Rithöfundasamband Íslands

The Writers' Union of Iceland


Höfundakvöld í Gunnarshúsi – Álfrún Gunnlaugsdóttir

alfrun

Höfundakvöld í Gunnarshúsi fimmtudaginn 27. október kl. 20.00 er helgað Álfrúnu Gunnlaugsdóttur sem í haust sendir frá sér nýja skáldsögu: Fórnarleikar.

Skáldsaga frá Álfrúnu sætir alltaf miklum tíðindum. Álfrún hefur fyrir löngu skipað sér í fremstu röð íslenskra rithöfunda. Fyrsta skáldverk hennar, smásagnasafnið Af manna völdum, kom út 1982 og sló strax sérstakan tón. Síðan hefur hún sent frá sér sex skáldsögur, Þel (1984), Hringsól (1987), Hvatt að rúnum (1993), Yfir Ebrófljótið (2001), Rán (2008) og Siglingin um síkin (2012). Hún er menntuð í bókmenntafræði á Spáni og í Sviss, var fyrsti kennarinn í nýrri deild, Almennri bókmenntafræði, við Háskóla Íslands og kenndi þar um langt árabil.

Spjallað verður við Álfrúnu um verk hennar, um lífið og tilveruna, um heima og geima, frásagnarlist og fagurfræði, um skáldskap og stjórnmál, um Spán þar sem hún hefur mikið dvalist, um Ísland og íslenskt samfélag, um hvað sem helst, en þó aðallega um nýju skáldsöguna sem á eftir að gleðja mjög alla dygga lesendur Álfrúnar og ekki síður þá sem eiga eftir að uppgötva hana.

Í hléi verður boðið upp á spænskt að narta í og hvítvín að sötra.

Eftir hlé verður opnað (upp í hálfa gátt) fyrir spurningar úr sal en þar sem heyrnarskynið er ekki skilningarvitið sem höfundarnæmi Álfrúnar Gunnlaugsdóttur reiðir sig mest á er vel þegið ef salurinn er til í að varpa fram spurningum sínum og því sem honum liggur á hjarta og vill vita hér á vegginn fyrirfram eða í einkaskilaboðum til umsónarmanns.

Umsjónarmaður er Hermann Stefánsson.

Allir velkomnir.


Ljóðstafur Jóns úr Vör

JonurVor

 

Óskað eftir ljóðum í ljóðasamkeppni

Lista- og menningarráð Kópavogsbæjar efnir í sextánda sinn til árlegu ljóðasamkeppninnar um Ljóðstaf Jóns úr Vör.

Skilafrestur í keppnina er til og með 12. desember og skal ljóðum skilað með dulnefni. Hverju ljóði skal fylgja umslag merkt með dulnefninu sem inniheldur upplýsingar um nafn, heimilisfang og símanúmer skáldsins. Einungis umslög sem tilheyra ljóðum sem fá verðlaun eða viðurkenningu verða opnuð og öllum gögnum verður fargað að keppni lokinni. Athugið að ljóðin mega ekki hafa birst áður.

Greint verður frá niðurstöðum samkeppninnar og verðlaun veitt 21. janúar 2017. Þann dag verða 100 ár liðin frá fæðingu skáldsins sem bjó nálega allan sinn starfsaldur í Kópavogi. Verðlaunaafhendingin er hluti af Dögum ljóðsins í Kópavogi, árlegri ljóðahátíð sem hefur þann tilgang að efla og vekja áhuga á íslenskri ljóðlist. Núverandi handhafi Ljóðstafins er Dagur Hjartarson skáld.

Utanáskrift:

Ljóðstafur Jóns úr Vör
Menningarhús Kópavogs
Fannborg 2
200 Kópavogur


Höfundakvöld í Gunnarshúsi helgað Látra-Björgu í samtímanum

latra-bjorgHöfundakvöld í Gunnarshúsi fimmtudaginn 20. október verður helgað Látra-Björgu (1716-1784) og sterkri innkomu hennar hennar á 300 ára afmæli sínu sem er í ár. Umsjónarmaður höfundakvöldsins er Halldóra Thoroddsen, ljóðskáld, smáprósa- og skáldsagnahöfundur.

Höfundar og kvæðamenn:

Valgarður Egilsson, sem árið 2014 sendi frá sér bókina Steinaldarveislan þar sem Látra-Björg og hennar heimaslóðir koma við sögu. Valgarður hefur sent frá sér fjölda skáldverka og til margra ára farið sem leiðsögumaður frá heimaslóðum sínum um Látraströnd og Fjörður, enda manna fróðastur um lífið þar.

Sigurlín Bjarney, sem í haust sendir frá sér ljóðabókina Tungusól og nokkrir dagar í maí, sem skiptist í þrjá hluta en í þeim fyrsta birtist okkur kraftaskáldið Látra-Björg í ímyndaðri dagbók. Sigurlín Bjarney hefur vakið athygli fyrir ljóðabækur sínar, örsögur og smásögur. Hún er búsett í Svíþjóð og kemur fram í gegnum Skype.

Hermann Stefánsson, sem í haust sendir frá sér skáldsöguna Bjargræði sem hefur Látra-Björgu að sögumanni og geymir fjölda kvæða hennar. Hermann hefur gefið út fjölda skáldverka og lærir nú til kvæðamanns.

Ragnheiður Ólafsdóttir kveður rímur við kvæði Látra-Bjargar. Ragnheiður er söngkona og doktor í rímnahefðinni.

Hugsanlegur leynigestur, ef lukkunni og Skype þóknast, er Heimir Freyr Hlöðversson sem vinnur að gerð heimildamyndar um Látra-Björgu.

Í hléi er ætlunin að bjóða upp á kæstan hákarl og eitt lítið brennivínsstaup.

Dagskráin hefst kl. 20.00. Allir velkomnir.


Málþing – Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO fimm ára.

bokmenntaborgReykjavík fagnar fimm ára afmæli sem Bókmenntaborg UNESCO nú í haust. Af því tilefni efnir Bókmenntaborgin til málþings um gildi orðlistar í samfélaginu í samvinnu við Rithöfundasamband Íslands. Þingið er haldið í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur miðvikudaginn 19. október frá kl. 13 – 16 og er það öllum opið. Ekkert þátttökugjald.

Rithöfundar, fræðimenn, útgefendur, fjölmiðlafólk og lesendur taka til máls og ræða um orðlist í víðu samhengi. Hvaða máli skiptir það okkur sem samfélag að hlúa vel að orðlist og hvernig stöndum við okkur í þessu hlutverki í dag? Hvað gerum við vel og hvað getum við gert betur? Erum við bókmenntaþjóð? Hverskonar sögueyja er Ísland? Rætt verður um tilganginn og markmiðin, gildi orðlistar í samfélaginu og framtíðarhorfur texta og tungumáls. Hlúum við að bókmenntunum eða eru þær að hverfa sem áhrifavaldur og annað að koma í staðinn? Hvernig bregðast þá bókmenntaheimurinn, samfélagið og valdhafar við? Uppskurður, krufning, umræður.

DAGSKRÁ:

13:00
Setning
Svanhildur Konráðsdóttir, sviðsstjóri Menningar- og ferðamálasviðs Reykjavíkur, setur þingið.

13:10
Brynhildur Þórarinsdóttir, dósent: Bókaormar – dýrategund í útrýmingarhættu?
Íslenskir krakkar lesa of lítið, of sjaldan og lesskilningi þeirra hrakar. Allt of stór hópur les ekki neitt utan skólans og varla skólabækurnar heldur. Kennarar, rithöfundar og ráðamenn hafa áhyggjur; hvers konar bókaþjóð er það sem ekki getur alið upp lesendur? Orðræðan er hvöss: drengirnir geta ekki einu sinni lesið sér til gagns. En hver er staðan í raun og veru – hversu hátt hlutfall barna hafnar bókum? Og hvar standa bókaormarnir þegar athyglin beinist öll að bókleysingjunum? Rætt verður um niðurstöður rannsókna á lestrarvenjum barna og leiðir til að nýta þær til gagns og gleði.

13:30
Eliza Reid, forsetafrú og stofnandi Iceland Writers Retreat Retreat: Ísland sem skapandi fyrirmynd skrifandi fólks.
Flestir Íslendingar vita hvaða þýðingu bókmenntaarfurinn hefur fyrir þjóðina. En hvernig horfir hann við gestum og aðkomumönnum? Fornsögurnar hafa löngum laðað til landsins ferðamenn sem koma hingað til á slóðir fornkappa á borð við Gretti Ásmundarson og Egil Skallagrímsson en færri þekkja til íslenskra nútímahöfunda og þess hve mikils Íslendingar meta hvaðeina sem tengist bókmenntum. Eliza fjallar um bókmenntaarf Íslendinga frá sjónarmiði aðkomumanns: Hvað felst í „bókmenntaheimi“ Íslendinga? Hvað gerir hann einstakan í samanburði við bókmenntahefðir annarra landa? Og á hvað ættum við að leggja áherslu þegar við kynnum þennan arf fyrir gestum?

13:50
Hildur Knútsdóttir , rithöfundur – Orð um raunveruleikann.
Hugleiðing um orðaforða – mikilvægi þess að geta orðað hugsanir sínar, flóknar tilfinningar og allt það sem býr í ímyndunaraflinu.

14:10
Valgerður Þóroddsdóttir, skáld og útgefandi: Enginn er eyland: öll list er samstarf (þegar vel tekst til).
Valgerður, sem er stofnandi forlagsins Partusar, flytur erindi um mikilvægi samstarfs í listum og þá sérstaklega bókmenntaheiminum þar sem samvinna, oftast bak við tjöldin, getur skipt sköpum í sköpun.

14:20
Kaffi

14:40
FRESITO
Ásta Fanney Sigurðardóttir og Kött Grá Pje skemmta gestum

14.50
Já, er það ekki! – Pallborðsumræður.
Brynhildur Þórarinsdóttir, Hallgrímur Helgason, Jórunn Sigurðardóttir og Magnús Guðmundsson tala um stöðu orðlistar í íslensku samfélagi, gildi hennar, miðlun og framtíðarhorfur.
Pallborðsstjóri er Kristín Helga Gunnarsdóttir.

15:30
Ragnhildur Hólmgeirsdóttir – Játningar lestrarfíkils
Íslendingar eru mjög á varðbergi gagnvart hvers kyns fíknum, við erum of fíkin í áfengi, hass, mat, klám, samfélagsmiðla og tölvuleiki, sumsé alls konar skemmtilega hluti. Við erum alveg jafn vel meðvituð um þetta vandamál og þá staðreynd að við lesum alls ekki nógu mikið. Hvernig lenti lesturinn í hóp með leiðinlegum hlutum á borð við megranir, sem við gerum einhvern veginn aldrei nóg af? Heimspekilegar hugleiðingar í bland við vandræðalegar játningar manneskju sem hefur stundað óheilbrigðan bókalestur í tvo áratugi.

15:40
Samantekt fundarstjóra, Svanhildar Konráðsdóttur.

16:00
Borgarstjóri, Dagur B. Eggertsson, ávarpar samkomuna.
Veitingar.


Íslensku barnabókaverðlaunin 2016

inga-beck

Inga M. Beck

Inga M. Beck hlýtur Íslensku barnabókaverðlaunin 2016 fyrir bókina Skóladraugurinn (2016).

Skóladraugurinn er fyrsta bók Ingu. Sagan segir frá fyrsta degi Gunnvarar í nýjum skóla þar sem hún heyrir söguna um skóladrauginn, sögu sem allir nemendur í skólanum hafa heyrt en enginn tekur mark á. En Gunnvör sperrir eyrun. Það kemur sér nefnilega vel fyrir hana ef draugar eru til í alvörunni.

Í umsögn dómnefndar segir að bókin sé í senn spennandi draugasaga og trúverðug lýsing á barni sem misst hafi ástvin.

Íslensku barnabókaverðlaunin eru handritasamkeppni og eru veitt í þrítugasta sinn.


Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar

tomas2016

Eyrún Ósk Jónsdóttir, rithöfundur og skáld hlaut  Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar fyrir ljóðahandritið Góðfúslegt leyfi til sígarettukaupa. Verðlaunin voru afhent við hátíðlega athöfn í Höfða. Eyrún hefur skrifað fjölda leikrita sem hafa verið sett upp í leikhúsum hérlendis og erlendis auk þess hefur hún skrifað kvikmyndahandrit. Hún hefur áður sent frá sér þrjár skáldsögur og tvær ljóðabækur. Verðlaunin nema 700 þúsund krónum. Fyrstu eintök af bókinni komu úr prentun hjá útgáfu Bjarts


Danskt haust

denmark-1220x550

Alþjóðlega menningarhátíðin, Danskt haust, verður haldin dagana 12.-16. október næstkomandi  í Reykjavík og á Selfossi.

Fjöldi lista- og fræðimanna koma í heimsókn frá Danmörku þar sem þeir eru búsettir. Gestir okkar eru samt af ýmsu þjóðerni, ættuð frá Trínidad, Englandi, Bandaríkjunum, Íslandi og Grænlandi.

Til liðs við gestina koma svo nokkur íslensk skáld og listamenn. Hátíðin er haldin að frumkvæði Önnu S. Björnsdóttur og Þórs Stefánssonar með stuðningi Norræna hússins, Norrænu félagaanna í Reykjavík og á Selfossi og Rithöfundasambans Íslands. Auk þeirra hefur veitir sendiráðið hátíðinni stuðning.

Ókeypis aðgangur er að öllum viðburðum hátíðarinnar.

 

Danskt haust

Heimsókn danskra skálda, listamanna og fræðimanna

Dagskrá 12.-16. október 2016

Miðvikud. 12. okt. kl. 17 -19 í Norræna félaginu við Óðinstorg: Opnun myndlistarsýningar Önnu Gunnarsdóttir, Jesper Dalmose og Lennox Raphael og stendur hún til 19. október

 Fimmtud. 13. okt. kl. 17-19 í anddyri Norræna hússins: Opnun málverkasýningar Ole Bundgaard og Sigurðar Þóris.

Ole spilar nokkur lög á saxófón.

Fimmtud. 13. okt. kl. 20-22 í sal Norræna hússins: Danskt ljóðakvöld með Karsten Bjarnholt, Cindy Lynn Brown, Ole Bundgaard, Jon Høyer og Lennox Raphael.

Íslensk skáld lesa úr verkum sínum útgefnum  í Danmörku: Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson,  Anna S. Björnsdóttir, Einar Már Guðmundsson og Þór Stefánsson.

Jesper Dalmose sýnir vídeó-list.

Tónlist með Ole Bundgaard ásamt Aðalsteini Ásberg Sigurðssyni, Birgi Svan Símonarsyni, Oddi Inga Þórssyni Huldusyni og Valgeiri Gestssyni, Þorvaldi Erni Árnasyni og Ragnheiði E. Jónsdóttur og Eyþrúði Þorvaldsdóttur.

Föstud. 14. okt. kl. 17-18 í Gunnarshúsi: Jon Høyer og Anne Marie Têtevide ræða bækur sínar um miðaldir á Íslandi og í Danmörku.

Föstud. 14. okt. kl. 18-20 í Gunnarshúsi: Kvöldverður með gestunum.

Föstud. 14. okt. kl. 20-22 í Gunnarshúsi: Blönduð dagskrá með ljóðum tónlist og vídeó-list á dönsku, ensku og íslensku með: Aðalsteini Ásberg Sigurðssyni,  Önnu S. Björnsdóttur, Birgi Svan Símonarsyni, Karsten Bjarnholt, Cindy Lynn Brown, Ole Bundgaard, Jesper Dalmose, Einari Má Guðmundssyni,  Jon Høyer, Oddi Inga Þórssyni Huldusyni og Valgeiri Gestssyni, Lennox Raphael, Þorvaldi Erni Árnasyni og Ragnheiði E. Jónsdóttur og Eyþrúði Þorvaldsdóttur og Þór Stefánssyni.

Laugard. 15. okt. kl. 14-15 í sal Norræna hússins: Fyrirlestur Anne-Marie Gjedde Olsen um grænlenska/danska list. 

Laugard. 15. okt. kl. 15-16 í sal Norræna hússins: Fyrirlestur Jesper Dalmose og Lennox Raphael

Laugard. 15. okt. kl. 16-17 í sal Norræna hússins: Fyrirlestur Katrin Hjort í samvinnu við Háskóla Íslands.

Sunnud. 16. okt. kl. 15-17, Norræna félagið, Selfossi: Blönduð dagskrá með ljóðum tónlist og vídeó-list á dönsku, ensku og íslensku með: Aðalsteini Ásberg Sigurðssyni,  Önnu S. Björnsdóttur, Birgi Svan Símonarsyni, Karsten Bjarnholt, Cindy Lynn Brown, Ole Bundgaard, Jesper Dalmose, Jon Høyer, Oddi Inga Þórssyni Huldusyni, Lennox Raphael, Þorvaldi Erni Árnasyni og Ragnheiði E. Jónsdóttur og Eyþrúði Þorvaldsdóttur og Þór Stefánssyni.