Rithöfundasamband Íslands

The Writers' Union of Iceland


Jæja frá formanni

Jæja, kæru félagar.

Gunnarshús iðar af lífi. Höfundar halda hér útgáfuteiti og standa fyrir eigin uppákomum. Þannig er félagsheimilið í fullri notkun. Við höfum líka tekið upp þá nýbreytni að halda stutta og snarpa fundi í hádeginu um mál sem brenna á fólki. Við héldum tvo upplýsandi hádegisfundi um hljóðbækur á haustdögum og nýverið komum við saman í hádeginu til að ræða um taxta vegna upplestra og brýna fyrir höfundum að taka laun fyrir vinnu sína. Í kjölfarið höfum við staðið fyrir átaki þar sem við hvetjum fyrirtæki, félög og stofnanir til að greiða höfundum fyrir upplestra auk þess sem við höfum sent áminningu til grunnskóla um greiðslur til höfunda og gjaldskrá. Þá höfum við hrint af stað verkefninu Bókaveisla barnanna, en þar gefst félagsmönnum tækifæri til að skrá sig með bókartitil á lista sem sendur er á grunnskólana. Minnt er á gildi þess að fá höfunda í heimsókn og að auki vísað í gjaldskrá RSÍ. Er það von okkar að þetta geti orðið árleg sending frá RSÍ og markmiðið er að auðvelda aðgengi að höfundum og greiða leiðir bókmenntanna inn í skólana.

Framkvæmdastjórinn fór á dögunum utan til fundar við fulltrúa bókasafnssjóða höfunda um víða veröld. Þar var mál manna að staða norrænu sjóðanna væri góð miðað við önnur lönd. Víða er hart sótt að höfundaréttinum og því ljóst að aðilar samtaka um bókasafnssjóði þurfa að standa enn þéttar vörðinn og gæta að hagsmunum höfunda þegar margir seilast eftir réttindum þeirra.

Hér heima þokast samningar. Þriggja manna nefnd RSÍ hefur um langa hríð glímt við að lenda samningum við RÚV um sjónvarp, útvarp og stafræna miðlun. Þeirri vinnu miðar ágætlega undir stjórn lögmanns RSÍ, Sigríðar Rutar Júlíusdóttur. Verið er að undirbúa lokasamningalotu sem vonast er til að geti hafist innan skamms.

Verkefnið Skáld í skólum gekk vel þetta haustið. Níu höfundar fóru í 75 skólaheimsóknir á öllum grunnskólastigum með sögur og ljóð, rapp og höfundasmiðjur.

Stóra verkefnið á skrifstofunni þessa dagana eru launaútreikningar. Unnið er að kortlagningu á kjörum rithöfunda. Markmiðið með þessari vinnu er að vera tilbúin með upplýsingapakka og vel nestuð fyrir viðræður við næsta menntamálaráðherra.

Að lokum ber að geta þess að nefnd um bókmenningarstefnu mun skila af sér tillögum til menntamálaráðherra fyrir 1. desember næstkomandi. Nefndarmenn eru nokkuð sammála og einhuga um hvað gera þarf til að styðja við og styrkja tungumál, læsi og bókmenningu þjóðar. RSÍ talar fyrir hugmyndum eins og innkaupastefnu fyrir bókasöfnin að norskri fyrirmynd, stuðningi við útgáfu myndskreyttra barnabóka, og kraftmikilli innspýtingu í Bókasafnssjóð höfunda og launasjóð rithöfunda. Stoðkerfið er til staðar, en stórauka þarf fjárframlögin eftir langtíma svelti svo bókmenntirnar blómstri.

RSÍ og FÍBÚT stóðu saman að fjölmennum fundi með frambjóðendum í Safnahúsinu um aðgerðir til bjargar tungumáli og bókmenntum nú fyrir kosningar. Krafa um afnám virðisaukaskatts af bókum virðist orðin að þverpólitísku verkefni og það verður ánægjulegt að fylgjast með nýrri ríkisstjórn sem lætur það verða sitt fyrsta verk að afnema skattinn.

Að þessu sögðu er rétt að minna á jólaboðið hér í húsi. Það er nú ekki lítið mikilvægt að hafa gaman af þessu! Boðið verður haldið þann fjórtánda desember næstkomandi og  það er skyldumæting kl. 17:00.

Njótið daganna, Kristín Helga


Höfundakvöld í Gunnarshúsi – Borgþór Kjærnested og Þorgrímur Gestsson

 

Slide1

Miðvikudaginn 22. nóvember munu Borgþór Kjærnested og Þorgrímur Gestsson ræða nýjar bækur sína í Gunnarshúsi.

Borgþór Kjærnested sendir nú frá sér Milli steins og sleggju – saga Finnlands og Þorgrímur Gestsson sendir frá sér bókina Færeyjar út úr þokunni.

Íslendingar hafa löngum dáðst að herfengi og þrautseigju Finna við að verja frelsi sitt og sjálfstæði frammi fyrir ofurefli. Samt hefur okkur hingað til skort aðgengilegar heimildir um þá örlagaríku sögu á íslensku. Bók Borgþórs Kjærnested, Milli steins og sleggju – saga Finnlands, bætir því úr brýnni þörf. Í þeim skilningi er þetta brautryðjandaverk. „Það er síst ofmælt að saga Finna sé örlagarík. Frásögn Borgþórs af tvísýnni sjálfstæðisbaráttu finnsku þjóðarinnar á árum fyrri heimsstyrjaldar og ógæfu borgarastríðsins í kjölfarið, er lærdómsrík. Vetrarstríðið – þegar Finnar stóðu einir í heiminum frammi fyrir ofurefli Rauða hersins – og unnu varnarsigur – eina þjóðin í Evrópu, fyrir utan Breta, sem tókst að hrinda innrás kommúnista og nasista af höndum sér og varðveita sjálfstæði sitt. Þetta segir meira en mörg orð um skapstyrk og æðruleysi finnsku þjóðarinnar þegar á reyndi á ögurstund.“ Segir í bókarkynningu.

 Færeyjar út úr þokunni er þriðja bók Þorgríms Gestssonar um ferðir hans um slóðir fornsagna. Ferð um fornar sögur, sem kom út 2003, fjallar um ferð um slóðir Heimskringlu í Noregi, Í kjölfar jarla og konunga, sem kom út 2014, fjallar um ferðir hans um slóðir Orkneyingasögu í Orkneyjum og á Hjaltlandi.  Í nýjustu bókinni fer Þorgrímur um söguslóðir í Færeyjum, með Færeyingasögu í farteskinu, en sökum skyldleika Færeyinga og Íslendinga og þess hve stutt er á milli þessara eyja lætur hann ekki nægja að ferðast um fornsöguna heldur lagði í ferðalag um sögu Noregs og Norðurlanda frá þeim tíma þegar Færeyingasögu lýkur. Í síðasta hluta bókarinnar fer hann um menningar- og stjórnmálasögu Færeyja og léttir ekki ferðinni fyrr en í samtíma okkar, nánar tiltekið haustið 2015, þegar hann sigldi síðast með Norrænu frá Tórshavn, áleiðis til Seyðisfjarðar. Þorgrímur Gestsson var blaðamaður og fréttamaður með stuttum hléum frá árinu 1968 til 1995 en hefur frá þeim tíma stundað ritstörf á eigin vegum.

Miðvikudagur 22. nóv. kl. 20 í Gunnarshúsi, Dyngjuvegi 8


Höfundakvöld í Gunnarshúsi – Ármann Jakobsson og Oddný Eir Ævarsdóttir

mynd

Fimmtudaginn 16. nóvember munu Oddný Eir Ævarsdóttir og Ármann Jakobsson ræða nýjar bækur sínar í Gunnarshúsi.

Ármann Jakobsson sendir nú frá sér skáldsöguna Brotamynd.
Oddný Eir Ævarsdóttir sendir frá sér skáldsöguna Undirferli.

Lára Magnúsardóttir stjórnar umræðum og spyr höfundana spjörum úr. En þau Ármann og Oddný munu einnig lesa upp úr bókum sínum og ræða við Láru og gesti um bókmenntir, lífið og listina.

Fimmtudagur 16. nóv. kl. 20 í Gunnarshúsi, Dyngjuvegi 8, 104 Reykjavík.

Aðgangur er öllum opinn og ókeypis. Í boði eru hóflegar veitingar og óhóflegar bókmenntasamræður.


Höfundakvöld í Gunnarshúsi – FÍSL á föstudagskvöldi

Slide1

FÍSL, félag íslenskra skálda í Lillehammer, heldur upplestrarkvöld föstudag 10. nóvember kl. 20.00. Stofnfélagar FÍSLar, þeir Stefán Snævarr og Sveinbjörn I. Baldvinsson, auk heiðursfélagans Bubba Morthens, lesa upp úr nýútkomnum bókum sínum. Stefán úr tilraunaskáldsögu sinni Bókasafninu, Sveinbjörn úr ljóðasafni sínu Lífdögum og Bubbi úr nýju ljóðabókinni sinni Hreistur.

Sérstakir gestir kvöldsins verða þeir Þorgrímur Kári Snævarr og Finnur Sigurjón. Þorgrímur les úr skáldsögu sinni Sköglu, Finnur flytur tónlist. Kynnir kvöldsins verður Símon Jón Jóhannsson.

Bækur höfundanna verða til sölu á vildarverði. Frítt inn og allir velkomnir!


Huldar Breiðfjörð gegnir starfi Jónasar Hallgrímssonar í ritlist 2017–18

huldar_breidfjord

Huldar Breiðfjörð gegnir starfi Jónasar Hallgrímssonar í ritlist við Hugvísindasvið Háskóla Íslands veturinn 2017–18. Huldar mun vinna að kvikmyndahandritsgerð með meistaranemum í ritlist.

Stofnað var til starfs Jónasar Hallgrímssonar í ritlist árið 2015 með það fyrir augum að gera íslenskum rithöfundum kleift að starfa með ritlistarnemum. Áður hafa þau Sigurður Pálsson, Vilborg Davíðsdóttir og Hlín Agnarsdóttir gegnt starfinu.

Huldar er fæddur í Reykjavík árið 1972. Hann nam almenna bókmenntafræði við Háskóla Íslands og kvikmyndagerð og leikstjórn við The New York University Tisch School of the Arts. Huldar er þekktur jafnt sem rithöfundur og kvikmyndagerðarmaður. Hann sló í gegn árið 1998 með bókinni Góðir Íslendingar sem var tilnefnd bæði til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Menningarverðlauna DV. Þeirri bók fylgdi hann eftir með ferðabókunum Múrinn í Kína (2004) og Færeyskur dansur (2012). Huldar hefur einnig skrifað leikrit og handrit að nokkrum kvikmyndum. Þar má nefna París norðursins og hina geysivinsælu kvikmynd Undir trénu sem hann skrifaði ásamt Hafsteini Gunnari Sigurðssyni.