Search
Close this search box.

Samkeppnisreglur RSÍ

Samkeppnisreglur Rithöfundasambands Íslands – Pdf-skjal

SAMKEPPNISREGLUR RSÍ

Rithöfundasamband Íslands setur eftirfarandi reglur til leiðbeiningar fyrir þá sem standa að
samkeppni um bókmenntaverk:

1. Auglýsingar og kynningar
Í auglýsingum og kynningum á bókmenntasamkeppni skal skýrt tekið fram hvernig og
hvenær handritum eða keppnisgögnum skal komið til skila og hverjir skipi dómnefnd. Þar
skal einnig kveðið á um verðlaunafé og fjölda verðlauna. Ef áskilinn er réttur til að veita
engin verðlaun eða fækka þeim skal það tekið sérstaklega fram. Einnig skal auglýsa það
sérstaklega ef ekki á að skila þeim gögnum sem send eru í keppnina eða hvernig hægt verði
að nálgast innsend keppnisgögn eftir að dómnefnd hefur lokið störfum. Forgangsréttur til
útgáfu eða birtingar verðlaunaverka skal einnig tilgreindur.

2. Meðferð keppnisgagna
Öll meðferð keppnisgagna sé hin vandaðasta og umslög með upplýsingum um nöfn
keppenda geymd hjá viðkomandi sýslumanni á meðan dómnefnd starfar. Aðeins skulu opnuð
þau umslög sem tengjast vinningshöfum.

3. Dómnefndir
Dómnefnd skal skipa áður en keppni er auglýst og henni kynntar keppnisreglur, skilafrestur,
upphæð verðlauna og þess háttar. Dómnefndir skulu að jafnaði vera þannig skipaðar: Einn
af þremur dómnefndarmönnum skal tilnefndur af viðkomandi fagfélagi/stéttarfélagi, einn
skal tilnefndur af bókmenntastofnun og einn af þeim sem fyrir keppninni stendur. Ef
dómnefnd telur fimm skulu tveir tilnefndir af viðkomandi fagfélagi/stéttarfélagi, einn af
bókmenntastofnun og tveir af þeim sem fyrir keppninni stendur.

4. Verðlaunafé, úrslit og afhending verðlauna
Dómnefnd ber að gæta þess að verðlaunafé sé hæfilegt, það rýrni ekki á þeim tíma sem
keppnin stendur yfir og sé ávallt til viðbótar höfundargreiðslum. Dómnefnd skal í samráði við
þá sem að keppninni standa sjá til þess að kynning á úrslitum og verðlaunaveiting sé með
viðeigandi hætti.

5. Samningar um útgáfu eða birtingu
Dómnefnd fylgi því jafnan eftir að gerðir séu samningar um útgáfu eða birtingu
verðlaunaverka eigi síðar en fjórum vikum eftir að úrslit eru kunngerð.