Úthlutunar- og starfsreglur

Reglur um greiðslur fyrir afnot á bókasöfnum

1. gr. Gildissvið.
Reglur þessar taka til greiðslna til höfunda fyrir afnot bóka á Landsbókasafni Íslands – Háskóla­bókasafni og Hljóðbókasafni Íslands svo og háskólabókasöfnum, almenningsbókasöfnum, bóka­söfn­um framhalds- og grunnskóla, sérfræðisöfnum og bókasöfnum í stofnunum sem reknar eru af ríki eða sveitarfélögum, eftir því sem við á, sbr. 1. mgr. 2. gr. bókasafnalaga nr. 150/2012 (bókasafna­laga) og III. kafla laga nr. 91/2007 um bókmenntir (lög um bókmenntir). Til afnota teljast bæði útlán og afnot bóka á lestrarsölum bókasafna.

Greiðslur samkvæmt reglum þessum eru menningarlegur stuðningur við bækur á íslenskri tungu, en fela ekki í sér höfundaréttargreiðslur.

2. gr. Réttur til greiðslu.
Réttur til greiðslu er bundinn því að viðkomandi bók hafi verið gefin út á íslensku og hún skráð hjá Landskerfi bókasafna eða á annan sannanlegan hátt s.s. í skráningarkerfi safns sem ekki er hluti af Landskerfi bókasafna. Hann nær til frumsaminna bóka á íslensku, þýðinga, endursagnar eða staðfærslu á texta úr erlendu máli, réttur vegna þessa er þýðandans, sbr. 2. mgr. 7. gr. laga um bókmenntir. Þýðandi myndskreyttrar bókar fær þó greiðslu sem hlutfall af hlut höfundar texta.

Bækur sem eru 36 bls. að lágmarki, að undanskildum barnabókum, veita rétt til greiðslu enda séu þær prentaðar og bundnar, í kiljuformi, hljóðrit eða í stafrænu formi og til sölu á almennum mark­aði.

Formálar sem nema að lágmarki 36 bls. og safnrit þar sem hlutur hvers höfundar nemur að lág­marki 36 bls. veita rétt til greiðslu.

Séu höfundar verks fleiri en þrír veitir verkið ekki rétt til greiðslu. Úthlutunarnefnd ákveður um skiptingu milli samhöfunda, ef samkomulag liggur ekki fyrir. Ritstjórar, höfundar styttri formála, sbr. 3. mgr., og kynningartexta falla einnig utan úthlutunarreglna.

3. gr. Auglýsing um úthlutun.
Í janúar ár hvert skal auglýsa fyrirhugaða úthlutun í dagblöðum eða á annan sambærilegan hátt og leita eftir umsóknum nýrra rétthafa. Frestur til að skila inn umsókn skal vera þrjár vikur frá birtingu auglýsingar.

Rétthafar skv. 7. gr. laga um bókmenntir öðlast rétt til úthlutunar á grundvelli umsókna sem senda skal úthlutunarnefnd á þar til gerðum eyðublöðum. Nægjanlegt er að sækja um einu sinni og gildir umsókn þá ótímabundið. Eftir það sér úthlutunarnefndin um að skrá ný verk þeirra sem þegar hafa sótt um. Rétthöfum ber að tilkynna breytingar á upplýsingum er varða tilhögun greiðslna t.d. netfangi, heimilisfangi eða bankareikningi.

4. gr. Skráning afnota.
Úthlutunarnefnd gerir samning við Landskerfi bókasafna og Hljóðbókasafn Íslands um að veita upplýsingar um árleg útlán og fjölda eintaka verka einstakra rétthafa sem eru til afnota á lestrar­söl­um. Kostnaður vegna þessa greiðist af árlegri fjárveitingu Alþingis fyrir afnot efnis á bóka­söfn­um. Í upplýsingum skulu koma fram nöfn höfunda, eða höfundaheiti ef notað er gervinafn, heiti verks, skráð eintök og fjöldi útlána á viðkomandi almanaksári.

5. gr. Úthlutun.
Upphæð úthlutunar miðast við árlega fjárveitingu Alþingis sbr. 1. mgr. 7. gr. laga um bók­menntir. Úthlutun miðast við næstliðið almanaksár og skal lokið fyrir 1. júní ár hvert.

Greiðslu fyrir útlán og afnot á lestrarsal ákvarðar úthlutunarnefnd ár hvert á grundvelli upplýs­inga frá Landskerfi bókasafna og Hljóðbókasafni samkvæmt 2. gr. og á grundvelli hlutfallsskiptingar þegar greiðslur skiptast á milli fleiri rétthafa.

Greiðslur fyrir afnot bóka á lestrarsölum bókasafna, sem eru til í 7 eintökum eða fleiri og mælast með færri en 300 útlán, skulu jafngilda eftirfarandi margfeldi útlána: orðabækur 10 útlán, önnur verk 8 útlán.

Ef reiknað framlag nemur lægri upphæð en 6.000 kr. fellur greiðsla niður. Upphæðin er á verð­lagi fjárlaga 2020 og tekur breytingum samkvæmt verðlagsuppfærslu fjárlaga hverju sinni.

6. gr. Umsýsla.
Ráðherra heimilar úthlutunarnefnd að semja við stofnun eða félagasamtök um að annast umsýslu umsókna, greiðslur til rétthafa og önnur störf sem lúta að starfi úthlutunarnefndarinnar. Kostnaður vegna þessa greiðist af árlegri fjárveitingu Alþingis fyrir afnot efnis á bókasöfnum.

7. gr. Gildistaka.
Reglur þessar, sem settar eru samkvæmt 8. gr. laga um bókmenntir nr. 91/2007, öðlast þegar gildi.

Mennta- og menningarmálaráðuneytinu, 16. febrúar 2021.

Lilja D. Alfreðsdóttir.

Páll Magnússon.