Rithöfundasamband Íslands

The Writers' Union of Iceland


Kosningar til stjórnar RSÍ 2017

Aðalfundur Rithöfundasambands Íslands verður haldinn í Gunnarshúsi, Dyngjuvegi 8, fimmtudaginn 27. apríl n.k. kl. 19.30.

Framboðsfrestur til stjórnar rann út 23. mars s.l.

Kosnir verða tveir meðstjórnendur og einn varamaður. Kosningarnar munu nú í fyrsta sinn fara fram rafrænt. Kjörfundur hefst 12. apríl og lýkur á miðnætti 26. apríl. Allir skuldlausir félagsmenn (einnig heiðursfélagar og gjaldfrjálsir félagsmenn) munu fá sendan hlekk á kjörseðil áður en kjörfundur hefst.

Í framboði til meðstjórnenda eru: Margrét Tryggvadóttir, Óskar Magnússon og Vilhelm Anton Jónsson.

Til varamanns: Halla Gunnarsdóttir og Sigurlín Bjarney Gísladóttir.

Meðfylgjandi kynningar hafa borist frá frambjóðendum.

Til meðstjórnanda:

MVT

Ég heiti Margrét Tryggvadóttir og býð mig fram til starfa í stjórn Rithöfundasambandsins. Nýlega voru SÍUNG – Samtök íslenskra barna- og unglingabókahöfunda endurvakin og þar sit ég í stjórn. Okkur hefur verið bent á að æskilegt sé að fulltrúi frá SÍUNG sitji í stjórn RSÍ og sá háttur var á áður.

Ég hef skrifað nokkrar bækur, flestar fyrir börn en þýtt eða ritstýrt enn fleiri verkum. Það veganesti sem ég vil taka með mér er þó ekki síður meistararitgerð sem ég vann á síðasta ári um opinbera stefnumótun og stuðning (eða stuðningsleysi) við barnabækur á Íslandi í samanburði við Noreg, Svíþjóð og Danmörku (sjá nánar http://skemman.is/handle/1946/26777 ).

Blómlegri barnabókaútgáfa er ekki bara hagsmunamál barnabókahöfunda eða ungra lesenda heldur okkar allra. Þeir sem ekki lesa sér til yndis og ánægju sem börn munu vart taka upp á því síðar á lífsleiðinni. Áfram barnabækur!

Til meðstjórnanda:

VAJ

Vilhelm Anton Jónsson hefur sent frá sér sex bækur. Hann hefur verið virkur í menningar- og listalífi landsins undanfarin ár. Hann er forsprakki hljómsveitarinnar 200.000 naglbítar, hefur leikið í fjölda sjónvarpsþátta og fjórum kvikmyndum. Hann hefur samið eða verið tónlistarstjóri í fjórum leiksýningun, m.a. samdi hann tónlist fyrir leikritið Horn á Höfði sem vann Grímuverðlaun sem besta barnaleikritið. Vilhelm hefur auk þess unnið sem dagskrárgerðarmaður í mörg ár og komið að skipulagningu stórra viðburða ýmisskonar. Vilhelm var tilnefndur til íslensku bókmenntaverðlaunana fyrir Vísindabók Villa sem var fyrsta bókin í þeirri ritröð sem hefur hlotið frábærar viðtökur.

„Ég held að reynsla mín og áhugi á starfi listamanna muni nýtast mér afar vel sem stjórnarmaður í Rithöfundasambandinu, eins þau tengsl við fólk í ólíkum geirum sem snerta starf og hag rithöfunda á einn eða annan hátt.“

Til varamanns:

HallaÉg heiti Halla Gunnarsdóttir og hef verið félagi í Rithöfundasambandinu frá árinu 2008. Eftir mig liggja fjórar útgefnar bækur, tvær ljóðabækur, fræðibók og ævisaga.

Ég er menntuð sem kennari og með meistarapróf í alþjóðastjórnmálum. Ég starfaði sem blaðamaður á Morgunblaðinu frá 2003–2008 og síðan sem aðstoðarmaður ráðherra fram til ársins 2013 þegar ég fluttist til Bandaríkjanna. Ég er nú búsett í Bretlandi þar sem ég starfa fyrir þverpólitískan stjórnmálaflokk, Women’s Equality Party, en stefni að heimflutningi á næstunni. Ég tel að reynsla mín úr fjölmiðlum og þekking á íslenskri stjórnsýslu og stjórnmálum geti komið að góðu gagni í þeim baráttumálum sem framundan eru hjá Rithöfundasambandinu. Ég myndi leggja mig alla fram í hagsmunabaráttunni, sem að mínu mati snýst ekki einvörðungu um rithöfunda heldur líka um listir og menningarlíf í víðu samhengi.

Til varamanns:

bjarneyÉg heiti Sigurlín Bjarney Gísladóttir. Ég hef gefið út fjórar ljóðabækur, eina nóvellu og eitt smásagnasafn. Fyrsta bókin, Fjallvegir í Reykjavík, kom út fyrir tíu árum.

Ég hef fengist við ýmislegt eins og kennslu, leiðsögustörf, aðstoð á Bókmenntahátíð í Reykjavík o.fl. Ég hef meðal annars numið ritlist og íslenskar bókmenntir í Háskóla Íslands en þessa dagana fæst ég við lestur og skrif um hugmyndaheim sautjándu aldar.

Í mörg ár starfaði ég á Einkaleyfastofunni og síðan hjá STEFi (Sambandi tónskálda og eigenda flutningsréttar) og hef því þekkingu á höfundarétti. Ég hef setið sem varamaður í stjórn RSÍ frá 2015 og hef ásamt Kristínu Ómarsdóttir séð um að birta bréfaskrif höfunda/listamanna á höfundavef sambandsins.


80 ára útgáfuafmæli Aðventu – nýjar útgáfur, málstofa og upplestrar

Um þessar mundir eru liðin 80 ár frá því að skáldasaga Gunnars Gunnarssonar Aðventa kom í fyrsta sinn út hjá Reclam í Þýskalandi og Gyldendal í Danmörku. Sagan af Benedikt og eftirleit hans á Mývatnsöræfum með sínum trygglyndu félögum, Eitli og Leó er klassísk og tímalaus. Á síðustu árum hefur hún verið þýdd á ný tungumál og kemur til að mynda út fyrir þessi jól á hollensku, ítölsku, arabísku og norsku.

Er Benedikt kominn til byggða? – málstofa í Gunnarshúsi

Í tilefni útgáfuafmælisins efna Gunnarsstofnun og Rithöfundasamband Íslands til málstofu um söguna að kvöldi miðvikudags 7. desember á Dyngjuvegi 8 í Reykjavík. Málstofan hefur yfirskriftina Er Benedikt kominn til byggða? Þar munu fjórir fræðimenn fjalla um söguna frá ólíkum sjónarhornum. Þeir eru: Jón Yngvi Jóhannsson bókmenntafræðingur, Halla Kjartansdóttir þýðandi og kennari, Trausti Jónsson veðurfræðingur og Hjalti Hugason guðfræðingur. Að loknum stuttum framsögum mun Vésteinn Ólason prófessor emeritus stýra umræðum. Málstofan hefst kl. 20.00 og er öllum opin.

Aðventa lesin  víða um land þann 11. desember

Síðastliðin áratug hefur Gunnarsstofnun í samvinnu við aðra staðið fyrir upplestri á Aðventu í desember, bæði hérlendis og erlendis. Aðventa verður að þessu sinni lesin á þremur stöðum sunnudaginn 11. des. Í Reykjavík les Gunnar Helgason rithöfundar söguna á Dyngjuvegi 8 hjá Rithöfundasambandinu. Á Akureyri les Pétur Halldórsson fyrrum útvarpsmaður í setustofu Icelandair Hótel Akureyri og á Skriðuklaustri hljómar önnur góðkunnug útvarpsrödd en þar les Gunnar Stefánsson söguna. Upplesturinn hefst á öllum stöðunum kl. 14.


Framhaldsaðalfundur

Framhaldsaðalfundur RSÍ 2016
verður haldinn í Gunnarshúsi fimmtudaginn 15. september kl. 20.00

Dagskrá:
1. Lýsing stjórnarkjörs
2. Kosning skoðunarmanns reikninga
3. Kosning í úthlutunarnefnd RSÍ
4. Önnur mál
Kaffihlé
5. Hræringar á útgáfumarkaði –
Fulltrúar frá útgefendum mæta, ræða breytingar á útgáfumarkaði og taka þátt í umræðum.

Félagsmenn eru hvattir til að fjölmenna.


Boðað til aukaaðalfundar

Aukaaðalfundur RSÍ verður haldinn 15. september 2016. Fundurinn er m.a. boðaður þar sem ekki er fullmannað í stjórn RSÍ eftir kjör. Það kemur til vegna þess að sitjandi meðstjórnandi, Vilborg Davíðsdóttir, var kjörinn varaformaður og sitjandi meðstjórnandi, Andri Snær Magnason, sagði sig úr stjórn. Fyrir vikið eru laus tvö sæti meðstjórnenda. Þar sem þetta var fyrirséð var viðbót við 5. grein laga sambandsins samþykkt á aðalfundi í apríl 2016. Hún hljóðar svo:

„Ef stjórn RSÍ eða varastjórn er ekki fullmönnuð er stjórn heimilt að boða til aukaaðalfundar í því skyni að bæta þar úr. Um framkvæmd slíks aukaaðalfundar gilda að öðru leyti sömu reglur og um aðalfund, m.a. hvað varðar boðun, kjörgengi, kjör o.s.frv.“

Framboðsfrestur vegna stjórnarkjörs er til 11. ágúst. Kjósa þarf tvo meðstjórnendur sem sitji fram að aðalfundi 2017. Skrifleg framboð til stjórnarkjörs berist skrifstofu RSÍ eigi síðar en kl. 14.00 fimmtudaginn 11. ágúst n.k.