Ljósvakasjóður – reglur

Sameiginlegar reglur Rithöfundasambands Íslands og Félags leikskálda og handritshöfunda um bætur vegna eintakagerðar til einkanota skv. 11.gr. höfundalaga

  1. gr. Gildissvið. Reglur þessar taka til greiðslna til höfunda skv. 11. grein höfundalaga nr. 73/1972. Hlutur RSÍ og FLH rennur í Ljósvakasjóð sem úthlutar til höfunda og þýðenda leiktexta og annarra skáldverka í samræmi við reglur þessar.
  2. gr. Réttur til greiðslu. Höfundar verka eiga rétt á sanngjörnum bótum vegna eftirgerðar verkanna til einkanota. Réttur til greiðslu er bundinn því að viðkomandi verki hafi verið útvarpað, hafi verið gert aðgengilegt almenningi þannig að hver og einn geti fengið aðgang að verkinu á þeim stað, á þeirri stundu og með þeim búnaði er hann sjálfur kýs eða hafi verið gefið út á hljóðriti eða myndriti. Rétturinn nær til frumsaminna og þýddra verka, þ.m.t. leikins hljóðvarps- og sjónvarpsefnis, kvikmynda, stakra þátta eða þáttaraða, leikinna atriða, útvarpssagna, ljóða, brota úr verkum og annarra skáldverka. Séu fleiri en einn höfundur að sama verki, skiptist réttur til úthlutunar eftir samkomulagi þeirra. Ef samkomulag næst ekki um skiptingu fer um hana samkvæmt ákvörðun úthlutunarnefndar.
  3. gr. Auglýsing um úthlutun. Ár hvert skal auglýsa fyrirhugaða úthlutun úr Ljósvakasjóði í netmiðlum og leita eftir skráningar­upp­lýsingum rétthafa, sem telja sig eiga rétt til úthlutunar skv. 2. gr. en hafa ekki áður skráð upplýsingar sínar eða fengið úthlutað úr sjóðnum. Skráningarupplýsingar á þar til gerðu eyðublaði skulu innihalda fullt nafn rétthafa og umboðsmanns ef því er að skipta, kennitölu rétthafa og umboðsmanns, netföng og heimilisföng aðila og reikningsnúmer hjá íslenskri bankastofnun. Sé verk grundvöllur úthlutunar­réttar, þar sem höfundar eru fleiri en einn er mikilvægt að með skráningu fylgi nákvæm skipting sem hlutfall af 100%. Þeir höfundar sem telja sig eiga rétt til úthlutunar skv. B lið 6. gr. þurfa að auki að skila inn sérstakri umsókn ár hvert. Í auglýsingu skal þess getið að réttur til úthlutunar skv. 2. gr. sé án tillits til félagsaðildar. Frestur til að skila inn skráningarupplýsingum eða umsókn skv. B lið 6. gr. skal vera þrjár vikur frá birtingu aug­lýsingar.
  4. gr. Skipting.
    Því fé sem Rithöfundasambandið og FLH veita móttöku í Ljósvakasjóð frá IHM,  til greiðslu bóta vegna eintakagerðar til einkanota skal ráðstafa, að frádregnum kostnaði og allt að 25% til félagslegrar, menningarlegrar og menntunartengdrar þjónustu, sem næst því sem hér segir, : 74% til höfunda handrita leikins sjónvarps- og hljóðvarpsefnis (A liður 6. gr.) 8% til höfunda og þýðenda annarra skáldverka sem flutt hafa verið í hljóðvarpi og sjónvarpi (A liður 6. gr.) 18% til greiðslna skv. umsóknum á grundvelli B liðar 6. gr. Þær fjárhæðir sem ekki ganga út við úthlutun skulu fyrnast að 4 árum liðnum og er þá ráðstafað í sjóðinn til sameiginlegra hagsmuna skv. nánari ákvörðun félaganna.
  5. Félagsleg, menningarleg og menntunartengd þjónusta. Samkvæmt 4. gr. reglna þessara og heimild í 6. gr laga nr. 88/2019 skal allt að 25% af mótteknum greiðslum RSÍ/FLH frá IHM notað til að fjármagna félagslega, menningarlega og menntunartengda þjónustu. Stjórnir RSÍ og FLH setja sameiginlegar reglur um meðferð slíkra fjármuna og skulu þær vera hluti af almennri úthlutunarstefnu og úthlutunarreglum RSÍ og birtar í árlegri gagnsæisskýrslu skv. lögum nr. 88/2019.
  6. gr. Úthlutun. Úthlutun úr Ljósvakasjóði miðast við næstliðið almanaksár. Úthlutun fer fram með tvennum þætti:
    A. Rétthafagreiðslur skv. skráðum flutningi sbr. 6. gr. Nægjanlegt er að skila inn skráningarupp- lýsingum einu sinni og gildir skráning þá ótímabundið. Eftir það sér úthlutunarnefndin um að skrá ný verk þeirra sem þegar hafa skilað upplýsingum. Rétthöfum ber að tilkynna breytingar á heimilisfangi, netfangi eða bankareikningi og hlutfallsskiptingu í nýjum verkum ef það á við. Greitt skal á grundvelli upplýsinga frá stofnunum skv. 6. gr. Greitt er fyrir sýningu á sjónvarpsseríum, kvikmyndum, og stuttmyndum í sjónvarpi og flutning á leiknu efni í hljóðvarpi, í línulegri dagskrá, á næstliðnu almanaksári. Greiðsla til handritshöfunda/leikskálda er í formi eingreiðslu og er ekki greitt fyrir endurteknar sýningar á almanaksári. Athugið að ekki er greitt fyrir sýningar á áskriftastreymisveitum, leigum eða Sarpi.

Fyrirkomulag greiðslna vegna sýninga/flutnings hvers verks í sjónvarpi eða hljóðvarpi, fer eftir einingafjölda miðað við heildarlengd verks, sem hér segir:

Verk sem er á bilinu 0 – 30 mínútur að heildarlengd jafngildir einni einingu (grunnhlut). Einingum fjölgar síðan fyrir hvert verk í samræmi við heildarlengd þess, um eina einingu á hverjar byrjaðar 30 mín, samkvæmt eftirfarandi töflu:

31-60 mín: 2 einingar;  61-90 mín: 3 einingar;  91-120 mín: 4 einingar;  121-150 mín: 5 einingar, o.s.frv..

Verðgildi hlutar er ráðstöfunarfé Ljósvakasjóðs (að frádregnum umsýslukostnaði og öðrum frádrætti skv. 5.gr reglna þessara) deilt með fjölda hluta á almanaksári Greiðslur sem ekki er unnt að koma til hlutaðeigandi rétthafa eru geymdar í 4 ár, en renna að þeim tíma loknum inn í Ljósvakasjóð.

B. Rétthafagreiðslur skv. sérstökum umsóknum. Um slíka úthlutun geta sótt rétthafar að styttri verkum, brotum úr verkum, stökum ljóðum, þýðendur skjátexta sem og frumhöfundar skáldverka sem leikgerðir, þættir eða kvikmyndir hafa verið gerðar eftir. Í umsóknum um greiðslur skv. þessum lið skal rökstyðja og gera grein fyrir notkun á einstökum verkum á umsóknartímabili. Úthlutað er á grundvelli mats úthlutunarnefndar. Ef reiknuð rétthafagreiðsla til umsækjanda skv. 5. gr. nemur lægri upphæð en kr. 10.000 kr. fellur réttur til greiðslu niður. Upphæð lágmarksviðmiðs skal endurskoðuð árlega.

7. gr. Gagnaöflun. Úthlutunarnefnd gerir samkomulag við RÚV, Sýn, Sjónvarp símans og aðrar sjónvarps- og útvarpsstöðvar um að veita upplýsingar um birtingar verka á viðkomandi almanaksári. Í upplýsingum skulu koma fram nöfn höfunda, heiti verka, útsendingartími, og lengd í mínútum.

8. gr. Úthlutunarnefnd. Á aðalfundi RSÍ eru kjörnir tveir einstaklingar í úthlutunarnefnd Ljósvakasjóðs og mega þeir ekki vera úr hópi stjórnarmanna sambandsins. Annar skal vera fulltrúi þýðenda. Félag leikskálda og handritshöfunda skipar tvo einstaklinga í nefndina. Einstaklingar í úthlutunarnefnd eru kjörnir til eins árs í senn og annast úthlutun greiðslna eftir skráningum og umsóknum, sbr. 6. gr. A og B. Enginn situr þó lengur í nefndinni en 3 ár samfleytt. Nefndarmenn sækja sjálfir ekki um úthlutun skv. B lið 6. gr. það tímabil sem þeir sitja í nefnd.

9. gr. Umsýsla. Skrifstofa Rithöfundasambands Íslands annast alla umsýslu Ljósvakasjóðs. Ársreikningur sjóðsins skal innifalinn í ársreikningi Rétthafagreiðslna  þar sem fram skulu koma upplýsingar um tekjur frá IHM og ráðstöfun þeirra, þ.m.t. kostnaður og úthlutun. Ársreikningur Rétthafagreiðslna er í samræmi við lög um sameiginlega umsýslu höfundaréttar nr. 88/2019. Beinn kostnaður vegna meðferðar tekna Ljósvakasjóðs skal greiddur af óskiptu framlagi frá IHM, skv. góðum reikningsskilavenjum. Slíkur kostnaður getur falist í launagreiðslum, greiðslum vegna lögfræði­þjónustu, endurskoðunar, þóknun úthlutunarnefnda svo og öðrum kostnaði sem beinlínis fellur til vegna úthlutanna. Umsýslukostnaður skal þó aldrei vera hærri en sem nemur 25% af heildargreiðslum IHM til RSÍ/FLH í samræmi við 4. gr. úthlutunarstefnu RSÍ

10. gr. Endurskoðunarákvæði. Reglur þessar skulu endurskoðaðar á að minnsta kosti þriggja ára fresti.

Reglur samþykktar svo á aðalfundi 11. maí 2023.

 Ákvæði til bráðabirgða vegna kapalgreiðslna og gerðardómsgreiðslna

Óúhlutaðar kapalgreiðslur  renni í sérstakan sjóð til sameiginlegra hagsmuna rétthafa. RSÍ og FLH útfæra reglur sjóðsins sérstaklega.

Óúhlutaðar bætur skv. 11. gr. höfundalaga renni í sérstakan sjóð til sameiginlegra félagslegrar, menningarlegra og/eða menntunartengdra hagsmuna rétthafa. RSÍ og FLH útfæra reglur sjóðsins sérstaklega.