Search
Close this search box.

Saga Gunnarshúss

gunnarshús6

Húsið að Dyngjuvegi 8 á sér merka sögu. Annarsvegar var þar síðasti bústaður rithöfundarins Gunnars Gunnarssonar og Franziscu konu hans. Hinsvegar er húsið merkur áfangi í sögu byggingarlistar á Íslandi. Það var teiknað og byggt á árunum 1950-52. Arkitekt var Hannes Kr. Davíðsson, sem þá var tiltölulega nýkominn frá námi og bar nýja strauma til landsins. Hann lét þarfir og óskir hjónanna ráða innri gerð hússins, sem um margt var óvenjuleg og stakk í stúf við það sem tíðkaðist hérlendis um þessar mundir; þar má nefna að stiginn milli hæða er léttur og opinn en ekki í lokuðu stigahúsi, þar má nefna tengingu hæðanna með opi sem ofanljós flæðir um. Sömuleiðis má nefna atriði í ytri gerð hússins sem ekki teljast nýlunda nú en voru það þá, svo sem hvernig mótaförum er leyft að haldast sýnilegum í steypuveggjum utanverðum, hinir stóru óskiptu hverfigluggar og gluggaskipanin sjálf.

Reykjavíkurborg keypti húsið árið 1991 en Franzisca Gunnarsdóttir, sonardóttir skáldsins, var hvatamaður þess að það yrði gert að félagsaðstöðu rithöfunda. Sumarið 1997 var gengið frá samningi milli Reykjavíkurborgar og Rithöfundasambandsins um ótímabundin afnot sambandsins af húsinu við Dyngjuveg. Borgarstjórinn í Reykjavík Jón Gnarr afhenti Rithöfundasambandinu húsið til eignar á Menningarnótt 18. ágúst 2012. Í Gunnarhúsi eru húsgögn sem Franzisca Gunnarsdóttir afhenti sambandinu til varðveislu og myndir Gunnars Gunnarssonar yngri, úr Fjallkirkjunni og Sonnettusveignum, sem RSÍ voru færðar að gjöf við vígslu hússins.

Gunnar Gunnarsson (1889  - 1975)
Gunnar Gunnarsson

Gunnar Gunnarsson var fæddur 18. maí 1889 á Valþjófsstað í Fljótsdal. Hugur hans hneigðist snemma til ritstarfa. Átján ára gamall fór hann á lýðháskóla í Askov á Jótlandi. Í Danmörku varð hann fljótlega kunnur rithöfundur einkum fyrir skáldsögur sínar. Þegar fram í sótti voru verk hans þýdd á flestar höfuðtungur Evrópu.

Árið 1938 festi Gunnar kaup á jörðinni Skriðuklaustri í Fljótsdal og flutti árið eftir með fjölskyldu sína í nýtt og glæsilegt steinhús, sem hann hafði látið byggja á staðnum, og hóf umfangsmikinn búskap á jörðinni. Haustið 1948 fluttist fjölskyldan til Reykjavíkur og gaf ríkinu jörðina, þar er nú Gunnarsstofnum. Gunnar og eiginkona hans Franzisca létu byggja húsið við Dyngjuveg 8, og áttu þar heima til dauðadags. Gunnar lést 21. nóvember 1975 og Franzisca 22. október 1976.

Myndir af heimili Gunnars Gunnarssonar og Franziscu konu hans