Starfsstyrkir – reglur

Starfstyrkir úr Höfundasjóði RSÍ eru veittir einu sinni á ári. Rétt til að sækja um starfsstyrk úr Höfundasjóði RSÍ hafa starfandi rithöfundar óháð félagsaðild í RSÍ, þ.e. barnabókahöfundar, handritshöfundar, leikskáld, ljóðskáld, skáldsagna- og smásagnahöfundar, unglingabókahöfundar, þýðendur, ævisagnahöfundar og aðrir rithöfundar. Þar sem starfstyrkirnir eru veittir af því fé sem RSÍ veitir viðtöku vegna ljósritunar í skólum er rétt að taka fram að Hagþenkir veitir viðtöku hlut höfunda fræðirita og kennslugagna og úthlutar til þeirra. Höfundar geta því ekki sótt um starfsstyrk úr Höfundasjóði RSÍ vegna fræðirita eða kennslugagna.

Styrkirnir eru veittir til ritstarfa en ekki til útgáfu á verkum, kynningar eða annars kostnaðar við útgáfu. Áhersla er lögð á að styrkja höfunda til að ljúka verkum sem eru langt komin. Ekki eru veittir styrkir vegna lokaverkefna í háskólanámi.

Umsóknareyðublað er aðgengilegt þremur vikum fyrir auglýstan umsóknarfrest. Umsókn skulu fylgja eftirfarandi upplýsingar og gögn eftir því sem við á: Kynning á höfundi og helstu ritverkum, til hvaða starfa er sótt um styrk, afrit af samningi við útgefanda eða framleiðanda, upplýsingar um verk og sýnishorn úr handriti, hvort umsækjandi þiggi laun eða aðra styrki. Mikilvægt er að láta öll gögn sem stutt geta við umsókn, sbr. afrit af útgáfusamningi eða sýnishorn úr handriti, fylgja með umsókn og eru þau send sér á netfangið umsoknir@rsi.is.

Þeir höfundar ganga fyrir sem ekki þiggja aðra starfsstyrki eða laun fyrir verk sitt, t.a.m. þeir sem fá færri en sex mánuði úr launasjóði rithöfunda og eiga ekki kost á öðrum starfsstyrkjum. Við mat á umsóknum hefur úthlutunarnefnd til viðmiðunar að umsækjandi hafi ekki fengið starfsstyrk frá RSÍ síðustu 24 mánuðina. Að öðru jöfnu skulu þeir ganga fyrir um styrki sem:

  • hafa ekki áður fengið stafstyrk frá RSÍ,
  • hafa lítil eða engin tök á að sækja í aðra sjóði en Höfundasjóð RSÍ.

Skrifstofa RSÍ auglýsir eftir umsóknum um starfsstyrki einu sinni á ári og sótt er um á þar til gerðu rafrænu umsóknareyðublaði á heimasíðu RSÍ.

Úthlutunarnefnd metur umsóknir og ákvarðar úthlutun.

  • Félagsmenn geta ekki sótt um starfs- eða ferðastyrki á meðan þeir eiga sæti í stjórn RSÍ. Bókun stjórnar 13. apríl 2018.