Search
Close this search box.

Sjóðir

Launasjóður rithöfunda

Launasjóður rithöfunda veitir árlega starfslaun og styrki sem svara til 555 mánaðarlauna.

Rétt til greiðslu úr sjóðnum hafa íslenskir rithöfundar. Heimilt er að greiða úr sjóðnum fyrir þýðingar á íslensku.

Starfslaunaþegar skulu skila skýrslu um störf sín á starfslaunatímanum eigi síðar en ári eftir að honum lýkur. Þeir skulu ekki gegna föstu starfi meðan á starfslaunatímanum stendur. Fullt starf í skilningi þessara laga miðast við 67% starf eða meira. Þeir sem njóta starfs­launa í sex mánuði eða lengur skulu því ekki gegna öðru starfi sem telst meira en þriðjungur úr stöðugildi meðan þeir fá greidd starfslaun enda hindri það ekki listamanninn í því að sinna því verkefni sem starfslaunin voru veitt til.

Sjóðurinn starfar samkvæmt lögum um listamannalaun og hefur þriggja manna stjórn listamannalauna yfirumsjón með sjóðnum. Þriggja manna nefnd, sem menntamálaráðherra skipar árlega samkvæmt tillögum stjórnar Rithöfundasambands Íslands, úthlutar fé úr Launasjóði rithöfunda.

Auglýst er eftir umsóknum að hausti og er miðað við að úthlutun fari fram fyrir 1. mars ár hvert.
Umsóknareyðublöð og nánari upplýsingar fást hjá Rannís.

Handritsstyrkir Kvikmyndasjóðs

Styrkir úr Kvikmyndasjóði eru einungis veittir íslenskum framleiðslufyrirtækjum og einstaklingum sem hafa kvikmyndagerð að meginstarfi. Vilyrði fyrir styrki úr Kvikmyndasjóði opnar oft dyr að annarri fjármögnun og því er æskilegt að sækja um með góðum fyrirvara. Afgreiðsla umsókna tekur að jafnaði 8-10 vikur. Fáist jákvætt svar við umsókn er gefið út vilyrði fyrir styrk.

Þrenns konar handritsstyrkir standa til boða en umsækjendur þurfa að fylla út viðeigandi umsóknareyðublað sem finna má með því að smella á eftirfarandi hlekki:

Athugið að allar nánari upplýsingar um fyrirkomulag styrkja er að finna á heimasíðu Kvikmyndamiðstöðvar Íslands .

Hagþenkir – starfsstyrkir til ritstarfa

Hagþenkir veitir höfundum starfsstyrki til að vinna að ritun fræðirita og kennslugagna hvort sem verkin eru gefin út á prenti eða rafrænu formi. Starfsstyrkir eru veittir til ritstarfa en ekki til útgáfu, kynningar eða annars kostnaðar við útgáfu fræðirita og kennslugagna. Sérstök áhersla skal lögð á að styrkja höfunda til að ljúka verkum sem eru hafin eða langt komin. Einnig er heimilt að veita höfundi styrk vegna verks sem er lokið. Ekki skal veita styrki til lokaverkefna í háskólanámi, s.s. meistara- eða doktorsritgerða.

Rétt til að sækja um starfsstyrki hafa félagsmenn í Hagþenki og aðrir höfundar fræðirita og kennslugagna. Reglur og umsóknareyðublöð má finna á heimasíðu Hagþenkis.

Starfslaunasjóður sjálfstætt starfandi fræðimanna

Hægt er að sækja um styrki til að vinna að ritun fræðirita og –greina, handbóka, orðabóka og víðamikils upplýsingaefnis á íslensku í ýmsu formi. Umsækjendur sækja um starfslaun til 3, 6, 9 eða 12 mánaða í senn og skal tilgreina starfslaunatímabil á umsóknareyðublaði. Heimilt er að veita sama einstaklingi starfslaun vegna afmarkaðra verkefna til lengri tíma en 12 mánaða, en þó aldrei lengur en til 36 mánaða. Þegar sótt er um áframhaldandi starfslaun skal endurnýja umsókn árlega. Framlag Starfslaunasjóðs sjálfstætt starfandi fræðimanna skal miðast við 300.000 kr. á mánuði

Sjóðurinn starfar skv. reglum um Starfslaunasjóðinn, sjá nánar á heimasíðu Rannís.

Miðstöð íslenskra bókmennta

Hlutverk Miðstöðvar íslenskra bókmennta er að efla bókmenningu á Íslandi m.a. með því að veita styrki til útgáfu íslenskra ritverka og þýðinga erlendra bókmennta á íslensku. Jafnframt er hlutverk Miðstöðvarinnar að kynna íslenskar bókmenntir hér á landi og erlendis og stuðla að aukinni útbreiðslu þeirra.

Miðstöð íslenskra bókmennta hóf starfsemi í ársbyrjun 2013. Við stofnun hennar sameinuðust fyrrum Bókmenntasjóður sem starfað hafði frá árinu 2008 og verkefnið Sögueyjan Ísland (Sagenhaftes Island) sem hélt utan um heiðursþátttöku Íslands á Bókasýningunni í Frankfurt 2011.

Norræna menningargáttin

Norræna menningargáttin/Kulturkontakt Nord veitir árlega ýmsa styrki á sviði menningarmála. Sjá nánar hér.

Styrkir Reykjavíkurborgar

Reykjavíkurborg veitir ár hvert félagasamtökum, fyrirtækjum og einstaklingum styrki til starfsemi og þjónustu sem fellur að hlutverki sveitarfélagsins eða telst á annan hátt í samræmi við stefnumörkun, áherslur og forgangsröðun borgaryfirvalda.

Að hausti ár hvert eru auglýstir til umsóknar styrkir úr borgarsjóði með fjögurra vikna umsóknarfresti. Fagráð fer yfir umsóknirnar og tekur ákvörðun um úthlutun fyrir árslok hvers árs. Nánari upplýsingar hjá Reykjavíkurborg.

Dansk- íslenski samvinnusjóðurinn

Sjóðurinn var efldur á 50 ára afmæli lýðveldisins. Hann veitir m.a. styrki til vinnu- og námsdvalar í Danmörku. Umsóknarfrestur rennur út 15. apríl og 15. október ár hvert. Umsóknum ber að skila á sérstökum eyðublöðum til:

Fondet for Dansk-Islandsk Samarbejde, konsulent Per Fischer, c/o Udenrigsministeriet,

Asiatisk Plads 2, 1448 København K.

Sími: 0045-70 20 40 76,

fax: 0045-0045-70 20 40 78,

post@fdis.dk
http://www.fdis.dk/

Dansk- íslenski sjóðurinn

Sjóðnum er ætlað að styrkja menningartengsl Danmerkur og Íslands, íslenskt vísinda- og rannsóknastarf svo og nemendur á háskólastigi. Umsóknir skulu sendar:

Dansk-Islandsk Fond,

Sankt Annæ Plads 5, DK-1250 København K. á umsóknareyðublöðum sem þar fást.

Sími: 0045-33148276
DANSK – ISLANDSK FOND | Fréttir og tilkynningar | Jónshús (jonshus.dk)

Menningarsjóður Íslands og Finnlands

Stofnaður 1974. Sjóðnum er ætlað að styrkja menningartengsl Íslands og Finnlands. Styrkirnir eru fyrst og fremst veittir einstaklingum, en í sérstökum tilfellum kemur stuðningur við samtök og stofnanir til greina.

Umsóknarfrestur rennur út 31. mars ár hvert. Umsóknareyðublöð fást hjá Menntamálaráðuneytinu og þar er einnig tekið við umsóknum. Æskilegt er að umsóknir séu ritaðar á sænsku, dönsku, finnsku eða norsku. Styrkir til að sækja norrænar eða alþjóðlegar ráðstefnur koma að jafnaði ekki til greina. www.hanaholmen.fi.

Letterstedtski sjóðurinn

Hefur m.a. það hlutverk að efla norræn tengsl í vísindum, verkmennt og listum. Styrkir eru m.a. veittir til dvalar við háskóla í öðru Norðurlandaríki, til ráðstefnuhaldara og til útgáfu á eða kaupum á bókum og ritum með samnorrænu efni. Íslandsdeild sjóðsins veitir ferðastyrki til vísinda- og fræðimanna. Umsóknarfrestur vegna ferðastyrkja rennur út 1. mars ár hvert en vegna annarra styrkja 1. mars og 15. sept. Umsóknir um ferðastyrki skulu sendar ritara Íslandsdeildar Letterstedtska sjóðsins, Þór Magnússyni, Bauganesi 26, 101 Reykjavík. Umsóknir um aðra styrki skulu sendar stjórn Letterstedtska föreningen, Box 34037, SE-100 26 Stockholm, Svíþjóð. Sjá nánar á heimasíðu http://www.letterstedtska.org/.