Höfundasjóður

Höfundasjóður RSÍ er sjóður sem veittir eru styrkir úr til félagsmanna og annarra starfandi höfunda. Úr Höfundasjóði eru veittir ferðastyrkir sem auglýstir eru tvisvar á ári, á vorin og haustin, og verkefnastyrkir til einstaklinga sem auglýstir eru einu sinni á ári, að vori. Auglýsingar eru birtar í miðlum RSÍ. Þriggja manna nefnd annast úthlutun styrkja úr Höfundasjóði. Við úthlutun verkefna- og ferðastyrkja skal hafa hliðsjón af ritstörfum höfunda og miðað skal við vægi bókmenntagreinar og niðurstöður úr könnunum á ljósritun í skólum eftir því sem unnt er. Fræðirit, kennslugögn og viðlíka ritverk veita ekki rétt til úthlutunar úr höfundasjóði enda veitir Hagþenkir – félag höfunda fræðirita og kennslugagna viðtöku því fé sem greitt er fyrir ljósritun á þess háttar efni. Opnað er fyrir umsóknir þremur vikum áður en umsóknarfrestur rennur út.

Úthlutunarnefnd Höfundasjóðs RSÍ 2024-2025

Soffía Bjarnadóttir, Yrsa Þöll Gylfadóttir og Haukur Ingvarsson.

Reglur um Höfundasjóð og greiðslur frá Fjölís

Höfundasjóður tekur við greiðslum frá Fjölís vegna verka sem nýtt eru með ljósritun, skönnun, rafrænni eftirgerð eða annarri hliðstæðri eftirgerð. Engar skýrslur eða gögn fylgja greiðslum þannig að raunverulegir rétthafar eru ekki rekjanlegir.  Á meðan ekki er hægt að greiða fyrir raunverulega notkun beint til rétthafa mun RSÍ halda áfram að úthluta Fjölísgreiðslum til sameiginlegra hagsmuna rétthafa og til einstakra rétthafa á grundvelli um­sókna.

Höfundasjóður úthlutar mótteknu fé á eftirfarandi hátt að frádregnum beinum kostnaði og umsýslukostnaði til RSÍ:

70% er úthlutað til rétthafa í formi starfsstyrkja og ferðastyrkja – auglýst er í blöðum og netmiðlum. Við úthlutun úr Höfundasjóði skal miðað við vægi bókmenntagreina og niðurstöður úr könnunum á ljósritun í skólum eftir því sem unnt er.
15% til reksturs vinnuhúsa fyrir rithöfunda. RSÍ á og rekur vinnuaðstöðu fyrir höfunda á Eyrarbakka og í Suðursveit – húsin eru nýtt allan ársins hring og er nýting á bilinu 80 – 100% tímans.

15% renna í varasjóð RSÍ – sjóðnum er ætlað að grípa inn í ef nauðsyn krefur og óvænt útgjöld verða sem ekki er gert ráð fyrir í rekstri sjóðanna eða RSÍ.

Stjórn og skrifstofa RSÍ annast umsýslu varasjóðs og vinnuhúsasjóðs.

Beinn kostnaður vegna meðferðar tekna Höfundasjóðs skal greiddur af óskiptu framlagi frá Fjölís, skv. góðum reikningsskilavenjum. Slíkur kostnaður getur falist í greiðslum vegna lögfræði­þjónustu, endurskoðunar, þóknun úthlutunarnefnda svo og öðrum kostnaði sem beinlínis fellur til vegna úthlutanna. Auk þessa greiðist kostnaðarþátttaka til RSÍ og skal hún ekki nema stærri hluta en 25% af óskiptum tekjum Höfundasjóðs.

Ársreikningur Rétthafagreiðslna skal bera með sér tekjur Höfundasjóðs frá Fjölís og ráðstöfun þeirra.

Reglur um Höfundasjóð

Styrkir eru veittir félagsmönnum og öðrum rithöfundum. Skrifstofa RSÍ leggur árlega til hlutfallsskiptingu í ljósi tekna.

  1. Verkefnastyrkir án umsókna, s.s. þýðingaverðlaun, Maístjörnuverðlaun, skilgreint samstarf vegna höfundaskipta og sérstakur lögfræðikostnaður. Stjórn RSÍ annast úthlutun.
  2. Starfsstyrkir eftir umsóknum
  3. Ferðastyrkir eftir umsóknum

Úthlutunarreglur:

  1. Á aðalfundi eru kjörnir þrír menn í úthlutunarnefnd og mega þeir ekki vera úr hópi stjórnarmanna sambandsins. Úthlutunarnefnd er kjörin til eins árs í senn og annast úthlutun starfs- og ferðastyrkja eftir umsóknum. Enginn situr þó lengur í nefndinni en 3 ár samfleytt. Úthlutunarnefnd skipar sér formann sem ber ábyrgð á að boða til funda og samskiptum við skrifstofu RSÍ. Nefndarmenn sækja sjálfir ekki um styrki það tímabil sem þeir sitja í nefnd.
  2. Við úthlutun starfsstyrkja skal hafa hliðsjón af ritstörfum höfunda og útgefnum verkum.
  3. Miðað skal við vægi bókmenntagreina og niðurstöður úr könnunum á ljósritun í skólum eftir því sem unnt er. Fræðirit, kennslugögn og viðlíka ritverk veita ekki rétt til úthlutunar úr Höfundasjóði enda veitir Hagþenkir – félag höfunda fræðirita og kennslugagna viðtöku því fé sem greitt er fyrir ljósritun á þess háttar efni.
  4. Auglýsa skal eftir umsóknum um starfsstyrki einu sinni á ári og umsóknum um ferðastyrki tvisvar á ári. Auglýsingar skulu birtar í miðlum RSÍ.
  5. Styrkir sem ekki eru sóttir eða ekki næst að úthluta renna aftur í Höfundasjóð.
  6. Nánar skal kveðið á um skilyrði styrkja í sérstökum úthlutunarreglum.
  • Svo samþykkt á aðalfundi RSÍ 11. maí 2023.
  • Félagsmenn geta ekki sótt um starfs- eða ferðastyrki á meðan þeir eiga sæti í stjórn RSÍ. Bókun stjórnar 13. apríl 2018.