Rithöfundasamband Íslands

The Writers' Union of Iceland


Framtíð bókmennta og íslenskrar tungu – opinn fundur með frambjóðendum allra flokka

Félag íslenskra bókaútgefenda og Rithöfundasamband Íslands bjóða frambjóðendum allra flokka til fundar og pallborðsumræðna um stöðu íslenskra bókmennta og tungumáls. Stjórnandi er Sigmundur Ernir Rúnarsson.

Fundurinn verður haldinn miðvikudaginn 18. október næstkomandi í Þjóðmenningarhúsinu kl. 10:00, árdegis.

Blikur eru á lofti í bókaútgáfu, örtungan er í útrýmingarhættu og skóla- og héraðsbókasöfn eru svelt af nýjum bókakosti um leið og útlánum fer fækkandi. Barnabókaútgáfan stendur í járnum og útgáfa námsgagna fyrir framhaldsskóla er langt undir þolmörkum. Rætt verður um virðisaukaskatt á bækur, aðgerðir til bjargar íslenskri tungu og bókmenntum og aðgengi að nýjum íslenskum bókum – svo fátt eitt sé nefnt sem brennur á þessari grunngrein menningar og menntunar.

Unnendur íslenskrar tungu og bókmennta fjölmennið!


Slide1.JPG


Fundur um málefni Hljóðbókasafns

Það var góð mæting á hádegisfund um málefni Hljóðbókasafns í Gunnarshúsi í dag. Sigríður Rut Júlíusdóttir, lögmaður RSÍ, skýrði frá lagaumhverfi safnsins og þeim lagabreytingum sem í vændum eru. Þóra Sigríður Ingólfsdóttir, forstöðumaður, og Einar Hrafnsson voru gestir okkar frá Hljóðbókasafni. Þau gerðu grein fyrir starfssemi safnsins og því breytta tækniumhverfi sem safnið er að taka í gagnið í ár, en það mun takamarka mjög möguleika á misnotkun. Félagsmenn lögðu fram spurningar og viðruðu áhyggjur sínar af efnisnotkun Hljóðbókasafnsins. Þetta var upplýsandi fundur og gott veganesti fyrir forystu RSÍ í viðræðum sem framundan eru við Menntamálaráðuneyti um samning vegna Hljóðbókasafnsins.


HÁDEGISFUNDUR Í GUNNARSHÚSI 11.MAÍ

Opinn kynningarfundur fyrir félagsmenn RSÍ um Hljóðbókasafn

Kæru félagar, við boðum til hádegisfundar í Gunnarshúsi, fimmtudaginn 11. maí næstkomandi, um réttindi höfunda vegna framleiðslu og útlána Hljóðbókasafns.

Fundurinn hefst kl. 12:00 og lýkur 13:00. Sigríður Rut Júlíusdóttir, lögmaður RSÍ, gerir stuttlega grein fyrir lagaumhverfinu og Þóra Sigríður Ingólfsdóttir, forstöðumaður Hljóðbókasafns Íslands, skýrir frá starfssemi safnsins. Vonandi koma sem flestir sem láta sig málið varða.

Bestu kveðjur,

Kristín Helga,

formaður  RSÍ


Ársskýrsla formanns á aðalfundi 27. apríl.

Kæru félagar,

Það er skarð fyrir skildi, því átta félagsmenn létust á liðnu starfsári. Það voru þau: Sigríður Eyþórsdóttir, Ólöf Eldjárn, Ingibjörg Haraldsdóttir, Stefán Sigurkarlsson, Vigfús Geirdal, Þorvarður Helgason, Þórhallur Þórhallsson og Sigurður A. Magnússon

Við minnumst þessa góða fólks með þögn.

Í þessum hópi eru tveir fyrrum formenn og heiðursfélagar, þau Sigurður og Ingibjörg, sem lögðu línur og komu að mótun þess kjaraumhverfis sem við upplifum í dag. Réttindabarátta ritlistamanna er ýmist varnar- eða sóknarbarátta. Það er svo okkar, sem stöndum í brúnni hverju sinni, að meta hvenær skal sækja og hvenær skal verjast – allt eftir því við hverja á að etja og hvers eðlis hagsmunir eru. Sjaldan er það því miður þannig að allir geri sér grein fyrir gildi og vægi ritverka í siðmenningunni og í raun þykir mér alltaf jafn merkilegt að það þurfi að heyja baráttu fyrir sterkri umgjörð um ritlistina, berjast fyrir þessum grunntóni mannlegrar tilvistar. Svo einkennilegt að samfélagar okkar geri sér ekki alltaf og allir grein fyrir mennskunni og félagslæsinu sem felst í ritverkunum.

Á liðnu ári héldum við aðalfund að vori og svo framhaldsaðalfund í haust þar sem ljúka þurfti stjórnarkjöri frá vorfundi. Starfssemi RSÍ er nokkuð umfangsmikil og í mörg horn að líta. Ragnheiður er hér framkvæmdastjóri í fullu starfi, yfir og allt um kring,  og Tinna kom til liðs við okkur í fyrra sem verkefnisstjóri í hálfu starfi. Nýverið staðfesti stjórn fastráðningu hennar, enda er hún mikill happafengur.  Sjálf er ég oftast á þeytingi og dagarnir stundum langir, en sjaldnast leiðinlegir. Hér er atast í mörgu og má skipta starfsseminni í samninga, sjóðamál, samstarf við stjórnvöld og stofnanir, erlent samstarf og fræðslu-  og félagsstörf, svo sem rekstur orlofshúsa og skáldaskjóla.

Lesa meira


Ályktun aðalfundar RSÍ

Aðalfundur RSÍ 27. apríl 2017 lýsir áhyggjum af þeirri misnotkun sem vísbendingar eru um að sé á útlánum hljóðbóka hjá Hljóðbókasafni – áður Blindrabókasafni. Hljóðbókasafnið á einungis að þjóna þeim sem eru prentleturshamlaðir, ekki öðrum.

Tillaga frá Eyrúnu Ingadóttur og Einari Kárasyni að ályktun frá RSÍ.

Ályktun samþykkt á aðalfundi 27. apríl 2017.


Kosningar til stjórnar RSÍ 2017

Aðalfundur Rithöfundasambands Íslands verður haldinn í Gunnarshúsi, Dyngjuvegi 8, fimmtudaginn 27. apríl n.k. kl. 19.30.

Framboðsfrestur til stjórnar rann út 23. mars s.l.

Kosnir verða tveir meðstjórnendur og einn varamaður. Kosningarnar munu nú í fyrsta sinn fara fram rafrænt. Kjörfundur hefst 12. apríl og lýkur á miðnætti 26. apríl. Allir skuldlausir félagsmenn (einnig heiðursfélagar og gjaldfrjálsir félagsmenn) munu fá sendan hlekk á kjörseðil áður en kjörfundur hefst.

Í framboði til meðstjórnenda eru: Margrét Tryggvadóttir, Óskar Magnússon og Vilhelm Anton Jónsson.

Til varamanns: Halla Gunnarsdóttir og Sigurlín Bjarney Gísladóttir.

Meðfylgjandi kynningar hafa borist frá frambjóðendum.

Til meðstjórnanda:

MVT

Ég heiti Margrét Tryggvadóttir og býð mig fram til starfa í stjórn Rithöfundasambandsins. Nýlega voru SÍUNG – Samtök íslenskra barna- og unglingabókahöfunda endurvakin og þar sit ég í stjórn. Okkur hefur verið bent á að æskilegt sé að fulltrúi frá SÍUNG sitji í stjórn RSÍ og sá háttur var á áður.

Ég hef skrifað nokkrar bækur, flestar fyrir börn en þýtt eða ritstýrt enn fleiri verkum. Það veganesti sem ég vil taka með mér er þó ekki síður meistararitgerð sem ég vann á síðasta ári um opinbera stefnumótun og stuðning (eða stuðningsleysi) við barnabækur á Íslandi í samanburði við Noreg, Svíþjóð og Danmörku (sjá nánar http://skemman.is/handle/1946/26777 ).

Blómlegri barnabókaútgáfa er ekki bara hagsmunamál barnabókahöfunda eða ungra lesenda heldur okkar allra. Þeir sem ekki lesa sér til yndis og ánægju sem börn munu vart taka upp á því síðar á lífsleiðinni. Áfram barnabækur!

Til meðstjórnanda:

VAJ

Vilhelm Anton Jónsson hefur sent frá sér sex bækur. Hann hefur verið virkur í menningar- og listalífi landsins undanfarin ár. Hann er forsprakki hljómsveitarinnar 200.000 naglbítar, hefur leikið í fjölda sjónvarpsþátta og fjórum kvikmyndum. Hann hefur samið eða verið tónlistarstjóri í fjórum leiksýningun, m.a. samdi hann tónlist fyrir leikritið Horn á Höfði sem vann Grímuverðlaun sem besta barnaleikritið. Vilhelm hefur auk þess unnið sem dagskrárgerðarmaður í mörg ár og komið að skipulagningu stórra viðburða ýmisskonar. Vilhelm var tilnefndur til íslensku bókmenntaverðlaunana fyrir Vísindabók Villa sem var fyrsta bókin í þeirri ritröð sem hefur hlotið frábærar viðtökur.

„Ég held að reynsla mín og áhugi á starfi listamanna muni nýtast mér afar vel sem stjórnarmaður í Rithöfundasambandinu, eins þau tengsl við fólk í ólíkum geirum sem snerta starf og hag rithöfunda á einn eða annan hátt.“

Til varamanns:

HallaÉg heiti Halla Gunnarsdóttir og hef verið félagi í Rithöfundasambandinu frá árinu 2008. Eftir mig liggja fjórar útgefnar bækur, tvær ljóðabækur, fræðibók og ævisaga.

Ég er menntuð sem kennari og með meistarapróf í alþjóðastjórnmálum. Ég starfaði sem blaðamaður á Morgunblaðinu frá 2003–2008 og síðan sem aðstoðarmaður ráðherra fram til ársins 2013 þegar ég fluttist til Bandaríkjanna. Ég er nú búsett í Bretlandi þar sem ég starfa fyrir þverpólitískan stjórnmálaflokk, Women’s Equality Party, en stefni að heimflutningi á næstunni. Ég tel að reynsla mín úr fjölmiðlum og þekking á íslenskri stjórnsýslu og stjórnmálum geti komið að góðu gagni í þeim baráttumálum sem framundan eru hjá Rithöfundasambandinu. Ég myndi leggja mig alla fram í hagsmunabaráttunni, sem að mínu mati snýst ekki einvörðungu um rithöfunda heldur líka um listir og menningarlíf í víðu samhengi.

Til varamanns:

bjarneyÉg heiti Sigurlín Bjarney Gísladóttir. Ég hef gefið út fjórar ljóðabækur, eina nóvellu og eitt smásagnasafn. Fyrsta bókin, Fjallvegir í Reykjavík, kom út fyrir tíu árum.

Ég hef fengist við ýmislegt eins og kennslu, leiðsögustörf, aðstoð á Bókmenntahátíð í Reykjavík o.fl. Ég hef meðal annars numið ritlist og íslenskar bókmenntir í Háskóla Íslands en þessa dagana fæst ég við lestur og skrif um hugmyndaheim sautjándu aldar.

Í mörg ár starfaði ég á Einkaleyfastofunni og síðan hjá STEFi (Sambandi tónskálda og eigenda flutningsréttar) og hef því þekkingu á höfundarétti. Ég hef setið sem varamaður í stjórn RSÍ frá 2015 og hef ásamt Kristínu Ómarsdóttir séð um að birta bréfaskrif höfunda/listamanna á höfundavef sambandsins.