efla samtök íslenskra höfunda, gæta hagsmuna þeirra og réttar í samræmi við alþjóðavenjur, verja frelsi og heiður bókmenntanna og standa gegn hvers kyns ofsóknum á hendur höfundum og hindrunum í starfi þeirra. Öflug samstaða er grundvöllur fyrir því að þoka réttindamálum höfunda áfram.

Hér að neðan má fræðast betur um starfsemi RSÍ og ýmsa þjónustu sem félagsmönnum stendur til boða.

Skrifstofa RSÍ og aðstoð við félagsmenn

Á skrifstofu RSÍ er samankomin viðamikil þekking á flestu sem snýr að daglegu amstri höfundarins, við bjóðum félagsmönnum ráðgjöf, lesum yfir samninga, leiðbeinum í samskiptum við útgefendur, framleiðendur eða aðra viðsemjendur, gefum út viðmiðunartaxta og svo mætti lengi telja.

Skrifstofa Rithöfundasambands Íslands hefur aðsetur í Gunnarshúsi, Dyngjuvegi 8, og er opin 10-14 alla virka daga. Höfundum er velkomið að leita þangað með fyrirspurnir um hvaðeina sem tengist ritstörfum og réttindum höfunda.

Öll ráðgjöf sem skrifstofa RSÍ veitir stendur félagsmönnum til boða endurgjaldslaust.

Framkvæmdastjóri RSÍ er Ragnheiður Tryggvadóttir, verkefnisstjóri RSÍ er Þórunn Hafstað og lögfræðingur RSÍ er Sigrún Ingibjörg Gísladóttir. Allir félagsmenn eiga rétt á gjaldfrjálsri ráðgjöf hennar eftir nánar ákveðnum reglum.

Fréttamiðlar RSÍ

Miðlar RSÍ eru mikilvæg upplýsingaveita fyrir félagsmenn. Á heimasíðu RSÍ liggja fyrir upplýsingar um helstu starfsemi félagsins, samninga og taxta, þjónustu við félagsmenn, lög og reglur um höfundarétt, gestaíbúðir erlendis og á Íslandi og upplýsingar um sjóði og styrki sem standa höfundum til boða sem og ýmislegt annað.

Í fréttaveitu á heimasíðu RSÍ og facebook-síðu eru birtar helstu fréttir af starfsemi félagsins en auk þess fá félagsmenn í RSÍ reglulega upplýsingar í tölvupósti um alla þjónustu og tilboð á vegum félagsins, mikilvæga viðburði, námskeið og upplýsingar um erlenda og innlenda styrki, sjóði og dvalarsetur. Minnt er tímanlega á alla helstu umsóknarfresti sem starfandi höfundar mega ekki láta fram hjá sér fara.

Gunnarshús – fyrir alla félagsmenn

Skrifstofa RSÍ hefur haft aðsetur sitt í Gunnarshúsi við Dyngjuveg 8 síðan 1997 og þar fer fram fjölbreytt og lífleg starfsemi á vegum sambandsins. Gunnarshús á sér merka sögu en það var síðasti bústaður rithöfundarins Gunnars Gunnarssonar og Franziscu konu hans og er húsið merkur áfangi í sögu byggingarlistar á Íslandi. Reykjavíkurborg afhenti Rithöfundasambandinu húsið til eignar árið 2012.

Húsið er vinsæll funda- og viðburðastaður og stendur félagsmönnum til boða endurgjaldslaust fyrir fundi, fyrirlestra, málþing, höfundakvöld og aðrar fagsamkomur. Auk þess geta félagsmenn gegn vægu gjaldi leigt húsið fyrir einkasamkvæmi. Í Gunnarshúsi eru einnig vinnustofur sem leigðar eru út til félagsmanna allt árið og allir félagsmenn geta sótt um.

Í kjallara Gunnarshúss er þar að auki gestaíbúð ætluð erlendum rithöfundum, þýðendum og öðru bókmenntafólki.

Gestaíbúðir fyrir höfunda

Höfundum og þýðendum standa til boða ýmiskonar gestaíbúðir og dvalarsetur hérlendis, á Norðurlöndum og víða um heim. Allar auglýsingar um umsóknarfresti og tilboð eru áframsendar á póstlista félagsmanna en upplýsingar um á fjórða tug rithöfundaíbúða er einnig að finna á heimasíðu RSÍ.

Rithöfundasambandið heldur enn fremur úti tveimur vinsælum vinnu- og orlofshúsum fyrir félagsmenn sína, Norðurbæ á Eyrarbakka og Sléttaleiti í Suðursveit. Nóttin kostar 2.000 kr. og eru húsin í vikuleigu á sumrin en á veturna má leigja þau í allt að 6 vikur í senn. Hægt er að skoða myndir af húsunum, dagatal með yfirliti yfir lausa daga og bóka á heimasíðu RSÍ.

Höfundamiðstöð RSÍ

Höfundamiðstöð Rithöfundasambandsins er kynningarmiðstöð félagsmanna og veitir upplýsingar um höfunda, stuðlar að bókmenntakynningum, hefur milligöngu um upplestra og aðstoðar við mótun dagskrár. Höfundamiðstöðin setur einnig einhliða taxta fyrir þjónustu sem hún veitir og ekki liggja fyrir samningar um, sbr. upplestra og kynningar, námskeið, fyrirlestra og þátttöku í pallborðsumræðum.

Félagsskírteinið – réttindi og afsláttur

Félagsskírteini RSÍ veitir félögum öll félagsleg réttindi RSÍ svo sem lagalega aðild að samningum RSÍ við Ríkisútvarp, hljóðvarp og sjónvarp, Félag íslenskra bókaútgefenda, Þjóðleikhús, Leikfélag Reykjavíkur og Leikfélag Akureyrar, Bandalag íslenskra leikfélaga, Menntamálastofnun og Hljóðbókasafnið.

Félagsmönnum bjóðast einnig ýmsir afslættir og tilboð hjá samstarfsaðilum RSÍ gegn framvísun félagsskírteinis. Félagsskírteinið er rafrænt.

Skírteininu fylgja þau fríðindi að geta keypt einn miða hjá Þjóðleikhúsinu á kr. 1.000.- miðann. Einn miða á almenna sýningu hja Leikfélagi Reykjavíkur / Borgarleikhúsinu á kr. 1.500,- og söngleiki á 50% afslætti.

Félagar fá auk þess 25% afslátt af miðum í Bíó Paradís, 15% afslátt í öllum verslunum Pennans – Eymundsson og Iðu og 10% afslátt hjá Prentvörum, Skútuvogi 1.

Styrkir og sjóðir félagsmanna – fylgist vel með!

Á heimasíðu RSÍ má sjá yfirlit yfir sjóði sem höfundar geta sótt um starfs- eða ferðastyrki í, erlenda sem innlenda, sbr. Launasjóð rithöfunda, handritsstyrki Kvikmyndasjóðs, Starfslaunasjóð sjálfstætt starfandi fræðimanna o.fl.

Rithöfundasambandið á og rekur Höfundasjóð RSÍ, en úr honum eru veittir styrkir til félagsmanna og annarra starfandi höfunda; ferðastyrkir til félagsmanna og starfsstyrkir til einstaklinga óháð félagsaðild.

Félagsmenn fá reglulega áminningar um þá umsóknarfresti sem auglýstir eru en sumir sjóðir hafa engan umsóknarfrest og aðrir eru ekki alltaf auglýstir. Við mælum því með að félagsmenn kynni sér vel þá sjóði sem geta nýst þeim við ritstörfin.

Samningar og taxtar

Stjórn Rithöfundasambandsins hefur umboð til hagsmunagæslu fyrir félagsmenn gagnvart stjórnvöldum, milliliðalaust, og gerir samninga við ríkisútvarp (hljóðvarp og sjónvarp), bókaútgefendur, Menntamálastofnun, leikhús og aðra aðila sem birta eða hafa afnot af verkum félagsmanna. Alla samninga sem RSÍ gerir fyrir hönd félagsmanna má finna á heimasíðu RSÍ og þar má einnig finna taxta sem uppfærðir eru reglulega skv. samningum. Skrifstofa veitir einnig ráðgjöf varðandi option-, purchase– og handritasamninga sem ekki liggja fyrir staðlaðir.

RSÍ hvetur félagsmenn til að kynna sér vel alla samninga áður en þeir skrifa undir þá, að hafa réttar upplýsingar um samninga, taxta og gjaldskrár og hvetur þá sem eru í vafa til að ráðfæra sig við skrifstofu RSÍ.

Bandalag skrifandi stétta – sameinuð stöndum við

RSÍ hefur allt frá stofnun sambandsins lagt áherslu á að semja um réttindi og kjör höfunda og hefur frá upphafi starfað sem stéttarfélag allra rithöfunda. Þótt rekja megi uppruna félagsins allt til ársins 1928 þá má þakka öll núverandi réttindi höfunda sameiningu þeirra í eitt stórt samband árið 1974. Í kjölfarið fengu höfundar mátt hinna mörgu til samstöðu og réttindabaráttu sem hefur skilað sér í breiðfylkingu sem starfar á traustum grunni.

Meginverkefni sambandsins er að verja starfsumhverfi rithöfunda og stendur félagið vörð um höfundarétt og fylgist grannt með öllum lagabreytingum sem hafa áhrif á hann ásamt því að sinna kjaramálum höfunda og verja alla almenna hagsmuni íslenskra höfunda. Í RSÍ eru um 650 félagsmenn af ýmsum toga og allir eiga þeir sameiginlegt að skrifa fyrir ýmsa miðla. Félagsmenn skrifa kvikmyndahandrit, leikverk, ljóð, sjónvarpshandrit, þýðingar, hljóðlistaverk, skáldsögur, smásögur, barnabækur, fræðibækur, heimildarit og gjörninga svo fátt eitt sé upp talið. Höfundar skrifa fyrir sífellt fleiri miðla og eitt af verkefnum RSÍ er að vinna að hagsmunum félagsmanna á nýjum vettvangi hverju sinni. RSÍ fylgist því grannt með öllum breytingum og er sífellt að leita nýrra leiða til að bæta hag og kjör höfunda.

Sambandið nýtist félagsmönnum á ýmsa vegu eins og fram kemur hér að ofan en félagsmenn geta líka lagt RSÍ lið. Með því að tilheyra og taka þátt í stórum hagsmunasamtökum fagfólks stuðlar fólk að samstöðu og gefur samningafulltrúum aukinn styrk.

Félagsmenn eru hvattir til að taka virkan þátt í starfinu því öflug grasrótarvinna á öllum sérsviðum styrkir innviði og markar stefnu sambandsins. Félagsmenn vinna ýmiss konar sjálfboðastarf fyrir félagið, sitja í stjórn, inntökunefnd RSÍ og öðrum nefndum og stjórnum sem sambandið tilnefnir í. Þau eru orðin óteljandi dæmin um grasrótarstarf sem unnið hefur verið innan RSÍ og skilað hefur árangri fyrir ýmis sérsvið stéttarinnar en stofnun Samtaka íslenskra barna- og unglingabókahöfunda, ljóðaverðlaunin Maístjarnan, höfundakvöldin í Gunnarshúsi og vefritið Höfundurinn eru nýlegustu dæmin um grasrótartillögur sem RSÍ hefur getað lagt lið og stutt með ýmsum hætti.

Ábendingar og góðar tillögur eru ávallt vel þegnar. Stjórn RSÍ ályktar mánaðarlega um hin ýmsu mál og t.a.m. leið ekki nema ár frá því að stungið var upp á sérstökum verðlaunum fyrir bestu ljóðabók ársins og þangað til tillagan var orðin að veruleika. Ef allir félagsmenn eru vakandi vegnar okkur betur!