Um heimildir til ljósritunar

Um heimildir til ljósritunar – Pdf-skjal

Helstu ákvæði laga og gildandi samninga

Samkvæmt 2.gr. höfundalaga hefur höfundur „einkarétt til að gera eintök af verki sínu og til
að birta það í upphaflegri mynd eða breyttri, í þýðingu og öðrum aðlögunum.“ Þennan
einkrétt nota höfundar til að gera útgáfusamning við þá sem hafa hug á að gefa verk þeirra
út.

Einkaréttur höfunda til eintakagerðar er takmarkaður með ákvæði í 11.gr. laganna sem
heimilar að gerð séu eintök af verki til einkanota eingöngu. Í þessari lagagrein er heimildin
þó takmörkuð þannig að ljósritunarstofur mega ekki annast eintakagerðina: „Ákvæði fyrstu
málsgreinar veita ekki rétt til … eftirgerðar verndaðra tónverka og bókmenntaverka, sé
leitað til hennar aðstoðar aðila, sem taka slíka eftirgerð að sér í atvinnuskyni.“

Samkvæmt gildandi samningi menntamálaráðuneytisins og Fjölís, samtaka rétthafa, er
heimiluð viss ljósritun útgefinna verka í skólum, háskólum og öðrum fræðslustofnunum sem
reknar eru af ríkinu. Heimild til ljósritunar er takmörkuð með ákvæðum í 6. grein
samningsins. Mikilvægustu takmarkanirnar eru þessar:

• Aðeins má fjölfalda stutta þætti úr hverju riti og 20% hið mesta eða 30 blaðsíður.
• Fjölföldun er aðeins heimil til bráðabirgðanota og því ekki til geymslu í birgðum.
• Fjölföldun er eingöngu heimil til viðbótar og fyllingar öðru kennsluefni svo og
venjulegum kennslubókum.

Með hugtakinu rit er í samningnum átt við hina efnislegu formheild eða eintak verks, svo
sem bók, bækling, tímaritshefti, tölublað, dagblað og nótnahefti. Sams konar takmarkanir
eru í samningum sem Fjölís hefur gert við einkaskóla.

Leita ber leyfis hjá rétthöfum til ljósritunar umfram það sem höfundalög og samningar Fjölís
heimila. Vilji kennarar eða leiðbeinendur fjölfalda efni til frekari nota, s.s. í textahefti eða
æfingahefti sem er notað ár eftir ár og jafnvel selt nemendum þarf til þess leyfi hjá höfundi
og útgefanda hans. Ljósritunarsamningar Fjölís heimila ekki slíka notkun. Með sérstökum
samningi við rétthafana er hins vegar venjulega hægt að fá heimild til að ljósrita eða gera
með öðrum hætti ákveðinn eintakafjölda af hvers konar ritverkum. Þetta gildir einnig um
tónverk sem hafa verið gefin út á nótum.

Sjá nánar á heimasíðu Fjölís – www.fjolis.is