Rithöfundasamband Íslands

The Writers' Union of Iceland


Heiðursfélagi og fyrrverandi formaður Rithöfundasambands Íslands er fallinn frá

formenn 010
Sigurður Pálsson skáld er látinn eftir erfið veikindi, 69 ára að aldri. Sigurður var heiðursfélagi Rithöfundasambands Íslands og formaður þess 1984 – 1988.

Sigurður fæddist á Skinnastað í Axarfirði 30. júlí 1948. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík og nam leikhúsfræði og bókmenntir í Sorbonne og lauk þaðan maîtrise-gráðu og D.E.A. (fyrri hluti doktorsgráðu). Sigurður kenndi við Leiklistarskóla Íslands 1975–1978 en hefur síðustu ár sinnt kennslu við ritlistardeild Háskóla Íslands. Fyrsta ljóðabók Sigurðar, Ljóð vega salt, kom út árið 1975. Ljóðabókin Ljóð námu völd var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 1993, Sigurður hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir Minnisbók árið 2007 og hafði þá áður verið tilnefndur fyrir ljóðabækurnar Ljóðlínuskip (1995) og Ljóðtímaleit (2001). Sigurður hefur einnig ritað skáldsögur og fengist við leikritasmíð, skrifað sjónvarps- og útvarpshandrit og óperutexta. Sigurður var jafnframt afburða þýðandi og á síðasta ári kom út Uppljómanir & Árstíð í helvíti eftir Arthur Rimbaud sem Sigurður þýddi ásamt Sölva Birni Sigurðssyni og í byrjun árs 2018 er væntanleg önnur þýðing Sigurðar á verki eftir Nóbelsverðlaunahöfundinn Patrick Modiano, Dora Bruder.

Sigurður var borgarlistamaður Reykjavíkurborgar á tímabilinu 1987-1990, var veittur riddarakross Orðu lista og bókmennta (Chevalier de l’Ordre des Arts et des Lettres) af menningarmálaráðherra Frakklands árið 1990, og Frakklandsforseti sæmdi hann riddarakrossi Frönsku heiðursorðunnar (Chevalier l’Ordre National du Mérite) árið 2007. Hann hlaut verðlaun Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu 2016. Í maí s.l. hlaut Sigurður, fyrstur manna, Maístjörnuna verðlaun Rithöfundasambands Íslands og Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns fyrir ljóðabókina Ljóð muna rödd. Hún hefur nú verið þýdd á dönsku og norsku og er útgáfa í þeim löndum væntanleg. Úrval ljóða hans, Mit hus, kom út hjá danska bókaforlaginu Vandkunsten í vor og hefur það að geyma ljóð úr 15 bókum Sigurðar sem komu út á árunum 1975 til 2012 í þýðingu Erik Skyum Nielsen.

Við afhendingu Maistjörnunnar vorið 2017 flutti Sigurður eftirminnilega ræðu og sagði meðal annars: „Ljóðlistin er innri rödd bókmenntanna. … Rödd ljóðsins er rödd mennskunnar sem aldrei gefst upp í heimi sem böðlast áfram. Rödd friðar í ofbeldisdýrkandi heimi. … En umfram allt er rödd ljóðsins hin heilaga innri rödd hvers og eins, röddin sem gerir okkur að einstaklingum í samfélagi annarra.“

Rithöfundasambandið þakkar Sigurði samfylgdina og dýrmæta leiðsögn og sendir fjölskyldu hans hugheilar samúðarkveðjur.


Franziscustofa laus!

Rithöfundasambandið býður vinnuaðstöðu í Gunnarshúsi til leigu fyrir félagsmenn á hóflegu verði, frá 20.000 kr. á mánuði, og getur leigutíminn verið til eins árs í senn með möguleika á endurnýjun samnings eða eftir samkomulagi. Innifalið er aðgangur að eldhúsi, borðstofu, þráðlausu neti og aðstöðu til fundahalda. Áhugasamir hafi samband í síma 568 3190 eða með tölvupósti á tinna@rsi.is.


Ferðastyrkir – umsóknarfrestur til 3. október

Rithöfundasamband Íslands veitir félagsmönnum ferðastyrki til utanlandsferða úr Höfundasjóði RSÍ. Rétt til að sækja um ferðastyrk hafa þeir sem hafa verið félagsmenn í RSÍ í a.m.k. eitt ár og eru skuldlausir við sambandið.  Úthlutað er eftir úthlutunarreglum og sótt er um á rafrænu eyðublaði á heimasíðu RSÍ.

Opið er fyrir umsóknir og umsóknarfrestur er t.o.m. 3. október 2017.


Höfundakvöld í Gunnarshúsi í haust

Kæru félagsmenn!

Góð reynsla hefur verið af höfundakvöldum í Gunnarshúsi undanfarin þrjú ár. Á þeim hefur tekist að lyfta jólabókavertíðinni upp úr fari hinna hefðbundnu upplestrarkvölda og gefa hverri bók og hverjum höfundi meiri tíma. Í ár er boðið upp á átta fimmtudagskvöld (19. október – 7. desember) sem félagar í RSÍ geta tekið frá ef þeir vilja skipuleggja höfundakvöld.

Höfundur/höfundar skipuleggja kvöldin eftir eigin höfði og sjá um alla framkvæmd. RSÍ leggur til húsið endurgjaldslaust og kynnir viðburðina í miðlum RSÍ. Áhugasamir hafi samband við skrifstofuna s: 568 3190 eða rsi@rsi.is til að bóka.

Kvöldin sem um ræðir eru: 19. og 26. október, 2., 9., 16., 23. og 30. nóvember, 7. desember.


Handritshöfundar, leikskáld og þýðendur – stóraukin þjónusta við höfunda!

Ertu handritshöfundur, leikskáld eða þýðandi? Þá er Rithöfundasamband Íslands (RSÍ) stéttarfélagið þitt!

RSÍ hefur allt frá stofnun sambandsins lagt áherslu á að semja um réttindi og kjör höfunda og gerir m.a. heildarsamninga fyrir hönd félagsmanna við leikhúsin, RÚV, Félag íslenskra bókaútgefenda, Menntamálastofnun og Hljóðbókasafn og veitir einnig rithöfundum beina aðstoð, upplýsingar og ráðgjöf um gerð annarra samninga, m.a. option-, purchase- og handritasamninga. Frá upphafi hefur félagið starfað sem stéttarfélag allra rithöfunda og þótt rekja megi uppruna félagsins allt til ársins 1928 þá má þakka öll núverandi réttindi rithöfunda sameiningu þeirra í eitt stórt samband árið 1974. Í kjölfarið fengu rithöfundar mátt hinna mörgu til samstöðu og réttindabaráttu sem hefur skilað sér í breiðfylkingu sem starfar á traustum grunni. Við hvetjum alla starfandi handritshöfunda, leikskáld og þýðendur sem uppfylla inntökuskilyrði RSÍ til að leggja sitt af mörkum og slást í sístækkandi hóp öflugra félagsmanna.

Félagsmönnum RSÍ hefur lengi staðið til boða lögfræðiaðstoð við yfirlestur og gerð ýmis konar samninga, sér að kostnaðarlausu. Nú er svo komið að margir samningar sem félagsmenn gera, sér í lagi handritasamningar og samningar um sölu á kvikmyndarétti, hafa orðið flóknari og vandasamari. Því hefur verið ákveðið að stórauka lögfræðiþjónustu við félagsmenn Rithöfundasambands Íslands. Hver félagsmaður getur nú fengið allt að fjóra tíma hjá lögmanni félagsins vegna hvers verkefnis, sér að kostnaðarlausu. Við erum sannfærð um að þessi viðbót nýtist vel, m.a. handritshöfundum og öðrum rithöfundum sem gera samninga á borð við option- og/eða purchase-samninga við sölu á kvikmyndarétti eða handritasamninga, og viljum því vekja sérstaka athygli hjá þeim sem geta nýtt sér þjónustuna og geta sótt um félagsaðild í RSÍ.

Lögmaður RSÍ er Sigríður Rut Júlíusdóttir hrl. sem hefur um margra ára skeið ráðlagt handritshöfundum, leikskáldum, þýðendum og öðrum rithöfundum við samningagerð. Hún býr bæði yfir sérmenntun á sviði höfundaréttar og áralangri reynslu af ráðgjöf í höfundaréttarmálum. Reynslan sýnir að afar mikilvægt er að lögmaður komi að samningamálum fyrir hönd höfunda þegar samið er um kvikmyndarétt og/eða handritsgerð. Í mörg horn er að líta og mikilvægt að hvert og eitt tilvik sé skoðað sérstaklega og höfundum ráðlagt við samningagerðina í hvert sinn. Slíkum samningum hefur með uppgangi íslenskrar kvikmyndagerðar farið fjölgandi á undanförnum árum og samningarnir eru flóknir og afar sérhæfðir. Innan RSÍ eru einnig starfandi ýmis ráð og nefndir þangað sem félagsmenn geta leitað með spurningar og vafamál, m.a. er starfrækt handritshöfundaráð sem veitir skrifstofu ráðgjöf í málefnum handritshöfunda.

RSÍ fagnar því að geta stóraukið þjónustuna við félagsmenn sína og hvetur alla sem sjá hag sínum best borgið í sameinuðu og sterku stéttarfélagi að sækja um félagsaðild uppfylli þeir inntökuskilyrðin. Rétt á félagsaðild eiga rithöfundar sem birt hafa tvö verk og geta það verið handrit eða leikrit sem sviðsett hafa verið í leikhúsi eða sjónvarpi, flutt í hljóðvarpi eða kvikmynduð (frumsamin eða þýdd), bókmenntaverk, fræðirit eða annað efni sem inntökunefnd metur fullnægjandi til inngöngu. Sjónvarpsþýðendur sem hafa þýðingar að aðalstarfi eiga einnig rétt á félagsaðild.

Hér má finna frekari upplýsingar um viðamikla starfsemi RSÍ og fjölbreytta þjónustu við félagsmenn.

IHM-sjóður RSÍ – fyrir höfunda leikins efnis í sjónvarpi eða útvarpi

Rithöfundasamband Íslands er stofnaðili samtaka höfundaréttarfélaga (IHM – Innheimtumiðstöð gjalda) og veitir viðtöku og úthlutar þeim hlut sem tilheyrir ritlistinni einstaklingsbundið til rétthafa úr IHM-sjóði RSÍ. Allir handritshöfundar, leikskáld, þýðendur, rithöfundar og aðrir höfundar ritverka, sem flutt hafa verið í sjónvarpi eða útvarpi, eiga rétt á úthlutun úr IHM-sjóði RSÍ eftir réttindum og óháð félagsaðild í RSÍ eða öðrum stéttar- eða fagfélögum. Samkvæmt reglum sjóðsins er úthlutað til rétthafa eftir umsóknum og umsóknarfrestur er auglýstur árlega í miðlum RSÍ og dagblöðum. Þeir sem vilja fylgjast með umsóknarfresti en eru hins vegar ekki félagsmenn í RSÍ geta skráð sig á sérstakan póstlista með því að senda póst á tinna@rsi.is.

Með lagabreytingu haustið 2016 hækkuðu bætur ríkisins til IHM og því er ljóst að úthlutanir úr IHM-sjóði RSÍ verða umtalsvert hærri næstu árin en þær hafa verið fram að þessu. Því er hafin vinna við að endurskoða úthlutunarreglur IHM-sjóðs RSÍ, m.a. til að auðvelda rétthöfum að fá úthlutað án þess að þurfa að sækja sérstaklega um það árlega. Í drögum að nýjum úthlutunarreglum er gert ráð fyrir að rétthafar geti skráð sig einu sinni í sjóðinn og fái eftir það úthlutað árlega eftir réttindum skv. skráningu frá útvarpi og sjónvarpi, og þurfi ekki að fylgjast með auglýsingum um sjóðinn og umsóknarfrest. RSÍ hefur um árabil hýst Bókasafnssjóð höfunda þar sem svipað kerfi ríkir og hefur reynslu af slíkri umsýslu frá upphafi. Við hvetjum því alla sem rétt eiga á úthlutun úr sjóðnum til að fylgjast með tilkynningum um þessar breytingar sem verða kynntar um leið og þær liggja fyrir. Félagsmenn í RSÍ og allir sem hafa skráð sig á ofan nefndan póstlista fá sérstaka tilkynningu um leið og nýjar úthlutunarreglur hafa verið samþykktar.

Lesa meira!


Alþjóðlegt þýðendaþing í Reykjavík

Á alþjóðlega þýðendaþinginu í Reykjavík koma saman og þinga 30 þýðendur frá 17 málsvæðum, jafnt reyndir þýðendur og nýir. Tungumálin sem þeir þýða á eru enska, danska, finnska, franska, galisíska, hollenska, ítalska, kínverska, norska, portúgalska, pólska, serbneska, spænska, sænska, tékkneska, ungverska og þýska. Um helmingur þátttakenda er búsettur hér á landi og helmingur kemur að utan.

Þýðendur eru öflugir sendiherrar bókmenntanna

Markmið með þýðendaþinginu er meðal annars að efla og treysta tengslin við starfandi þýðendur á erlend tungumál og sýna í verki hve mikils metin þeirra vinna er, en þýðendur bókmennta á erlend mál eru öflugir sendiherrar bókmenntanna og auka hróður þeirra um allan heim. Aðstandendur þingsins vilja jafnframt hvetja nýja og upprennandi þýðendur til dáða og auðvelda þeim að komast í snertingu við íslenskan bókaheim og menningu líðandi stundar – auk þess að hitta og vinna með reyndum þýðendum.

Vinsældir íslenskra bókmennta eru miklar og fara vaxandi víða um heim, sem marka má meðal annars á fjölgun umsókna milli ára til Miðstöðvar íslenskra bókmennta um þýðingastyrki úr íslensku á erlend mál og því verður mikilvægi góðra þýðenda enn brýnna, svo unnt verði að bregðast við eftirspurninni og kynna með því íslenska höfunda og menningu um allan heim.

Fjölbreytt dagskrá um þýðingar, tungumál og menningu

Þetta er í annað skipti sem slíkt þing er haldið hér á landi fyrir þýðendur íslenskra bókmennta á ýmis erlend mál samtímis, en fyrsta þingið var haldið árið 2009 í aðdraganda heiðursþátttöku Íslands á bókasýningunni í Frankfurt. Einnig hafa áður verið haldin norræn þýðendaþing.

Dagskrá þingsins verður þétt og fjölbreytt, í formi vinnustofa og fyrirlestra höfunda og sérfræðinga um allt mögulegt er lýtur að íslensku máli og gildi þýðinga fyrir höfunda og menningu þjóðarinnar. Jafnframt fara þýðendurnir sem taka þátt í þinginu í bókmenntagöngu, móttökur og fleira. Þingið er ekki opið almenningi.

Þingið er haldið í beinu framhaldi af Bókmenntahátíð í Reykjavík 2017 svo þátttakendur á þinginu geti nýtt tækifærið og sótt viðburði hátíðarinnar og hitt kollega í Reykjavík áður en þingstörfin hefjast.

Miðstöð íslenskra bókmennta hefur veg og vanda af undirbúningi og skipulagi þingsins. Samstarfsaðilar eru Árnastofnun, Félag íslenskra bókaútgefenda, Bandalag þýðenda og túlka, Bókmenntahátíð í Reykjavík, Rithöfundasamband Íslands, Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO og Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum. Þingið nýtur jafnframt fjárstuðnings Mennta- og menningarmálaráðuneytis, Utanríkisráðuneytis og Íslandsstofu.