Rithöfundasamband Íslands

The Writers' Union of Iceland


Höfundakvöld – Hallveig Thorlacius

Hallveig Thorlacius les upp úr nýútkomnum bókum í Gunnarshúsi, Dyngjuvegi 8, þriðjudaginn 13. desember kl. 17.

Bækurnar MARTRÖÐ, svo AUGAÐ og nú SVARTA PADDAN eru hörkuspennandi bækur fyrir aldurshópinn 9 til 109 ára og notalegt í skammdeginu að skríða með þær undir sæng.

Bækurnar verða til sölu með áritun höfundar.

Upplestur, veitingar, samvera og rúsínan sem leynist í pylsuendanum: Sigríður Thorlacius ætlar að syngja fyrir frænku sína og gesti. Allir velkomnir.

martrod-augad-svarta-paddan


Sæmundargleði í Gunnarshúsi

allar_kapurcover3_adalst_svFöstudaginn 9. desember koma forleggjarar Sæmundar til Reykjavíkur og efna til lítillar bókamessu í Gunnarshúsi við Dyngjuveg 8. Húsið opnar klukkan 18 en áætluð samkomuslit eru um 21.

Höfundar segja frá bókum sínum í spjalli við gesti og bækur verða seldar á kjarapöllum. Þá stígur sönghópur Listaháskóla Íslands á stokk og í boði verða léttar veitingar, fastar og fljótandi.

Bókaforlagið Sæmundur á Selfossi hefur fært verulega út kvíarnar á síðustu árum og gaf út 20 titla á þessu ári en frá því félagið hóf útgáfu 2001 hafa komið út liðlega 70 titlar.

Sæmundur fagnar þessum umsvifum í húsi Gunnars Gunnarssonar skálds og býður öllum velunnurum og bókavinum að gleðjast og njóta meðan húsrúm leyfir.


Aðventa lesin í Gunnarshúsi á sunnudag

Aðventa lesin  víða um land þann 11. desember

Síðastliðin áratug hefur Gunnarsstofnun í samvinnu við aðra staðið fyrir upplestrdownloadi á Aðventu í desember, bæði hérlendis og erlendis. Aðventa verður að þessu sinni lesin á þremur stöðum sunnudaginn 11. des. Í Reykjavík les Gunnar Helgason rithöfundur söguna í Gunnarshúsi á Dyngjuvegi 8 hjá Rithöfundasambandinu. Á Akureyri les Pétur Halldórsson fyrrum útvarpsmaður í setustofu Icelandair Hótel Akureyri og á Skriðuklaustri hljómar önnur góðkunnug útvarpsrödd en þar les Gunnar Stefánsson söguna.

Upplesturinn hefst á öllum stöðunum kl. 14.


Höfundakvöld Sögufélags í Gunnarshúsi 8. desember

Fimmtudagskvöldið 8. desember kl. 20:00 stendur Sögufélag fyrir höfundakvöldi í Gunnarshúsi, Dyngjuvegi 8. Þar munu höfundar og ritstjórar bókanna sem félagið gefur út í haust kynna verk sín og spjalla um þau við fjóra sagnfræðinga, þau Erlu Huldu Halldórsdóttur, Ragnhildi Hólmgeirsdóttur, Guðmund Jónsson og Ragnheiði Kristjánsdóttur.

Dagskráin verður sem hér segir:

Már Jónsson ræðir bókina Bréf Jóns Thoroddsens, sem hann ritstýrði

Sverrir Jakobsson ræðir bók sína Auðnaróðal. Baráttan um Ísland 1096-1281

Hlé

Hrefna Róbertsdóttir og Jóhanna Þ. Guðmundsdóttir ræða útgáfu skjala Landsnefndarinnar fyrri 1770-1771, sem þær ritstýra, en fyrstu tvö bindin af sex komu út í ár

Guðni Th. Jóhannesson ræðir bók sína Fyrstu forsetarnir. Embætti þjóðhöfðingja Íslands á 20. öld

Bækurnar verða til sölu á staðnum og boðið verður upp á kaffi og te, mandarínur og piparkökur. Húsið opnar kl. 19:30, aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.


Höfundakvöld í Gunnarshúsi – Kristrún Guðmundsdóttir

passamynd

Kristrún Guðmundsdóttir

Kristrún Guðmundsdóttir ljóðskáld veltir fyrir sér í flæðiskenndu samtali ljóðs, radda og hljóma, tilurð nýrrar ljóðabókar í tengslum við sköpunarferlið.  Áheyrendur fá innsýn í vinnubrögð Kristrúnar og hugmyndir hennar um ferli sköpunar sem hún álítur vera sjálft málið. Ljóðabók Kristrúnar Eldmóður- neðanmálsgreinar við óskrifuð ljóð lítur dagsins ljós þessa dagana. Eldmóður … er í raun ekkert annað en neðanmálsgreinar að verki sem enn hefur ekki verið skrifað og snýr þannig veru sinni á hvolf og öllu því sem í vændum er.  Anna Dóra Antonsdóttir rithöfundur mun þræða ferlið saman af festu og loks les Kristrún upp við undirleik hljóðfæraleikaranna Ólafs B. Sigurðssonar og Sigurðar B. Ólafssonar og flæðiljóðhljómur mun að öllum líkindum streyma fram.

Eldmóður – neðanmálsgreinar við óskrifuð ljóð er 6. ljóðabók Kristrúnar en auk þess hefur hún sent frá sér tvær skáldsögur. Árið 2012 tók hún þátt í höfundasmiðju Þjóðleikhúss og félags íslenskra leikskálda þar sem  Kristrún vann að verki sínu Englatrompeti . Norski rithöfundurinn og leikskáldið Torunn Ystaas hefur sýnt því verki áhuga með þýðingu í huga.

Dagskráin hefst klukkan 20:00 þann 1. desember í Gunnarshúsi við Dyngjuveg 8.

Léttar veitingar verða í boði og bókin sjálf á tilboðsverði.


Höfundar í Gunnarshúsi – Auður Ava Ólafsdóttir ,Kristín Ómarsdóttir, Sigurbjörg Þrastardóttir

3skaldkonur

Kristín Ómarsdóttir rithöfundur tekur á móti tveimur taugatrekktum höfundum jólabókaflóðsins, Auði Övu Ólafsdóttur og Sigurbjörgu Þrastardóttur, og segir þeim að þetta verði allt í lagi. Auður og Sigurbjörg lesa úr bókunum Ör og Óttaslegni trompetleikarinn og aðrar sögur. Þess á milli mun Kristín spyrja þær spurninga sem einungis dýralæknar kunna rétt svör við. Sjálf mun Kristín lesa brot úr bókmenntum framtíðarinnar.
Þungar veitingar verða á boðstólnum en kona í Drápshlíð hefur boðist til að baka stríðstertu.

Veislan fer fram fimmtudaginn 24. nóvember í Gunnarshúsi við Dyngjuveg, húsi Rithöfundasambands Íslands. Frítt inn. Húsið opnar klukkan 17. Dagskrá hefst kl. 17.30 og varir í klukkustund.

„Bestu stundirnar í lífi mínu eru þegar ég ligg einn uppi á heiði, ofan
í svefnpoka, með byssuna eldsnemma morguns, og bíð eftir að fuglarnir vakni. Maður þegir og horfir á hjarnið. Það er eins og að vera innan í kvenmannslegi. Maður er öruggur. Maður þarf ekki að fæðast. Maður þarf ekki að koma út.“
–úr Ör eftir Auði Övu Ólafsdóttur

Auður Ava Ólafsdóttir skrifar skáldsögur, leikrit og ljóð. Hún er líka textahöfundur popphljómsveitarinnar Milkywhale.

Kristín Ómarsdóttir skrifar skáldsögur, ljóð og leikrit. Hún ritar ennfremur höfundaviðtöl í Tímarit Máls og menningar.

Sigurbjörg Þrastardóttir skrifar ljóð, leikrit og skáldsögur. Hún flytur einnig fasta pistla í útvarpsþættinum Víðsjá.


Höfundakvöld í Gunnarshúsi – Guðrún Guðlaugsdóttir, Páll Kristinn Pálsson og Sigurjón Magnússon.

gudrun_auglysing_dios_mynddsc02848-1img_9976

Guðrún Guðlaugsdóttir, Páll Kristinn Pálsson og Sigurjón Magnússon lesa upp og spjalla um nýútkomnar skáldsögur sínar í Gunnarshúsi að Dyngjuvegi 8 í Reykjavík fimmtudagskvöldið 17. nóvember nk. kl. 20.00.

Dauðinn í opna salnum er þriðja bókin í sakamálabálki Guðrúnar Guðlaugsdóttur um blaðamanninn Ölmu Jónsdóttur, þroskaðrar konu á tímamótum í lífi sínu. Áður hafa komið út Beinahúsið (2014) og Blaðamaður deyr (2015). „Á Ólympíumóti í bridge á Rhodos verður skyndilega niðamyrkur í opnum spilasal þar sem Alma Jónsdóttir blaðamaður horfir á viðureign Ítala og Íslendinga. Í myrkum salnum gerast óhugnanlegir atburðir. Leikurinn berst heim til Íslands og fyrr en varir er Alma farin að rannsaka dauðsföll sem tengjast bridgeheiminum.“

Ósk er ellefta bók Páls Kristins Pálssonar. Þetta er þroskasaga sem gerist á síðari hluta síðustu aldar. „Óskar Pétursson greinist á miðjum fertugsaldri með alvarlegan sjúkdóm. Frá barnæsku hefur hann búið yfir djúpstæðu leyndarmáli og við að horfast í augu við dauðann fyllist hann knýjandi þörf fyrir að sannleikurinn komi fram í dagsljósið. Hann hefst því handa við að skrifa sín eigin eftirmæli.“

Sonnettan er áttunda skáldsaga Sigurjóns Magnússonar, sem vakti strax mikla athygli með fyrstu sögu sinni Góða nótt, Silja árið 1997. „Er alþekkt sonnetta Snorra Hjartarsonar – Land, þjóð og tunga – andstæð fjölmenningu á Íslandi? Um það er deilt innan menntaskólans þar sem Tómas kennir. Deilurnar leiða til þess að hann hrekst úr starfi. Sumarið eftir fer hann ásamt eiginkonu sinni Selmu í frí til Spánar. Þau hafa fjarlægst hvort annað, en Tómas vonar að fríið geti snúið þeirri þróun við. Á Spáni kynnast þau fólki af ýmsu þjóðerni. Þar eru líka nokkrir Íslendingar – og Tómasi verður fljótlega ljóst að skuggi sonnettu-deilunnar er lengri en hann óraði fyrir.“

Dagskráin hefst kl. 20.00. Boðið upp á léttar veitingar. Allir velkomnir.