Rithöfundasamband Íslands

The Writers' Union of Iceland


Eiríkur Rögnvaldsson fær verðlaun Jónasar Hallgrímssonar

35298530_10155828237988871_4367835964547006464_n
Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar voru afhent á degi íslenskrar tungu þann 16. nóvember. Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, veitti Eiríki Rögnvaldssyni, prófessor emeritus, Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar 2018.
Rithöfundasamband Íslands óskar Eiríki innilega til hamingju með viðurkenninguna.

Í greinargerð ráðgjafanefndar segir:

Prófessor emeritus Eiríkur Rögnvaldsson hefur með frumkvæði, elju og ást á íslenskri tungu, verið í framlínu þeirra sem vekja athygli þjóðar og stjórnvalda á þeirri hættu sem steðjar að íslenskri tungu og hinu smáa málsamfélagi okkar. Af atorku hefur hann útskýrt og gert grein fyrir hvílík lífsnauðsyn það er að efla máltækni á íslensku, hvað í því felst og hvaða áhrif það getur haft sé það ekki gert með hraði.

Í umræðu um þetta málefni hefur Eiríkur sýnt víðsýni og verið opinn fyrir eðlilegri þróun tungumálsins en jafnframt sýnt fram á það af rökfestu að viðbúið sé, ef svo heldur fram sem horfir, að íslensk tunga sé farin að þróast óeðlilega og eigi á hættu að hverfa í gin enskunnar, og að nú séu síðustu forvöð að spyrna við fótum ef ekki á illa að fara.

Eiríkur hefur jafnframt verið óþreytandi að ítreka hve lífsnauðsynlegt það er fyrir tungumálið og vitund okkar sem þjóðar, að viðhalda tungunni, efla og styrkja móðurmálskennslu og vekja fólk til umhugsunar um að tungumálið sé sameiningartákn, sá strengur sem tengir okkur við söguna og lífið í landinu, bæði fyrr og nú, en ekki síður að sá strengur verði að ná til framtíðarinnar líka.

Continue reading