Rithöfundasamband Íslands

The Writers' Union of Iceland


Höfundakvöld í Gunnarshúsi – Margrét Lóa Jónsdóttir, Gunnhildur Þórðardóttir, Fríða Ísberg og Eydís Blöndal

Slide1

Höfundarnir Margrét Lóa Jónsdóttir, Gunnhildur Þórðardóttir, Fríða Ísberg og Eydís Blöndal munu halda ljóðakvöld í Gunnarshúsi næstkomandi þriðjudag 12. desember kl. 20 undir yfirskriftinni Fljóðaljóð. Allar hafa þær nýlega gefið út ljóðabækur; Margrét með Biðröðina framundan, Gunnhildur með Götuljóð, Fríða með Slitförina og Eydís með bókina Án tillits. Kynnir verður Kári Tulinius en hann er einn af stofnendum Meðgönguljóða og gaf út nýlega skáldsöguna Móðurhugur.

Þær munu leiða saman raddir sínar og bjóða upp á fróðlega og skemmtilega kvöldstund með tilfinningaþrungnum ljóðaupplestri og tilheyrandi spjalli. Boðið verður upp á kaffi og konfekt. Allir velkomnir. Gunnarshús er að Dyngjuvegi 8 í Reykjavík.


Höfundakvöld – Silja Aðalsteinsdóttir og Sveinn Einarsson

Slide1

Samfélagið á 20. öld, allt frá viðskiptalífi til menningarmála, verður undir á spennandi höfundakvöldi í Gunnarshúsi mánudaginn 11. desember kl. 20. Bókmenntaspekúlantinn og útvarpsmaðurinn Jórunn Sigurðardóttir fær til sín Svein Einarsson og Silju Aðalsteinsdóttur og ræðir við þau um minningabækur sem þau sendu frá sér í haust. Í bók Sveins, Mitt litla leiksvið, fer Sveinn yfir glæstan feril og segir sögur af sér og samferðafólki sínu en bók Silju, Allt kann sá er bíða kann, segir frá lífshlaupi dagblaðamógúlsins Sveins R. Eyjólfssonar, viðskiptum og baráttu við afskiptasama stjórnmálamenn. Bækurnar segja að mestu frá sama tímanum en koma að málunum á ólíka vegu svo búist er við fjörlegum umræðum. Áhugafólk um íslenskt samfélag á seinni hluta 20. aldar ætti ekki láta sig vanta.


Höfundakvöld í Gunnarshúsi – Þýðingarmikið kvöld

þýðingakvöld

Fimmtudagskvöldið 7. desember kl. 20.00 er blásið til þýðingakvölds í Gunnarshúsi.
Þar verður lesið úr eftirtöldum bókum:
PNÍN eftir Vladimar Nabokov og HNOTSKURN eftir Ian McEwan (þýð. Árni Óskarsson), ORLANDÓ (þýð. Soffía Auður Birgisdóttir),
SMÁSÖGUR HEIMSINS (ritstj. Kristín Guðrún Jónsdóttir, margir þýðendur),
VELKOMINN TIL AMERÍKU eftir Lindu Boström Knausgård og
ALLT SEM ÉG EKKI MAN eftir Jonas Hassen (þýð. Þórdís Gísladóttir).

Boðið verður upp á kaffi og konfekt og bækur á tilboðsverði.

ALLIR VELKOMNIR Í GUNNARSHÚS!


JólaGestir* Ragga og Dassa 2017

raggi og dassi

Einstök kvöldstund þar sem skemmtikraftarnir Dagur Hjartarson og Ragnar Helgi Ólafsson axla ábyrgð á bókum sínum, Heilaskurðaðgerðinni og Handbók um minni og gleymsku.

Bækurnar verða til sölu.

Hverju seldu eintaki fylgir bolli af prestakaffi.

Félagarnir munu líka líta um öxl og fara yfir farsælan feril, segja skemmtisögur úr bransanum sem margar hverjar hafa ekki heyrst áður.

Leynigestur: Helgi Hjartarson.

Staðsetning: Gunnarshús

Tími: Þriðjudagur, 5. desember 2017, kl. 20:00.

Aðgangseyrir: Enginn.

Ekki missa af þessari einstöku kvöldstund.

Athugið! Síðast komu fleiri en vildu.


Höfundakvöld í Gunnarshúsi – Max Frisch/Jón Bjarni Atlason og Robert Walser/Níels Rúnar Gíslason

Slide1Fimmmtudagskvöldið 30. nóvember kl. 20 verður boðið upp á kynningu á tveimur glænýjum þýðingum fagurbókmennta. Þýðendurnir Jón Bjarni Atlason og Níels Rúnar Gíslason lesa úr þýðingum sínum á skáldsögum eftir svissnesku höfundana Max Frisch og Robert Walser. Ritstjórar þeirra, Ástráður Eysteinsson, prófessor, og Hjálmar Sveinsson, borgarfulltrúi, verða einnig með þeim í spjalli um bækurnar og höfundana, en Jórunn Sigurðardóttir, dagskrárgerðarkona á RÚV stýrir umræðum.

Fyrri skáldsaga sem um ræðir er Loftslag eftir Max Frisch, eitt af hans mikilvægustu verkum og merkilegt að mörgu leyti fyrir frumlega og nýstárlega uppsetningu og auk þess má finna í henna athyglisverða lýsingu á náttúru Íslands eins og hún kom skáldinu fyrir augu þegar það ferðaðist hér um árið 1977.

Síðari skáldsagan á dagskrá er margfræg bók eftir Robert Walser, Jakob von Gunten, en hún kom út snemma á tuttugustu öld og hefur öðlast endunýjun lífdaga á síðustu áratugum, enda er um að ræða einhverja sérstökustu sögu sem skrifuð var á síðustu öld, bók sem höfundar eins og Franz Kafka héldu mikið upp á.

Boðið verður upp á léttar veitingar og stendur dagskráin til kl. 22. Húsið opnar kl. 20.


Höfundakvöld í Gunnarshúsi – Borgþór Kjærnested og Þorgrímur Gestsson

 

Slide1

Miðvikudaginn 22. nóvember munu Borgþór Kjærnested og Þorgrímur Gestsson ræða nýjar bækur sína í Gunnarshúsi.

Borgþór Kjærnested sendir nú frá sér Milli steins og sleggju – saga Finnlands og Þorgrímur Gestsson sendir frá sér bókina Færeyjar út úr þokunni.

Íslendingar hafa löngum dáðst að herfengi og þrautseigju Finna við að verja frelsi sitt og sjálfstæði frammi fyrir ofurefli. Samt hefur okkur hingað til skort aðgengilegar heimildir um þá örlagaríku sögu á íslensku. Bók Borgþórs Kjærnested, Milli steins og sleggju – saga Finnlands, bætir því úr brýnni þörf. Í þeim skilningi er þetta brautryðjandaverk. „Það er síst ofmælt að saga Finna sé örlagarík. Frásögn Borgþórs af tvísýnni sjálfstæðisbaráttu finnsku þjóðarinnar á árum fyrri heimsstyrjaldar og ógæfu borgarastríðsins í kjölfarið, er lærdómsrík. Vetrarstríðið – þegar Finnar stóðu einir í heiminum frammi fyrir ofurefli Rauða hersins – og unnu varnarsigur – eina þjóðin í Evrópu, fyrir utan Breta, sem tókst að hrinda innrás kommúnista og nasista af höndum sér og varðveita sjálfstæði sitt. Þetta segir meira en mörg orð um skapstyrk og æðruleysi finnsku þjóðarinnar þegar á reyndi á ögurstund.“ Segir í bókarkynningu.

 Færeyjar út úr þokunni er þriðja bók Þorgríms Gestssonar um ferðir hans um slóðir fornsagna. Ferð um fornar sögur, sem kom út 2003, fjallar um ferð um slóðir Heimskringlu í Noregi, Í kjölfar jarla og konunga, sem kom út 2014, fjallar um ferðir hans um slóðir Orkneyingasögu í Orkneyjum og á Hjaltlandi.  Í nýjustu bókinni fer Þorgrímur um söguslóðir í Færeyjum, með Færeyingasögu í farteskinu, en sökum skyldleika Færeyinga og Íslendinga og þess hve stutt er á milli þessara eyja lætur hann ekki nægja að ferðast um fornsöguna heldur lagði í ferðalag um sögu Noregs og Norðurlanda frá þeim tíma þegar Færeyingasögu lýkur. Í síðasta hluta bókarinnar fer hann um menningar- og stjórnmálasögu Færeyja og léttir ekki ferðinni fyrr en í samtíma okkar, nánar tiltekið haustið 2015, þegar hann sigldi síðast með Norrænu frá Tórshavn, áleiðis til Seyðisfjarðar. Þorgrímur Gestsson var blaðamaður og fréttamaður með stuttum hléum frá árinu 1968 til 1995 en hefur frá þeim tíma stundað ritstörf á eigin vegum.

Miðvikudagur 22. nóv. kl. 20 í Gunnarshúsi, Dyngjuvegi 8


Höfundakvöld í Gunnarshúsi – Ármann Jakobsson og Oddný Eir Ævarsdóttir

mynd

Fimmtudaginn 16. nóvember munu Oddný Eir Ævarsdóttir og Ármann Jakobsson ræða nýjar bækur sínar í Gunnarshúsi.

Ármann Jakobsson sendir nú frá sér skáldsöguna Brotamynd.
Oddný Eir Ævarsdóttir sendir frá sér skáldsöguna Undirferli.

Lára Magnúsardóttir stjórnar umræðum og spyr höfundana spjörum úr. En þau Ármann og Oddný munu einnig lesa upp úr bókum sínum og ræða við Láru og gesti um bókmenntir, lífið og listina.

Fimmtudagur 16. nóv. kl. 20 í Gunnarshúsi, Dyngjuvegi 8, 104 Reykjavík.

Aðgangur er öllum opinn og ókeypis. Í boði eru hóflegar veitingar og óhóflegar bókmenntasamræður.