Höfundaréttur

Spurningar og svör um höfundarétt

Hvað er höfundaréttur og hvernig verður hann til?

Höfundalögin veita höfundi bókmenntaverks eða listaverks allan umráðrétt yfir verki sínu og verja höfunda fyrir brotum á þeim rétti. Á Íslandi er ekki gerð krafa um sérstaka skráningu höfundaréttar. Rétturinn tilheyrir höfundinum sjálfkrafa við sköpun verksins. Um hann er ekki hægt að sækja né skrá hann sérstaklega.

Hvað er verndað af höfundalögunum?

Til að verk njóti verndar höfundalaga þarf það að uppfylla ákveðna kröfu um sjálfstæða sköpun. Höfundaréttur verndar þó ekki hugmyndir heldur eingöngu eintakið sjálft eða opinbera birtingu þess. Bókmenntaverk eins og skáldsögur og ljóð njóta verndar, það sama gildir um verk sem byggð eru á öðrum eins og þýðingar eða leikgerðir en sá réttur getur þó aldrei skert rétt upprunalegs höfundar. Greinar og fræðibækur njóta einnig þessarar verndar en uppskriftir og hreinar notkunarleiðbeiningar eru að öllu jöfnu ekki verndaðar af höfundarétti. (Um er að ræða samið mál í ræðu og riti, leiksviðsverk, tónsmíðar, myndlist, byggingarlist, kvikmyndir, ljósmyndalist, nytjalist og aðrar samsvarandi listgreinar, á hvern hátt og í hverju formi sem verkið birtist. Uppdrættir, teikningar, mótanir, líkön og önnur þess háttar gögn, sem fræðslu veita um málefni eða skýra þau, njóta verndar með sama hætti og bókmenntaverk.)

Fyrir hvað stendur táknið ©?

Táknið © er alþjóðlegt höfundaréttartákn og skal standa með nafni höfundar og ártali fyrstu útgáfu segi svo fyrir um í útgáfusamningi. Táknið er ekki staðfest í höfundalögum.

Hvað felst í höfundaréttarvernd?

Kjarninn í rétti höfundarins er einkarétturinn. Höfundaréttur veitir höfundi einkarétt til þess að gera eintök af verkum sínum (oft nefnt fylgiréttur, réttur til eintakagerðar) og til þess að birta almenningi verk sín með flutningi eða sýningu (birtingarréttur). Fylgiréttur gildir jafnt um þýðingar og aðlaganir eins og frumsköpun. Höfundur getur framselt réttindi sín til afnota á verkum sínum til annarra að hluta eða öllu leyti. Að jafnaði er krafist þóknunar fyrir slík afnot. Einkarétti er oft skipt í tvennt, annars vegar „neikvæðan einkarétt“ sem heimilar höfundi að banna afnot verksins og hins vegar „jákvæðan einkarétt“, sem felur í sér að höfundur getur að vild ráðstafað réttindum sínum að hluta eða öllu leyti.
Sæmdarrétturinn felur í sér að skilt er að geta nafns höfundar í hvert skipti sem verkið er birt í einu eða öðru formi. Einnig er óheimilt að breyta verki höfundar eða birta það með þeim hætti eða í því samhengi, að skert geti höfundarheiður hans eða höfundarsérkenni. Sæmdarrétti er ekki hægt að afsala sér.

Er hægt að framselja höfundarétti eða afsala sér honum?

Höfundarétthafi sem vill koma verki sínu á framfæri getur framselt rétt sinn að takmörkuðu leiti. Það gerist t.d. þegar gerður er samningur um útgáfu á bók. Höfundurinn framselur þá réttinn til að gera eintök af verkinu og gera það aðgengilegt fyrir almenning með útgáfu. Þegar um er að ræða útgáfusamning þá er framsal réttarins takmarkað við leyfi til að gefa verkið út í ákveðnu upplagi á íslensku í bókarformi og gildir samningurinn einungis í afmarkaðan tíma.
Afsal á höfundarétt felur hins vegar í sér að sá sem verkinu er afsalað til tekur að sér hlutverk höfundar, gefur leyfi til afnota af því og tekur við greiðslum.
Óheimilt er hins vegar að framselja eða afsala sér sæmdarrétti nema um einstök tilvik sé að ræða, sem skýrt eru tilgreind bæði um tegund og efni.

Hvaða takmarkanir eru á höfundarétti?

Takmarkanir á höfundarétti þýða að þrátt fyrir að höfundur hafi lagalegan einkarétt á verki sínu þá er þó leyfilegt að nota verkið án sérstaks leyfis höfundar í vissum tilvikum og tilgangi. Slíkar takmarkanir eru skilgreindar í höfundalögunum þar sem tekið er fram hvaða skilyrði þarf að uppfylla. Dæmi um takmarkanir er t.d. fjölritun til einkanota og tilvitnunarréttur.

Ljósritun til einkanota

Heimilt er að gera eintök af birtu verki til einkanota eingöngu. Það felur í sér fyrir utan að gera eintök til eigin nota má einnig gera eintök fyrir fjölskyldu og vini, þannig er t.d. leyfilegt að ljósrita söngtexta fyrir veislur. Enginn má þó gera eða láta gera fleiri en þrjú slík eintök til notkunar í atvinnu sinni.

Ljósritun í skólum og stofnunum

Ljósritun sem gerð er vegna starfa á vegum skóla, fyrirtækis, stofnunar eða félagasamtaka, telst ekki til einkanota og því þarf annað hvort leyfi einstakra höfunda til ljósritunar eða samning við FJÖLÍS (Fjölís er hagsmunafélag samtaka sem koma fram fyrir hönd rétthafa að verkum sem njóta höfundaréttar og nýtt eru með ljósritun eða annarri hliðstæðri eftirgerð rita). Samkvæmt samningum FJÖLÍS má aðeins ljósrita til viðbótar og fyllingar öðru efni. Aðeins má ljósrita stutta þætti úr hverju riti, 20% hið mesta, þó aldrei meira en 30 bls. (A4).  Aðeins má ljósrita til bráðabirgðaafnota. Aðeins má ljósrita með tækjum sem til eru innan stofnunar
Í hvert sinn sem ljósritað er þarf að koma fram á ljósritinu hver sé höfundur verksins og útgefandi, útgáfuár og útgáfustaður.

Útgáfusamningar

Það er útgáfusamningur, er höfundur veitir tilteknum aðila (útgefanda) rétt til að framleiða á prenti eða með svipuðum hætti eintök af bókmenntaverki. Útgáfusamningur veitir útgefanda ekki eignarrétt að handriti því eða annars konar eintaki af verki, sem notað er til eftirgerðar, nema svo sé um samið sérstaklega.

Tilvitnanaréttur

Heimil er tilvitnun í birt bókmenntaverk, þar á meðal leiksviðsverk, ef hún er gerð í sambandi við gagnrýni, vísindi, almenna kynningu eða í öðrum viðurkenndum tilgangi, enda sé hún gerð innan hæfilegra marka og rétt með efni farið.

Hve lengi er rétturinn í gildi?

Höfundaréttur helst þar til 70 ár eru liðin frá andláti höfundar. Að höfundi látnum erfist höfundarétturinn eftir ákvæðum erfðalaga og erfingjar fara að öllu leiti með réttinn. Hafi verk verið gefið út án höfundanafns þá helst höfundaréttur þar til 70 ár eru liðin frá fyrstu birtingu þess.

Er hægt að vernda hugmyndir?

Höfundalög veita enga vernd vegna hugmyndar eða atburðar sem liggur að baki verkinu. Það er einungis verkið sjálft sem nýtur verndar.

Er hægt að vernda drög að verki eða óútgefið handrit?

Höfundur getur sett númer, dagsetningu og upphafsstafi sína á hverja blaðsíðu og sent í ábyrgðarpósti, ásamt fylgibréfi til viðtakanda og jafnframt sent ljósrit í ábyrgðarpósti til sjálfs sín.

Hvernig og hvar fást upplýsingar um rétthafa látinna rithöfunda?

Í flestum tilfellum veitir Rithöfundasamband Íslands þær upplýsingar. Einnig er líklegt að forlagið sem gaf síðast út verk viðkomandi höfundar hafi upplýsingar um rétthafa.

Höfundalögin er hægt að sækja hér.

Á heimasíðu Fjölís má einnig fá ágætis upplýsingar um höfundarétt.