Spurt og svarað

Hvað gera höfundar? Hvað gera þýðendur?

Höfundar og þýðendur eru höfundar og rétthafar bókmenntaverka. Þeir skrifa og þýða bækur. Þannig skipa verk þeirra mikilvægan þátt í menntun og menningu þjóðarinnar.

Höfundar og þýðendur eru sérfræðingar á sínu sviði. Auk þess að skapa bókmenntaverk eru þeir iðulega ráðnir til að vinna ýmis önnur bókmenntatengd verkefni: ritstjórn, ýmiss konar yfirlestur, semja ræður, erindi og pistla,  lesa upp og kynna verk sín, halda námskeið o.s.frv.

Á hverju lifa höfundar og þýðendur?

Höfundar og þýðendur fá höfundarlaun eftir sölu verka sinna og þýðendalaun skv. töxtum. Þessar tekjur einar og sér hrökkva oft skammt og duga þá ekki til þess að höfundar geti lifað af sölu á verkum sínum. Allar viðbótartekjur sem höfundur getur haft af starfi sínu eru því afar mikilvægar.

Sjálfboðavinna?

Þegar höfundar eru beðnir um að taka þátt í viðburðum eða sinna verkefnum fyrir litla eða enga þóknun er í raun verið að biðja þá um að vinna sjálfboðavinnu. Ástæðurnar geta verið margvíslegar og oftar en ekki er tilgangurinn góður, bókmenntakynningar fyrir börn, lestrarátök, safnanir til styrktar hópum eða fleira í þeim dúr.

Að sjálfsögðu kemur það fyrir að höfundar, eins og aðrar starfsstéttir, vilja bjóða fram krafta sína án þess að þiggja fyrir það laun, lesa upp, gefa bækur, skrifa texta eða annað í þeim dúr. En það frumkvæði á að liggja hjá höfundinum sjálfum!

En borgar sig ekki fyrir höfund að kynna bækurnar sínar sem víðast?

Höfundarlaun reiknast sem 23% af heildsöluverði. Af venjulegri skáldsögu eru höfundarlaun af hverju seldu eintaki því innan við þúsund krónur og ca. helmingi lægri ef um barnabók er að ræða. Þannig þyrfti höfundur að auka söluna um 25 – 50 eintök í hverri heimsókn til að ná upp í lágmarksgreiðslu fyrir upplestur. Engar kannanir hafa verið gerðar sem sýna fram á að kynning  hjá fámennum hópum, hjá félagasamtökum, inni á vinnustöðum eða í stórmörkuðum skili aukinni sölu í þessu magni.

Vill höfundurinn ekki auglýsa sig?

Í samningi milli útgefenda og höfunda er tekið fram að útgefendur sjái um kynningu verks á markaði. Fyrir alla kynningu höfunda á verkum sínum sem sérstaklega er pöntuð skal því greiða.

Sjái höfundar fram á að þurfa að vinna sjálfir umtalsverða vinnu við markaðssetningu verka sinna þurfa þeir að fá skilmerkileg svör frá útgefendum sínum um hversu mikil sú vinna verði og hvort útgefandi hyggist greiða fyrir hana eða annar aðili.

Þetta er nú lítið mál!

Höfundar lenda stundum í því að þeir eru beðnir um að vinna verkefni launalaust sem annars er greitt fyrir. Höfundur er beðinn um að taka þátt í fundi með hugvekju en ekki boðin þóknun, þýðandi tekur við verðlaunum en þarf að borga sjálfur fyrir ferðir og uppihald til að geta tekið þátt í verðlaunaathöfninni, þýðandi þarf sjálfur að skrifa umsókn um útgáfustyrk fyrir þýðingu sinni, höfundur fær það verkefni að skrifa sjálfur lýsinguna fyrir kvikmynd eftir bók hans og þar fram eftir götum.

Allt eru þetta verkefni sem eðlilegt þykir að greiða laun eða þóknun fyrir eigi aðrir starfsmenn í hlut og vitaskuld á það sama ná yfir höfunda.

Höfundum og þýðendum er velkomið að hafa samband við Höfundamiðstöð RSÍ ef spurningar vakna um hvort þóknun fyrir verk sé sanngjörn. Höfundamiðstöð hvetur höfunda enn fremur til að láta Höfundamiðstöð vita af því ef einhver býður of litla eða enga þóknun fyrir vinnu. Höfundamiðstöð getur tekið að sér að útskýra fyrir verkkaupa af hverju höfundar og þýðendur geta ekki unnið frítt.

Hafið endilega samband við okkur í rsi@rsi.is