Rithöfundasamband Íslands

The Writers' Union of Iceland


Kristín R. Thorlacius látin

Amma í ParísKristín R. Thorlacius, rithöfundur, þýðandi og kennari er látin 85 ára að aldri. Kristín Rannveig Thorlacius fæddist 30. mars 1933. Hún varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1953, tók kennarapróf frá Kennaraháskólanum 1980 og bætti síðar við sig námi í bókasafnsfræði og útskrifaðist sem bókasafnskennari frá Háskóla Íslands.

Kristín var kennari við grunnskólann á Lýsuhóli í Staðarsveit 1973- 1994 og bókasafnskennari í Borgarnesi frá 1994 til 2005.

Kristín R. Thorlacius var þekktust fyrir þýðingar sínar á bókum fyrir börn en var einnig afkastamikill þýðandi skáldsagna og fræðibóka. Hún hefur þýtt yfir 50 bækur þar á meðal má nefna allar Narníubækurnar eftir C.S Lewis og Furðulegt háttarlag hunds um nótt eftir Mark Haddon. Hún hefur hlotið fjölmörg verðlaun og viðurkenningar á löngum ferli. Verk sem Kristín sjálf hefur skrifað eru meðal annars Börnin á bæ og saga af kisu, Var það bara svona, Saga um stelpu og Sunna þýðir sól.

Rithöfundasamband Íslands þakkar Kristínu samfylgdina og sendir fjölskyldu hennar samúðarkveðjur.


Nýræktarstyrkir 2018

nyraektarstyrkjaafhending-2018

Benný Sif Ísleifsdóttir, Þorvaldur S. Helgason og Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra.

Miðvikudaginn 30. maí, veitti Miðstöð íslenskra bókmennta tveimur nýjum höfundum Nýræktarstyrki til að styðja við útgáfu á verkum þeirra, en hvor styrkur nemur 400.000 kr. Benný Sif Ísleifsdóttir hlaut styrk fyrir skáldsöguna Gríma og Þorvaldur S. Helgason fyrir ljóðabókina Gangverk. Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, afhenti styrkina við athöfn í Gunnarshúsi, húsi Rithöfundasambandsins.

Þetta er í ellefta sinn sem Nýræktarstyrkjum er úthlutað, en alls hafa rúmlega fimmtíu höfundar hlotið þessa viðurkenningu frá upphafi. Meðal höfunda sem hlotið hafa Nýræktarstyrki á liðnum árum eru Fríða Ísberg, Arngunnur Árnadóttir, Bergur Ebbi Benediktsson, Bryndís Björgvinsdóttir, Dagur Hjartarson, Halldór Armand Ásgeirsson, Kristín Ragna Gunnarsdóttir, Sigurlín Bjarney Gísladóttir og Sverrir Norland.

Nýræktarstyrkir eru veittir árlega til útgáfu á skáldverkum höfunda sem eru að stíga sín fyrstu skref á ritvellinum og hvetja þá með því til frekari dáða á þeirri braut. Átt er við skáldverk í víðri merkingu; sögur, ljóð, leikrit og fleira.

Lesa meira.


Ræða Kristínar Ómarsdóttur við afhendingu Maístjörnunnar

Þetta verður löng ræða sem endar aldrei

Bestu þakkir kæra Landsbókasafn og bestu þakkir Rithöfundasamband Íslands fyrir að veita kóngulóm í sýningarglugga hina yndislegu og fallegu Maístjörnu, takk. Hér niðri á Þjóðdeild vann ég nokkrar umferðir í handritinu, fyrir rúmu ári, tók út ljóð og orti önnur. Takk fyrir aðstöðuna. Hér er gott að vera, lesa og skrifa.

Á Landsbókasafnið við Hverfisgötu kom ég fyrst átján ára og gerði mér ekki grein fyrir hvað lokkaði mig, hverfi ég í huganum þangað veit ég nú að það voru þögnin, lyktin, andaktin, hljóðin þegar stóll var færður til, þegar bókavörðurinn sem sat í hásæti í öðrum salarendanum og las, mjór, í fallegri vestispeysu, stóð upp og hvarf bakvið, þar leit út fyrir að vera hlið inní draum. Hvíslið, lágværar raddir karlkyns. Skúffurnar með spjöldunum sem ég nennti ekki að fletta, kunni aldrei að fletta í, gat ekki lært það, praktískt hef ég fundið á mér að fljótlega þyrfti maður ekki að kunna það. Mjóa konan í fatahenginu sem brosti, hvert smáatriði fatahengisins, síminn á veggnum eða súlunni þar sem maður gat hringt í vin – ég gat kortlagt alla almenningssíma á Stór Reykjavíkursvæðinu á sama tímabili, hvaða sjoppur seldu aðgang að síma og seldu ekki aðgang og tíkallana á símtölunum. Gólfflísarnar og klósettið sem var einsog hvítt garðhýsi eða lystihús.

Þegar ég var 18 nítján ára skólastúlka var ég njósnari (af guðsnáð) – starf sem mér hefði hugnast jafn vel og ritstörf alla vega í órum mínum – á meðan ég las skólabækur njósnaði ég um Einar Kárason sem sat gjarnan við sama borðið yfir hvítu þykku handriti með ritvélastöfum á, ég öfundaði hann – mig langaði að vera með þykkt handrit fyrir framan mig en ég sá ekki fram á að geta samið jafn ótrúlega margar blaðsíður. Græni liturinn í salnum verður alltaf einn uppáhaldslita.

Ég var örugglega óprúttinn njósnari, kunni ekki að skammast mín, átti erfitt með að beizla augnaráðið, gæti hafa eignast heimili í lögreglunni hefði ég haft þörf fyrir að gera réttvísinni gagn, og greiða, haft skoðun og vit á hvað réttast og venjulegast er að aðhafast í flestum málefnum, og þannig helgað líf mitt njósnum – sem ég geri að mörgu leyti – ekið á milli bæjanna í Árneshreppi um daginn og leitað að meintum svonefndum lögheimilisflökkurum sem grunaðir voru um að taka sér stjórnmálafólk til fyrirmyndar og skrá lögheimili á eyðibýlum og öðrum bæjum. En á meðan á aðgerðinni fyrir norðan stóð sat ég uppá Akropólis og ákallaði stríðsgyðjuna sem mælti:

Fátt í heiminum skiptir jafn mikilvægu máli og að elska, minna um vert er að vera elskuð, mest um vert er að elska –

Nú hvað segirðu, mælti ég, ég hélt að ástin væri herfang.

Auðvitað er hún líka herfang – og – elskir þú herfang þitt þarftu ekki að áorka mörgu fleiru á lífsins ferli.

Nú – hm, svaraði ég þegar andvari lavenderblóma strauk vangann.

En hvað ef maður er sjálfur herfang, spurði ég næst.

Snúðu bara útúr, svaraði gyðjan, það er sama aðgerð er herfang elskar og hinn.

Ó – mig langaði til að hlæja en gyðjan vildi græta mig og sagði:

Það er alltaf auðveldast, ódýrast og huglausast að láta einsog fífl en það er of margt annað óhugnanlegra í heiminum, ég hef ekki tíma í hjal –

Ó! Ég hef e e e e e e  lskað – ég e e e e e r – söng andvarinn.

Stjórnmála-

fólk

ljóð

skáld

og

elskhugar

nota tungumálið til að lokka og táldraga – kjósendur, lesendur, elskendur – blekkja, svindla, látast, fíflast, háfleygast – í sömu lotu lofa þau manni sannleikanum – ég verð þín að eilífu. Enginn biður þau samt um að réttlæta list sína og leik með sannleiksvopninu en með einhverjum aðferðum býr maður til þörfina fyrir sig og einhvern tímann f löngu ákvað ég um áramót að heita því að segja alltaf satt – og nú er ég að tala um sjálfa mig sem persónu sem býr ekki í lokuðu herbergi fyrir framan óteljandi dúkkuhús og auðar merkur. Ákvörðunin reyndist heillavænleg. Þegar kom að nýjum áramótum og mér hafði gengið vel að halda heitið í eitt ár, ætlaði ég að fara að slaka á kröfunum, en þörfin fyrir sannleikann var orðin að fíkn, sannleiksást, ég fann enga þörf til tilslakana, með árunum byrjaði ég svo að segja meira satt en nauðsyn bar oft til, svo satt að særði, og nú er reynsla mín önnur: maður verður einmana af því að segja satt – ætli einsemd hverfi eða líði undir lok með lygi?

Þetta var útúrdúr, þetta var útúrdúr með póltitískum boðskap, ég sit enn uppá Akrópólis. Við ætluðum, hélt ég, að ræða hvort ástin væri stríðsrekstur en gyðjan grípur fram í og segir að ég sé líka óvinur minn, blóðflokkarnir þeir sömu, líf mitt njóti góðs af arðráni foringja minna, líf mitt grundvallist á herfangi vinningsliðs og vilji ég breyta því skuli ég stroka út allt sem ég hafi skrifað hingað til og byrja upp á nýtt –

Hm.

Djók.

Ég vil fá að þakka Álfrúnu, Maríu, Vigdísi –  Sigríði /Siggu Rögg, Emilíu og Úu á Forlaginu – Óttari, Þórdísi, Zoe, Yrsu, Ólafi, Árna Birni, Borghildi, Huldu Siggu, Mugga, Sveinbjörgu, Höllu, Gurru, Steinari, Soffíu Dögg, Höllu Dóru, Susan, Grétu, Haraldi, Gunnhildi, Soffíu og freyðivínsklúbbnum, og foreldrum mínum, þau hétu Hrafnhildur og Ómar, og bókin er tileinkuð þeim, Launasjóði rithöfunda og Maístjörnunum Elísabetu, Bergþóru, Eydísi og Jónasi Reyni og öllum hinum ljóðskáldunum í heiminum – öllum – lifandi og dánum – takk fyrir mig – svo vil ég líka fá að þakka hröfnunum á Stór Reykjavíkursvæðinu – á svæðinu eru um tíu hrafnslaupur og ekkert þeirra nýtur verndar, það virðist mega eyðileggja hreiður hrafns ef einhverjum aðila dettur það til hugar. Án fugla verða ekki til ljóð – og ekki bara ljóð – fuglarnir eru aðal fyrirmynd skálda og þeir eru líka lögmætir íbúar landsins, hér er lögheimili þeirra en ekkert ráðuneyti.


Kristín Ómarsdóttir fær Maístjörnuna

Kristin_Omarsd

Rithöfundasamband Íslands og Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn veita verðlaun fyrir ljóðabók sem kom út á árinu 2017. Verðlaunin, sem bera heitið Maístjarnan, voru afhent í annað sinn við hátíðlega athöfn í Þjóðarbókhlöðunni í dag 29. maí.
 
Maístjörnuna fyrir ljóðabók ársins 2017 hlýtur Kristín Ómarsdóttir fyrir ljóðabók sína
Kóngulær í sýningargluggum
 
Í umsögn dómnefndar um verðlaunabókina segir:
 
Danse macabre er miðaldalíking yfir dauðadansinn sem sameinar okkur öll, háa sem lága, unga sem gamla, konur sem karla, og hann stígum við mannfólkið allt okkar líf. Í þróttmikilli ljóðabók Kristínar Ómarsdóttur er stiginn dans af sama tagi, líf og dauði tvinnast saman í köngulóarvef og hvergi er hægt að staldra við fremur en á sjálfri lífsleiðinni, heimurinn er fullur af undrum og óhugnaði, fegurð og ljótleika, völdum og valdaleysi og ótalmörgu öðru. Myndmálið er afar sterkt, stundum allt að því yfirþyrmandi, og ljóðavefur Kristínar heldur okkur föngnum, því hann er samtími okkar sjálfra. Kóngulær í sýningargluggum er afar óvenjuleg, einstaklega sterk og ögrandi ljóðabók og allar líkingar og lýsingar opna nýjar víddir og nýja sýn á heiminn.“
Kristín Ómarsdóttir er fædd 24. september 1962 í Reykjavík. Hún lauk stúdentsprófi frá Flensborg í Hafnarfirði 1981 og stundaði síðan nám í íslensku, almennri bókmenntafræði og spænsku við Háskóla Íslands. Kristín hefur dvalist í Kaupmannahöfn og Barcelona en býr nú og starfar í Reykjavík. Kristín hefur jöfnum höndum fengist við ljóða- og skáldsagnagerð, smásögur og leikritun. Hún hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir verk sín. Skáldsagan Elskan mín ég dey var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 1999 og fékk Menningarverðlaun DV sama ár. Leikrit hennar, Ástarsaga 3, var tilnefnt til Norrænu leikskáldaverðlaunanna. Árið 2005 fékk hún Grímuverðlaunin, sem leikskáld ársins, fyrir leikritið Segðu mér allt. Fyrir ljóðabókina Sjáðu fegurð þína hlaut hún Fjöruverðlaunin í flokki fagurbókmennta árið 2008. Skáldsagan Flækingurinn var tilnefnd til Menningarverðlauna DV 2015. Kóngulær í sýningargluggum var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2017 en Kristín var líka tilnefnd 2012 fyrir Millu, 1997 fyrir Elskan mín ég dey og 1995 fyrir Dyrnar þröngu. Kristín hefur einnig unnið að myndlist, sýnt teikningar sínar og tekið þátt í sýningum þar sem hún hefur unnið með ólík form: myndbönd og skúlptúra. Bækur eftir Kristínu hafa verið þýddar á sænsku, frönsku og finnsku og ljóð hennar hafa birst í erlendum safnritum.
Gjaldgengar voru allar útgefnar íslenskar ljóðabækur ársins 2017 sem skilað var til Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns. Í dómnefnd sátu Magnea J. Matthíasdóttir tilnefnd af Rithöfundasambandinu og Rannver H. Hannesson tilnefndur af Landsbókasafni Íslands – Háskólasafni.
 
Tilnefndar voru bækurnar:
Án tillits eftir Eydísi Blöndal í útgáfu höfundar;
Dauðinn í veiðarfæraskúrnum eftir Elísabetu Kristínu Jökulsdóttur sem Viti menn gaf út;
Flórída eftir Bergþóru Snæbjörnsdóttur sem  Benedikt bókaútgáfa gaf út;
Kóngulær í sýningargluggum eftir Kristínu Ómarsdóttir sem JPV útgáfa gaf út.
Stór olíuskip eftir Jónas Reyni Gunnarsson í útgáfu Partus
 


Hádegisfundur 29. maí kl. 12.00 í Gunnarshúsi

Halldóra Jónsdóttir, Steinþór Steingrímsson og Kristín Bjarnadóttir frá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum kynna nýja vefgátt sem stofnunin opnaði fyrir skemmstu, http://málið.is. Þar er að finna á einum stað upplýsingar um íslenskt mál í sjö ólíkum gagnasöfnum, sem eru Beygingarlýsing íslensks nútímamáls, Stafsetningarorðabók, Íslensk nútímamálsorðabók, Íslenskt orðanet, Málfarsbankinn, Íðorðabankinn og Íslensk orðsifjabók. Þau munu einnig kynna aðra gagnlega vefi, m.a. Risamálheild sem opnuð var í 4. maí sl., sjá http://malheildir.arnastofnun.is.

safe_image


Vorvindar IBBY

img_3473

Sunnudaginn 13. maí veitti Íslandsdeild IBBY sínar árlegu viðurkenningar fyrir framlög til barnamenningar, Vorvinda, við athöfn í Gunnarshúsi, húsi Rithöfundasambands Íslands.

Vorvindum er ætlað að vekja athygli á verkum og starfsemi sem hleypir ferskum og endurnærandi vindum inn í íslenska barnamenningu. Að þessu sinni voru Vorvindahafarnir fjórir.

Bókaráð Hagaskóla hlaut Vorvinda fyrir framlag sitt til barnamenningar. Bókaráð Hagaskóla samanstendur af 15 nemendum úr unglingadeild Hagaskóla. Ráðið stóð fyrir málþingi fyrr í vetur, Barnið vex en bókin ekki, sem sýndi fram á tilfinnanlegan skort á barna- og unglingabókum á íslensku. Fjölmargir sóttu þingið, meðal annars menntamálaráðherra Íslands sem í kjölfar málþingsins boðaði til aðgerða og setti á fót sérstakan styrktarsjóð til handa barnabókaútgáfu.

Lestrarvinir hlutu Vorvinda fyrir starf sitt. Lestrarvinir leiða saman sjálfboðaliða annars vegar og börn sem þurfa á aðstoð að halda við lestur og fjölskyldur þeirra hins vegar. Sjálfboðaliðarnir lesa fyrir börnin á heimilum þeirra og fara með þeim á bókasöfn.

Sævar Helgi Bragason hlaut Vorvinda fyrir að miðla fróðleik til barna- og unglinga af mikilli eljusemi, ástríðu og fórnfýsi. Þetta gerir hann á hinum ýmsu miðlum en er jafnframt alltaf boðinn og búinn að svara öllum spurningum barna og unglinga, halda fyrirlestra í skólum og hvar þar sem fróðleiksþyrst börn koma saman.

Ævar Þór Benediktsson hlaut Vorvinda fyrir lestrarátak Ævars vísindamanns. Hann hefur staðið fyrir einstökum og metnaðarfullum lestrarátökum árlega síðan árið 2014. Þetta eljusama og fágæta framtak Ævars hefur skilað sér í því að börn á Íslandi hafa lesið 230 þúsund bækur í fjórum lestrarátökum.

Íslandsdeild IBBY óskar verðlaunahöfum til hamingju og hvetur þá alla til frekari dáða.