Rithöfundasamband Íslands

The Writers' Union of Iceland


Boðað til aukaaðalfundar

Aukaaðalfundur RSÍ verður haldinn 15. september 2016. Fundurinn er m.a. boðaður þar sem ekki er fullmannað í stjórn RSÍ eftir kjör. Það kemur til vegna þess að sitjandi meðstjórnandi, Vilborg Davíðsdóttir, var kjörinn varaformaður og sitjandi meðstjórnandi, Andri Snær Magnason, sagði sig úr stjórn. Fyrir vikið eru laus tvö sæti meðstjórnenda. Þar sem þetta var fyrirséð var viðbót við 5. grein laga sambandsins samþykkt á aðalfundi í apríl 2016. Hún hljóðar svo:

„Ef stjórn RSÍ eða varastjórn er ekki fullmönnuð er stjórn heimilt að boða til aukaaðalfundar í því skyni að bæta þar úr. Um framkvæmd slíks aukaaðalfundar gilda að öðru leyti sömu reglur og um aðalfund, m.a. hvað varðar boðun, kjörgengi, kjör o.s.frv.“

Framboðsfrestur vegna stjórnarkjörs er til 11. ágúst. Kjósa þarf tvo meðstjórnendur sem sitji fram að aðalfundi 2017. Skrifleg framboð til stjórnarkjörs berist skrifstofu RSÍ eigi síðar en kl. 14.00 fimmtudaginn 11. ágúst n.k.


ÚTHLUTUN NÝRÆKTARSTYRKJA MIÐSTÖÐVAR ÍSLENSKRA BÓKMENNTA 2016

Nýrækt 2016

Þrír höfundar hljóta Nýræktarstyrkina í ár fyrir verk sín: Einsamræður eftir Birtu Þórhallsdóttur, Smáglæpir eftir Björn Halldórsson og Afhending eftir Vilhjálm Bergmann Bragason.

Í gær, fimmtudaginn 2. júní, veitti Miðstöð íslenskra bókmennta þremur nýjum höfundum Nýræktarstyrki til útgáfu á verkum þeirra, en hver styrkur nemur 400.000 kr. Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra tilkynnti hverjir hlutu styrkina í ár við athöfn í Gunnarshúsi, húsi Rithöfundasambandsins og er þetta í níunda skipti sem Nýræktarstyrkjum er úthlutað. Samtals hafa yfir 50 höfundar hlotið þessa viðurkenningu frá upphafi.

Nýræktarstyrkir eru sérstakir styrkir til útgáfu á nýjum íslenskum skáldskap. Styrkjunum er ætlað að styðja við útgáfu á fyrstu verkum nýrra höfunda og er þar átt við skáldverk í víðri merkingu þess orðs, sögur, ljóð, leikrit, eða eitthvað allt annað.

Í ár bárust 35 umsóknir um Nýræktarstyrki. Verkin sem sótt var um fyrir eru af ýmsum toga s.s. skáldsögur, leikrit, ljóð, barna- og ungmennabækur, smásögur og glæpasögur.

Nýræktarstyrki Miðstöðvar íslenskra bókmennta hljóta að þessu sinni eftirtalin verk og höfundar:

Einsamræður – Örsögur

Höfundur: Birta Þórhallsdóttir (f. 1989)

Birta er MA nemandi í Ritlist við Háskóla Íslands, verkið er hluti af lokaverkefni hennar, sem hún hefur unnið undir leiðsögn Óskars Árna Óskarssonar.

Umsögn bókmenntaráðgjafa um verk og höfund:

„“Kröftugar örsögur skrifaðar í afgerandi og öguðum stíl sem höfundur hefur einkar gott vald á. Textinn grípur lesandann með spennandi möguleikum og mótsögnum þar sem kunnuglegar aðstæður umbreytast og taka á sig hrífandi ævintýrablæ.“

Smáglæpir – Smásögur

Höfundur: Björn Halldórsson (f. 1983)

Björn Halldórsson er með BA-gráðu í enskum og amerískum bókmenntum frá Háskóla East Anglia héraðs í Norwich, Englandi og MFA gráðu í skapandi skrifum frá Háskólanum í Glasgow.

Umsögn bókmenntaráðgjafa um verk og höfund:

„Vel skrifaðar og fagmannlega mótaðar smásögur. Höfundur þekkir smásagnaformið augsýnilega vel og kann þá list að segja ekki of mikið en skapa á sama tíma forvitnilega stemningu og andrúmsloft í sögum sem ná gríðarföstu taki á lesandanum.“

Afhending – Leikrit

Höfundur: Vilhjálmur Bergmann Bragason (f. 1988)

Vilhjálmur hefur nýlokið MA námi í leikhúsbókmenntum og leikritun frá RADA, Royal Academy of Dramatic Arts í London.

Umsögn bókmenntaráðgjafa um verk og höfund:

„Athyglisverður og ögrandi leiktexti sem fyllir lesandann óhug og efasemdum um þá þróun sem er sýnd í samskiptum persónanna. Höfundurinn þekkir leikhúsið og leikritun og sýnir athyglisvert vald á forminu, eins og sést mæta vel á snörpum og vel skrifuðum samtölum þar sem dansað er á mörkum súrrealisma og óþægilegs raunsæis.“

 

Tölulegar upplýsingar um Nýræktarstyrkir

 Umsóknum um Nýræktarstyrki hefur fjölgað verulega frá því þeim var fyrst úthlutað hjá Bókmenntasjóði, forvera Miðstöðvar íslenskra bókmennta, árið 2008, en þá bárust 9 umsóknir og 5 styrkir voru veittir, hver að upphæð 200.000 kr.

Árið 2009 bárust 27 umsóknir og 6 hlutu styrki, árið 2010 bárust 39 umsóknir og voru 5 styrkir veittir og árið 2011 bárust 30 umsóknir og þá var úthlutað 5 styrkjum. Árið 2012 bárust 23 umsóknir og voru 5 styrkir veittir að upphæð 200.000 kr., 2013 bárust 49 umsóknir og 4 verk hlutu styrk. Árið 2014 barst 31 umsókn um Nýræktarstyrkina og hlutu fjórir styrk að upphæð 250.000 kr. Árið 2015 voru umsóknirnar 51 og styrkupphæðin var hækkuð í 400.000 kr.


Vorvindaviðurkenningar IBBY á Íslandi afhentar

swöhler_MG_09122016

Meðfylgjandi er ljósmynd frá verðlaunaafhendingunni. Á myndinni eru (frá vinstri) Ásta Magnúsdóttir (fyrir hönd Kjartans Yngva Björnssonar og Snæbjörns Brynjarssonar), Bergrún Íris Sævarsdóttir, Ragnhildur Hólmgeirsdóttir og stofnendur Study Cake: Kjartan Þórisson, Hörður Guðmundsson og Kristján Ingi Geirsson. Ljósmyndina tók Sigríður Wöhler.

Vorvindaviðurkenningar IBBY á Íslandi voru afhentar í þrítugasta skiptið 22. maí í Gunnarshúsi.  Fjórar viðurkenningar voru veittar að þessu sinni fyrir störf að barnamenningu, en þær eiga að vekja athygli á þeim fersku vindum sem blása á sviðinu og vera viðtakendum hvatning til að halda áfram á sömu braut.

Viðurkenningarnar hlutu:

  • Bergrún Íris Sævarsdóttir. Bergrún er afkastamikill listamaður sem virðist eflast með hverju nýju verkefni. Hún vinnur bæði með myndir og texta og bækur hennar ná jafnauðveldlega til yngstu lesendanna og þeirra sem lesa fyrir þá, enda einkenna húmor og hlýja verk hennar öll.
  • Kjartan Yngvi Björnsson og Snæbjörn Brynjarsson. Síðan fyrsta bókin í flokknum Þriggja heima saga kom út hefur sagan vaxið mikið og söguheimurinn þanist út. Kjartan og Snæbjörn eru metnaðarfullir og hugmyndaríkir höfundar, en svo að ungt fólk kjósi að lesa á íslensku skiptir sköpum að til séu bækur eins og Þriggja heima saga á íslensku.
  • Ragnhildur Hólmgeirsdóttir. Fyrsta bók Ragnhildar, Koparborgin, er safarík saga þar sem hver þáttur er úthugsaður. Bókin ber þess merki að höfundur hefur nostrað við hvern þátt hennar, en ríkuleg smáatriðin yfirgnæfa samt aldrei æsispennandi frásögn Ragnhildar sem heldur þétt um alla þræði sögunnar.
  • Study Cake. Frumkvöðlar sprotafyrirtækisins Study Cake hafa það markmið að líta á tæknina sem bandamann bóklestrar, frekar en sem óvin, í keppninni um tíma barna. Samnefnt smáforrit er unnið í samstarfi við fjölda höfunda og sérfræðinga og þróast ört í takt við kröfur notenda, sem er til mikillar fyrirmyndar.


Einstök gjöf

Guðný Ýr Jónsdóttir

Guðný Ýr Jónsdóttir fyrir framan portrett af Sigfúsi Daðasyni.

 

Guðný Ýr Jónsdóttir, ekkja Sigfúsar Daðasonar ljóðskálds, færði Rithöfundasambandi Íslands portrett af Sigfúsi að gjöf 20. maí sl., á fæðingardegi skáldsins. Málverkið er eftir Baltasar Samper og gefur kraftmikla og hlýlega mynd af Sigfúsi Daðasyni en er jafnframt merkilegur sálarspegill skáldsins. Rithöfundsambandið þakkar Guðnýju Ýri innilega fyrir höfðinglega gjöf og vinarvott.

 

 


Ingibjörg Haraldsdóttir hlýtur heiðursviðurkenningu

Ingibjörg Haraldsdóttir, ljóðskáld og þýðandi, hlaut í gær heiðursviðurkenningu Samvinnustofnunar Rússlands um menningar- og mannúðarmál fyrir störf í þágu rússneskrar menningar. Sendiherra Rússlands á Íslandi, Anton V. Vasiliev, afhenti Ingibjörgingibjorgharaldsu viðurkenninguna við hátíðlega athöfn í sendiráði Rússlands í Reykjavík. Ingibjörg hefur verið afkastamikill þýðandi klassískra rússneskra bókmennta og eftir hana liggja íslenskar þýðingar á fjölmörgum höfuðverkum Rússa. Meðal þýðinga eftir Ingibjörgu eru Karamazovbræðurnir, Glæpur og refsing, Fávitinn og Tvífarinn eftir Dostojevskí, og Meistarinn og Margaríta eftir Bulgakov, svo fáein dæmi séu tekin. Þýðingar Ingibjargar úr frummálinu eru ómetanlegt framlag til bæði rússneskrar og íslenskrar menningar.

 


Ferðastyrkir – umsóknarfrestur til 1. júní

Auglýst er eftir umsóknum um ferðastyrki úr höfundasjóði RSÍ

Rithöfundasamband Íslands veitir félagsmönnum og öðrum höfundum ferðastyrki til utanlandsferða. Styrkir eru veittir til ferða sem umsækjandi fer vegna starfa sinna sem höfundur eða til að leita sér menntunar sem slíkur. Einnig má styrkja umsækjanda til þátttöku í námskeiðum og ráðstefnum eða til annars konar fræðslu- og menntunarleitar sem höfundur. Styrkupphæð nemur að hámarki 50 þúsund krónum. Heimilt er að styrkja ferð sem þegar hefur verið farin ef sótt er um innan sex mánaða frá ferðalokum. Sótt er um á rafrænu eyðublaði á heimasíðu RSÍ. Til úthlutunar eru 500.000 kr.

Úthlutunarreglur

Rafrænt umsóknareyðublað

Umsóknarfrestur er t.o.m. 1. júní 2016.


Úthlutanir úr IHM-sjóði

Í samræmi við reglur um ráðstöfun greiðslna frá Innheimtumiðstöð gjalda auglýsir RSÍ hér með eftir umsóknum um fjárframlög úr svonefndum IHM-sjóði Rithöfundasambandsins.

Rétt til úthlutunar úr myndbanda- og geisladiskageira eiga rithöfundar, leikskáld, þýðendur, handritshöfundar og aðrir höfundar ritverka, sem frumflutt hafa verið í sjónvarpi á síðasta og næstsíðasta ári. Um úthlutun geta sótt allir þeir sem telja sig eiga rétt, án tillits til félagsaðildar. Höfundum handrita fræðslu- og heimildarmynda er bent á að sækja um til Hagþenkis – félags höfunda fræðirita og kennslu­gagna.

Með umsóknum fylgi yfirlit um birt verk umsækjanda í sjónvarpi  2014 og 2015, taka skal fram lengd flutnings í mínútum, flutningsstað, dagsetningu flutnings og hlutfall ef höfundar eru fleiri en einn.

Til úthlutunar eru samtals 1.000.000 kr.

Sótt er um á rafrænu umsóknareyðublaði á heimasíðu Rithöfundasambandsins.

Umsóknir skulu berast fyrir 1. júní n.k.

Fylgja

Get every new post delivered to your Inbox.