Kæru félagar,
Enn eitt árið er liðið og ætla ég hér að fara yfir það helsta sem dreif á daga okkar frá síðasta aðalfundi.
Áður en lengra er haldið er rétt að við minnumst þeirra sem ekki eru lengur á meðal okkar. Frá því við hittumst síðast á aðalfundi hafa þrír félagar í Rithöfundasambandinu fallið frá, en þau eru Ragna Steinunn Eyjólfsdóttir, Kristján Jóhann Jónsson (Klói) og Gísli Þór Ólafsson.
Ég bið ykkur um að rísa úr sætum og minnast þessara fráföllnu félaga okkar með einnar mínútu þögn.
Kærar þakkir.
Síðasta ár var mikið afmælisár, því Rithöfundasambandið fagnaði 50 ára tilveru þann 12. maí s.l. Við gerðum ýmislegt til að halda upp á áfangann – og ekki síður minna á okkur og okkar helstu baráttumál. Að kvöldi afmælisdagsins héldum við fjölmennan hátíðarkvöldverð í Iðnó – sem var ákaflega ánægjulegur og verður lengi í minnum hafður. Eins tók Þórunn Hafstað, sem var þá verkefnastjóri, saman skemmtilega herferð um ýmis atvik úr sögu RSÍ fyrir samfélagsmiðla. Tilgangurinn var að minna á okkar baráttumál en líka hvað áunnist hefur – sem er heilmikið. Hápunktur afmælisársins var svo ráðstefna síðasta haust sem ég mun koma betur að hér á eftir. Til skoðunar var að gera stutta þætti eða innslög með RÚV en þau áform urðu endanlega að engu þegar skyndilega var boðað til kosninga síðasta haust. Þá voru í fyrsta sinn veitt sérstök hvatningarverðlaun úr Rithöfundasjóði Ríkisútvarpsins, auk hinnar árlegu viðurkenningar, og var stofnað til nýju verðlaunanna í tilefni afmælis RSÍ.
Á síðasta aðalfundi kom Friðgeir Einarsson nýr inn í stjórnina en Jón Gnarr lét af stöfum og hellti sér í ýmis framboð. Það hefur þegar komið sér vel að hafa fyrrverandi stjórnarmann á Alþingi og gott að vita af honum þar. Stjórn fundar alla jafna fyrsta mánudag hvers mánaðar og oftar ef þurfa þykir. Á tækniöld er svo auðvelt að vera í samskiptum þess á milli þegar brýn mál koma upp. Það urðu líka starfsmannabreytingar hér á bæ því Þórunn Hafstað hvarf til annarra starfa síðasta sumar en Salka Guðmundsdóttir tók við starfi verkefnastjóra. Við þökkum Þórunni og auðvitað Jóni gott og gjöfult samstarf.
Á síðasta aðalfundi gerðum við þær breytingar að teiknarar sem vinna við myndlýsingu bóka geta nú sótt um aðild að RSÍ. Skemmst er frá því að segja að engar flóðgáttir opnuðust og teiknandi félagsmönnum hefur lítið fjölgað og sérstaklega ekki hlutfallslega – því hingað liggur straumur en þó aðallega handritshöfunda.
En aftur að starfsárinu. Haustið hófst af krafti. Við vorum á fullu í að skipuleggja afmælisráðstefnu okkar í Eddu, Bókmenntir á berangri, og ekki fyrr búin að greiða bæði fyrir flug og hótel fyrir okkar ágæta erlenda gest, Bjørn Vatne, formann norska rithöfundasambandsins, þegar ríkisstjórnin sprakk og boðað var óvænt til kosninga. Sem betur fer héldum við okkar striki og hvöttum frambjóðendur til að mæta. Á ráðstefnunni lögðum við meðal annars áherslu á norska kerfið, bóklög og fast bókverð. Það var afar ánægjulegt að heyra okkar skilaboð enduróma í máli margra frambjóðenda í kosningabaráttunni, m.a. á framboðsfundi sem BÍL og Listaháskólinn héldu saman og streymt var á Vísi. Ráðstefnan okkar tókst afar vel og þar fengum við gott veganesti í áframhaldandi baráttu.
Þau mál sem vörðuðu samskipti okkar við stjórnvöld voru hins vegar í lausu lofti framyfir kosningar og ríkisstjórnarskipti. Við áttum ávallt góð samskipti við Lilju Alfreðsdóttur og nýr ráðherra, Logi Einarsson, lét það verða eitt af sínum fyrstu verkum að hitta stjórn Rithöfundasambandsins með sínum aðstoðarmönnum. Áttum við góðan fund með þeim strax í janúar og kynntum honum okkar helstu stefnumál. Við sendum einnig inn hagræðingartillögu til ríkisstjórnarinnar og bentum á að fjármagn í menningu og bókmenntir er góð fjárfesting sem skilar sér margfalt til baka og sparar á öðrum stöðum í kerfinu. Menning skerðir ekki velferð – hún er velferðarmál. Og munum að það er nóg til og engin sérstök ástæða til að svelta rithöfunda né aðra listamenn.
Bókmenntastefnan, mál sem Lilja vann að í sinni ráðherratíð en náði ekki að klára, hefur verið lagt fram að nýju og höfum við þegar kynnt þingnefnd okkar áherslur. Það var ánægjulegt að sjá að sniðnir höfðu verið af þingmálinu helstu vankantar og ýmislegt nýtt í nýframlögðu máli sem við ræddum sérstaklega við ráðherrann. Góð og fjármögnuð bókmenntastefna er mikilvæg og ætti að vera okkur haldreipi. Nú vonum við að þingið klúðri ekki málum.
Fyrir jól var í fyrsta sinn úthlutað samkvæmt nýuppfærðum lögum um listamannalaun en lagabreytingin er ekki að fullu komin til framkvæmdar. Við bættist sjóður kvikmyndahöfunda og „Vegsemd“ – sjóður eldri listamanna – sem þó er ósýnilegur öllum nema þeim sem hljóta vegsemdina. Margt er enn á huldu með framhaldið – t.d. hvort þeir sem fengu úr Vegsemd munu fá aftur að ári en því fólki er til að mynda ekki gert að skila framvinduskýrslum – en samt er ekki hægt að sækja um nema skila framvinduskýrslu. Og þrátt fyrir lagabreytingu er enn ekki komin ný reglugerð. Stjórn BÍL hefur fundað reglulega með stjórn listamannalauna, ráðuneytinu og Rannís og mun gera það aftur nú í maí og vonandi kemst einhver niðurstaða í þessi mál fyrir næsta haust.
Þá virðist einhver hreyfing vera að komast á innleiðingu svokallaðar DSM tilskipunar ESB sem við höfum kallað mjög eftir en fyrri ráðherra hafði engan áhuga á að innleiða. Hún tekur m.a. á gervigreindarmálum og er reyndar þegar orðin úrelt, svo hratt gerast hlutirnir, en það hefur verið mjög asnalegt að geta vart rætt þessi mál við ráðuneytið.
Og meira um gervigreindina.
Verkefni okkar taka stundum á sig svo ótrúlegar myndir að þær þættu of lygilegar í skáldskap. Nýjasta viðfangsefnið er af þeim toga en upp komst fyrr í vor að hið bandaríska META sem er móðurfyrirtæki Facebook, Instagram og fleiri samfélagsmiðla, hefði tekið upp því að stela sjö og hálfri milljón bóka af sjóræningjasíðunni LibGen og yfir 80 milljónum fræðigreina. Þarna eru fjölmörg verk íslenskra höfunda, flest í þýðingum en líka verk á íslensku. Meta notar bókakostinn til að þjálfa gervigreind og hefur sýnt algjörlega einbeittan brotavilja og gríðarlega ósvífni í þessu máli. Verk í höfundarrétti má að sjálfsögðu ekki nota með þessum hætti án samþykkis rétthafa og þegar samið er um slíkt er gengið út frá því að verk séu þar ekki í heilu lagi. Og hvað getum við gert? Svona brot er erfitt að kæra, hvað þá standa fyrir málaferlum. Við röltum ekkert niður á lögreglustöð á Hverfisgötu til að kæra eitt stærsta og valdamesta fyrirtæki í heimi. Þá er gott að vera í erlendu samstarfi en í samstarfi við European Writers´ Council sem við erum aðilar að hvetjum við höfunda til að athuga hvort þeir eigi verk í sjóræningjabókasafninu LibGen, taka skjáskot og senda á okkur. Nánari leiðbeiningar voru sendar út í tölvupósti fyrr í vor.
Þá var nú bókaþjófurinn alræmdi skárri en hann lét líka á sér kræla á árinu og auðvitað vörum við við honum líka.
Storytel hefur starfað hér frá 2018 og gjörbreytt íslenskum bókamarkaði. Síðasta vor tókum við eftir því að margar nýjar bækur þar voru gefnar út af nýjum útgefanda, Lind & Co. Við nánari athugun komumst við að því að þær eru flestar ef ekki allar þýddar af gervigreind. Í ljós kom að hið „nýja“ útgáfufyrirtæki er sænskur útgefandi sem Storytel keypti nýlega 70% í. Þessu efni virðist haldið mjög að notendum Storytel og aðrir rétthafar fá því minna fyrir sinn snúð. Við höfum einnig fengið það staðfest að sú breyting hafi verið gerð að tekjur frá óvirkum áskrifendum Storytel fari ekki í deilipott til rétthafa heldur renni óskertar til fyrirtækisins. Það virðist muna um það því allt í einu skilað móðurfélagið hagnaði. Starfshættir Storytel eru með þeim hætti að okkur er gróflega misboðið enda teljum við að Storytel misnoti markaðsráðandi stöðu sína hér á landi með margvíslegum hætti. Við sendum inn kvörtun til Samkeppniseftirlitsins vegna þessa fyrr í vetur. Sú kvörtun var tekin alvarlega og fékk Storytel tíma fram í apríl til að skila athugasemdum. Við munum senda okkar athugasemdir og frekari gögn til stuðnings kvörtuninni á næstu dögum. Í kjölfar þess mun Samkeppniseftirlitið ákveða hvort ráðist verði í frekari rannsókn. Fréttir af þessari vinnu hafa þegar spurst út hjá kollegum okkar, sérstaklega á Norðurlöndunum, og fylgjast systursamtök okkar spennt með þróun mála.
En aftur að félagsstarfinu. Við héldum fræðslufund um umsóknir um listamannalaun í september og auðvitað okkar hefðbundna jólaboð í desember. Í annað sinn buðum við nýliða sérstaklega velkomna aðeins fyrr og var vel mætt og gaman í báðum boðum. Auk þess var Aðventa lesin hér að venju og húsið iðaði af bókmenntatengdu lífi öll kvöld. Við héldum svo félagsfundi nú eftir áramótin um Rafbókasafnið og annan um sjálfsútgáfu sem var gríðarvel sóttur.
Við gerðum tvær kannanir meðal félagsmanna, önnur var um Storytel, hin almenn kjarakönnun sem við munum endurtaka nú í vor.
Þá má nefna samstarf okkar við Félag leikskálda og handritshöfunda um lögfræðiþjónustu en félögin fá saman fjármagn frá IHM sem nota má að hluta til almennrar þjónustu við félagsmenn. Það munar mikið um þetta og það verður vonandi til þess að samningamál handritshöfunda komist í betri farveg en nú er.
Við höfum lagt til við FÍBÚT að bæta við samninga ákvæðum um gervigreind annars vegar, og hins vegar um tímamörk vegna efnis um streymisveitur. Það virðist vera gefin regla að við fáum neitun á allar okkar tillögur, allavega fyrst um sinn og svo var einnig með þetta en okkur til gleði og undrunar hafði FÍBÚT samband fyrr í mánuðinum og vildi nú samþykkja tillögu okkar að gervigreindarákvæði að norskri fyrirmynd með örlitlum breytingum, sem við gátum vel fallist á. Það ákvæði töldu báðir aðilar að skynsamlegast væri að hafa í viðauka enda breytast þessi mál hratt og verður ákvæðið borið undir fundinn hér síðar í kvöld.
Ósamið hefur verið við RÚV um árabil. Reyndar er í gildi samningur en hann er ekki notaður og þykir ekki nothæfur. Eins og heyra má er lítið um ljóðalestur eða aðrar bókmenntir á dagskrá útvarps eða sjónvarps núorðið. Síðustu mánuði hafa verið viðræður á milli RSÍ og RÚV um að breyta þessu. Ég held að ekki dugi að endurnýja gamla samninginn. Við búum við gjörbreytt landslag þar sem línuleg dagskrá er á undanhaldi og hlaðvörp og hljóðbækur notaðar af mörgum. Nýr samningur – sem enn er bara á teikniborðinu – verður ekki aðeins að tryggja að höfundar fái sanngjarnt afgjald ef verk þeirra eru lesin því þegar engin verk eru lesin fá höfundar ekki neitt. Samningurinn verður því einnig að tryggja að bókmenntir heyrist á ný á miðlum RÚV og opna aðgang – gegn því að höfundar fái greitt – og einnig fyrir eldra efni sem til er í safni RÚV en eins og er þá þora starfsmenn þar vart að snerta það með priki. Mér þykir líklegt að lendingin verði tilraunasamningur sem gildir í eitt ár. En meira um það síðar.
Við Ragnar Jónasson varaformaður áttum góðan fund með Hljóðbókasafninu eftir að upp komst að hljóðskrár þaðan komust í dreifingu á innri vefkerfum skóla. Við höfðum auðvitað um ýmislegt annað að ræða líka og verðum kannski aldrei alveg sátt við þá starfsemi þótt margt hafi færst til betri vegar og að hlustað hafi á verið á umkvartanir okkar og brugðist við mörgum þeirra. Í kjölfarið sendi RSÍ út harðort bréf til allra skóla og benti á alvarleika þess að deila höfundarréttarvörðu efni ætlað prentleturshömluðum til nemenda sem ekki eiga rétt á slíku. Við notuðum líka tækifærið og bentum á að óheimilt væri að nota einstaklingsaðganga að Storytel til að spila bækur fyrir heilu bekkina eins og við vitum að viðgengst.
Erlent samstarf hefur verið í hefðbundu fari. Í vor funduðum við Ragnheiður framkvæmdastjóri í París á vegum alþjóðlegra samtaka höfunda og í maí munum við sækja tvo fundi í sömu vikunni en Evrópusamtökin munu funda í Osló og strax á eftir þeim fundi munu Norrænu samtökin funda í Færeyjum. Auk þess tökum við þátt í bæði evrópsku og norrænu samstarfi þýðenda en Salka Guðmundsdóttir hefur setið þá fundi.
Og svo er hellings samstarf innanlands, mest á vettvangi BÍL þar sem við vinnum með öðrum félögum listamanna að sameiginlegum hagsmunum. Ég gegni þar starfi ritara og á gott samstarf við forseta og stjórn. Auk þess tökum við þátt í ýmsum ráðstefnum, verðlaunum og hinu og þessu. Ég vil nefna sérstaklega og minna á ljóðaverðlaunin Maístjörnuna sem er samstarfsverkefni RSÍ og Landsbókasafns – Háskólabókasafns, en tilnefnt verður til hennar nú á miðvikudaginn og verðlaunin veitt í maí. Og verkefnið Skáld í skólum gekk glymjandi vel í vetur eins og oftast áður.
Kæru félagar. Þetta eru undarlegir tímar. Það geisa hörmuleg stríð víða og flest finnum við til vanmáttar. En það geisa líka menningarstríð með tilheyrandi skautun, átök um merkingu orða og hugtaka, hugmyndir og tjáningu. Tjáningarfrelsinu er þrengri stakkur sniðinn en áður og áróður gegn list og sköpun veður uppi. Okkur ber að standa vörð um orðin og frelsi okkar til að nota þau; frelsi til að tjá hugsanir okkar, líka þegar valdhöfum líkar ekki hvað við höfum að segja. Í slíkum styrjöldum er öllu snúið á hvolf. Við höfundar hljótum að brýna raustina.
Að lokum þá hefur stjórn RSÍ falið mér að flytja skýrslu stjórnar um eftirlit með rétthafagreiðslum. Það eftirlit fól stjórn mér að sinna og því tel ég mig hafa sinnt og get ekki séð neina annmarka á framkvæmd greiðslnanna eða á bókhaldi þeim tengdum. Samkvæmt lögum um sameiginlegar umsýslustofnanir, eins og RSÍ telst vera, þá ber okkur að flytja ykkur þessi tíðindi hér á aðalfundi og hefur það nú verið gjört.
Ég þakka fyrir mig.
Margrét Tryggvadóttir