Rithöfundasamband Íslands

The Writers' Union of Iceland


Vorvindaviðurkenningar IBBY á Íslandi afhentar

 

Sunnudaginn 21. maí veitti Íslandsdeild IBBY sínar árlegu viðurkenningar fyrir framlög til barnamenningar, Vorvinda, við athöfn í Gunnarshúsi, húsi Rithöfundasambands Íslands.

Vorvindum er ætlað að vekja athygli á verkum og starfsemi sem hleypir ferskum og endurnærandi vindum inn í íslenska barnamenningu. Að þessu sinni voru Vorvindahafarnir fjórir.

Lára Garðarsdóttir, mynd- og rithöfundur fékk viðurkenningu fyrir bók sína Flökkusögu, en hún greinir frá hættuför lítillar hvítabirnu sem verður að flýja heimkynni sín og leita að nýju heimili. KrakkaRÚV hlaut Vorvinda fyrir starf sitt við framleiðslu efnis fyrir börn og með börnum, einkum fréttaefnis fyrir börn, og fyrir að gera eldra efni aðgengilegt. Jenny Kolsöe rithöfundur hlaut viðurkenningu fyrir bækurnar um ömmu óþekku og afa sterka, sem flétta fræðslu um landið okkar og þjóðsögurnar inn í fyndna samtímafrásögn. Loks var Töfrahurð tónlistarútgáfa verðlaunuð fyrir að opna börnum gátt inn í heim tónlistar með fjölbreyttu og metnaðarfullu útgáfustarfi og tónleikahaldi.

Íslandsdeild IBBY óskar verðlaunahöfum til hamingju og hvetur þá alla til frekari dáða.

Ljósmynd: Sigríður Wöhler Frá hægri: Pamela De Sensi, listrænn stjórnandi Töfrahurðar, Sigyn Blöndal og Sindri Bergmann Þórarinsson frá KrakkaRÚV, Jenný Kolsöe og Lára Garðarsdóttir.

Ljósmynd: Sigríður Wöhler. Frá hægri: Pamela De Sensi, listrænn stjórnandi Töfrahurðar, Sigyn Blöndal og Sindri Bergmann Þórarinsson frá KrakkaRÚV, Jenný Kolsöe og Lára Garðarsdóttir.


Vorvindaviðurkenningar IBBY á Íslandi afhentar

swo?hler_MG_09122016

Meðfylgjandi er ljósmynd frá verðlaunaafhendingunni. Á myndinni eru (frá vinstri) Ásta Magnúsdóttir (fyrir hönd Kjartans Yngva Björnssonar og Snæbjörns Brynjarssonar), Bergrún Íris Sævarsdóttir, Ragnhildur Hólmgeirsdóttir og stofnendur Study Cake: Kjartan Þórisson, Hörður Guðmundsson og Kristján Ingi Geirsson. Ljósmyndina tók Sigríður Wöhler.

Vorvindaviðurkenningar IBBY á Íslandi voru afhentar í þrítugasta skiptið 22. maí í Gunnarshúsi.  Fjórar viðurkenningar voru veittar að þessu sinni fyrir störf að barnamenningu, en þær eiga að vekja athygli á þeim fersku vindum sem blása á sviðinu og vera viðtakendum hvatning til að halda áfram á sömu braut.

Viðurkenningarnar hlutu:

  • Bergrún Íris Sævarsdóttir. Bergrún er afkastamikill listamaður sem virðist eflast með hverju nýju verkefni. Hún vinnur bæði með myndir og texta og bækur hennar ná jafnauðveldlega til yngstu lesendanna og þeirra sem lesa fyrir þá, enda einkenna húmor og hlýja verk hennar öll.
  • Kjartan Yngvi Björnsson og Snæbjörn Brynjarsson. Síðan fyrsta bókin í flokknum Þriggja heima saga kom út hefur sagan vaxið mikið og söguheimurinn þanist út. Kjartan og Snæbjörn eru metnaðarfullir og hugmyndaríkir höfundar, en svo að ungt fólk kjósi að lesa á íslensku skiptir sköpum að til séu bækur eins og Þriggja heima saga á íslensku.
  • Ragnhildur Hólmgeirsdóttir. Fyrsta bók Ragnhildar, Koparborgin, er safarík saga þar sem hver þáttur er úthugsaður. Bókin ber þess merki að höfundur hefur nostrað við hvern þátt hennar, en ríkuleg smáatriðin yfirgnæfa samt aldrei æsispennandi frásögn Ragnhildar sem heldur þétt um alla þræði sögunnar.
  • Study Cake. Frumkvöðlar sprotafyrirtækisins Study Cake hafa það markmið að líta á tæknina sem bandamann bóklestrar, frekar en sem óvin, í keppninni um tíma barna. Samnefnt smáforrit er unnið í samstarfi við fjölda höfunda og sérfræðinga og þróast ört í takt við kröfur notenda, sem er til mikillar fyrirmyndar.