Rithöfundasamband Íslands

The Writers' Union of Iceland


Vilborg Davíðsdóttir tekur við starfi Jónasar Hallgrímssonar í ritlist

Gudmundur Halfdanarson-Vilborg Davidsdottir-starf jonasar 2016Vilborg Davíðsdóttir rithöfundur mun gegna starfi Jónasar Hallgrímssonar í ritlist á yfirstandandi vormisseri og vinna með ritlistarnemum að ritun sögulegra skáldverka. Árið 2015 stofnaði Hugvísindasvið Háskóla Íslands til starfs sem kennt er við Jónas Hallgrímsson og er starfið ætlað rithöfundum sem taka að sér að vinna með nemum í ritlist eitt eða tvö misseri í senn. Fyrstur til að gegna starfinu var Sigurður Pálsson skáld. Á myndinni má sjá Vilborgu Davíðsdóttur og Guðmund Hálfdanarson, forseta Hugvísindasviðs Háskóla Íslands, undirrita samning um starf Jónasar Hallgrímssonar í ritlist.

 


Ályktun frá stjórn RSÍ!

Stjórn Rithöfundasambandsins ályktar:
Rithöfundasamband Íslands harmar að eina ferðina enn skuli veist að einni mikilvægustu menningarstofnun þjóðarinnar í tilefni af nýútkominni og umdeildri skýrslu um fjárhag hennar. Ár eftir ár höfum við nú fylgst með skipulegu niðurbroti á stofnun sem heldur utan um eitt af fjöreggjum þjóðarinnar í sögulegu og menningarlegu tilliti. Hvar væri íslensk ritlist, tónlist, myndlist, kvikmyndalist, leikilist í fjölmiðlum ef ekki væri fyrir RÚV? Ríkisútvarpið sinnir öllum þessum listgreinum, auk fjölmargra annarra samfélagslegra þátta sem enginn önnur stöð kemur nálægt. Það er því fyllsta ástæða, einmitt núna, þegar þrýstingurinn á íslenskar listir og tungu hefur aldrei verið meiri, að efla og styrkja Ríkisútvarpið. Það er menningarlegt torg allrar þjóðarinnar og það eina sem við eigum.


KÚBA, HVAÐ ERTU, KÚBA?

Opinn fundur með kúbanska rithöfundinum Orlando Luis Pardo Lez

Laugardaginn 10. október klukkan 14:00 býður PEN á Íslandi í samvinnu við Borgarbókasafnið í Grófinni til opins félagsfundar um stöðu málfrelsis og mannréttinda á Kúbu með kúbanska rithöfundinum Orlando Luis Pardo Lazo. Á fundinum mun hann fara yfir sögu mannréttindabrota á Kúbu undir stjórn kommúnistaflokksins ásamt því að lýsa ástandinu eins og það er í dag og segja frá ástæðum þess að honum varð ekki lengur vært í landinu.

Orlando Luis Pardo Lez er ljóðskáld, sagnahöfundur, ljósmyndari og samfélagsrýnir sem árið 2013 var neyddur í útlegð frá Kúbu vegna skrifa sinna en fyrir utan skáldskaparritun var hann ritstjóri sjálfstæðu stafrænu tímaritanna, Cacharro (s)The Revolution Evening Post, og Voces. Í dag er Orlando gestur Skjólborgar  Reykjavíkur sem er þáttakandi í ICORN alþjóðlegu neti borga sem veita ofsóttum rithöfundum skjól. Hann er vefstjóri vefsins Boring Home Utopics og heldur úti bloggsíðunni Lunes de post-Revolución.

PEN á Íslandi er samtök rithöfunda, ritstjóra og útgefenda sem standa vörð um tjáningarfrelsið heima og erlendis í samstarfi við alþjóðasamtökin PEN International.

Samkvæmt síðustu úttekt nefndar PEN International um málefni fangelsaðra rithöfunda, Writers in Prison Committee, situr fjöldi kúbanskra höfunda í fangelsi eða sætir stöðugum lögsóknum og líkamsárásum. Það er því dýrmætt að fá þá beinu innsýn inn í líf þeirra sem Orlando mun veita fundargestum í Grófarhúsi næsta laugardag klukkan 14:00. Fundarstjóri verður Sjón, forseti PEN á Íslandi.


Bókin í rafheimum – er ástæða til að óttast eða fagna?

Föstudaginn 2. október, á öðrum degi Lestrarhátíðar í Reykjavík, verður haldið opið málþing um mögulega framtíð bóka á íslensku í stafrænum heimi. Þingið er samstarfsverkefni Rithöfundasambands Íslands, Félags íslenskra bókaútgefenda, Hagþenkis, Landsbókasafns Íslands, Borgarbókasafns, Miðstöðvar íslenskra bókmennta og Reykjavíkur Bókmenntaborgar UNESCO.

Markmiðið er að skoða stöðuna á íslenskum bókamarkaði og velta vöngum yfir því sem framtíðin gæti borið í skauti sér.

Þingið verður haldið í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsog stendur frá kl. 13 – 17. Það er öllum opið og ekkert kostar inn.

DAGSKRÁ:

13.00
Halla Oddný Magnúsdóttir setur þingið og stýrir umræðum.

13.10
Gauti Kristmannsson, prófessor: Menningarpólitísk áhrif tæknibyltinga
Hér verður farið yfir hvernig tæknibyltingar breyta landslagi menningar og tungumáls og verður þetta fyrst og fremst skoðað út frá íslenskum sjónarhóli, en þó með samanburði við það sem er að gerast erlendis.

13.30
Egill Jóhannsson, formaður Félags íslenskra bókaútgefenda: Rafbókaútgáfa á Íslandi
Farið verður yfir þróun íslenskrar rafbókaútgáfu undanfarin ár og einnig innviðina og aðferðafræðina við útgáfu og sölu rafbóka. Egill mun einnig lýsa framtíðarsýn sinni á miðlun og sölu rafbóka á Íslandi á komandi misserum.

13.50
Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir, landsbókavörður: Rafbækur í Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni
Fjallað verður um stafræna endurgerð íslenskra bóka og hugmyndir um íslenska Bókahillu, móttöku íslenskra rafbóka í skylduskilum og aðgengi að þeim. Einnig um erlendar fræðibækur og handbækur sem safnið kaupir og eru ýmist aðgengilegar á háskólasvæðinu eða opnar öllum landsmönnum á hvar.is.

14.10 Kaffihlé

14.30
Kristín Helga Gunnarsdóttir, formaður Rithöfundasambands Íslands: Rithöfundur í rafheimum: Stjórnlaus lukka?
Vangaveltur um stöðu höfunda í rafrænu samfélagi og rafrænni útgáfu. Nær höfundur nú milliliðalausu sambandi við lesendur sína eða verða milliliðirnir mikilvægari en nokkru sinni? Verður höfundur útgefandi og rekur sitt eigið bókasafn?

15.00
Pálína Magnúsdóttir, borgarbókavörður (Guðríður Sigurbjörnsdóttir flytur): Rafbækur og almenningsbókasöfn
Bókasöfn og ekki síst almenningsbókasöfn eru afar mikilvægur hlekkur í þeirri keðju sem tryggir læsi og lesskilning í samfélaginu. Víða um heim hafa bókasöfn og útgefendur leitað leiða til að finna útlánaform sem hentar öllum aðilum. Til eru nokkrar leiðir sem hafa verið farnar. Þeim verður lýst í stuttu máli ásamt þeirri leið sem Borgarbókasafn ásamt Landskerfi bókasafna er að skoða núna til að geta boðið upp á rafbækur sem safnkost. Það er trú okkar á Borgarbókasafninu að það séu sameiginlegir hagsmunir bókasafna, höfunda og útgefanda að sátt náist um hvernig þessu er háttað.

15.20
Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir, bókmenntafræðingur: Á ráfi í rafbókarheimi: lesendur, lesskilningur og lestraránægja
Í erindinu veltir Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir fyrir sér rafbókum út frá sjónarhóli lesenda. Hún fjallar um lestrarskilning og lestraránægju, og veltir sérstaklega fyrir sér hvaða möguleika áframhaldandi tækniþróun veitir prentleturshömluðum og hvaða kröfur skulu gerðar um aðgengi að rafbókum.

15.40
Pallborðsumræður

17.00
Léttar veitingar


Gröndalshús

gröndalshusGröndalshús er komið á nýjan grunn í Grjótaþorpi. Hollvinir hússins fengu leiðsögn Hjörleifs Stefánssonar, arkítekts, um bygginguna nú fyrir helgi, en hópurinn hefur lagt til að húsið verði bókmennta- og fræðahús í eigu Reykjavíkurborgar. Í erindi hópsins til borgarinnar segir:

,,Þótt Reykjavík sé elsti sögustaður þjóðarinnar er sögulagið býsna þunnt þegar kemur að sjálfri höfuðborginni. Það er því sannkallaður hvalreki að fá Gröndalshús í Grjótaþorpið. Þetta fallega hús sem ber svo sterkt svipmót nítjándu aldar fyllist ósjálfrátt anda hennar fyrir tilstilli íbúans sem þar lifði og dó. Benedikt Gröndal (1826-1907) er glæsilegur fulltrúi nítjándu aldarinnar: ljóðskáld í fremstu röð, fornfræðingur, náttúrufræðingur, fagurfræðingur, myndlistarmaður – í einu orði fjölfræðingur eins og 19. öldin átti besta. Og síðast en ekki síst var hann Reykvíkingur af lífi og sál sem lét bæjarmál mjög til sín taka, höfundur greina og greinaflokka um lífið í Reykjavík og allt sem betur mátti fara.

Benedikt Gröndal var mikill áhrifavaldur í stílþróun Þórbergs Þórðarsonar og Halldórs Laxness og hefur gengið í endurnýjun lífdaga í nýlegum skáldverkum á  borð við Sæmd Guðmundar Andra og Öræfi Ófeigs Sigurðssonar, að ógleymdum splunkunýjum hljómdiski trúbadúrsins Teits Magnússonar þar sem hann á vinsælasta textann. Þá njóta náttúrufræðirit Benedikts mikillar hylli. Íslenskir fuglar eru gott dæmi þar um.

Með Gröndalshúsi á forræði borgarinnar eru allar líkur á að ævintýrið nái nýjum hæðum.
Bókmenntaborgir UNESCO státa af athvarfi fyrir skáld og fræðimenn, líkt og fjölmargar aðrar borgir heims. Víða á landsbyggðinni hafa menn lagt metnað í lista- og fræðimannasetur. Þannig hafa íslenskir og erlendir lista- og fræðimenn lykil að samfélaginu og yfirvöld fá rekstrargrunn.“


Starf kennt við Jónas Hallgrímsson

SigurdurPalssonRit­höf­und­ur­inn og þýðand­inn Sig­urður Páls­son verður fyrst­ur til að gegna starfi við hug­vís­inda­svið Há­skóla Íslands sem kennt er við Jón­as Hall­gríms­son, eitt ást­sæl­asta ljóðskáld Íslend­inga. Starfið er ætlað rit­höf­und­um til að vinna með rit­list­ar­nem­um í eitt eða tvö miss­eri í senn. Til­gang­ur­inn með stöðunni er að heiðra minn­ingu Jónas­ar Hall­gríms­son­ar og að efla rit­list­ar­nám við Há­skóla Íslands.