Rithöfundasamband Íslands

The Writers' Union of Iceland

Megindrættir í starfsemi Rithöfundasambandsins og ábyrgð stjórnar

Rithöfundasamband Íslands er stéttarfélag rithöfunda.

Tilgangur Rithöfundasambandsins er að efla samtök íslenskra rithöfunda, gæta hagsmuna þeirra og réttar í samræmi við alþjóðavenjur, verja frelsi og heiður bókmenntanna og standa gegn hvers kyns ofsóknum á hendur rithöfundum og hindrunum í starfi þeirra. Rithöfundasamband Íslands tekur ekki þátt í baráttu stjórnmálaflokka né hlutast til um listastefnur, stjórnmálaskoðanir eða trúarbrögð.

Stjórn Rithöfundasambands Íslands skipa fimm aðalmenn og tveir til vara. Kjörtímabil stjórnarmanna er 2 ár. Stjórnarkjöri skal lýst á aðalfundi. RSÍ greiðir formanni fyrir afnot af búnaði og þóknun vegna funda, aðrir stjórnarmenn sinna starfinu án þess að greiðsla komi fyrir.

Stjórn Rithöfundasambandsins hefur umboð til hagsmunagæslu fyrir félagsmenn gagnvart stjórnvöldum, milliliðalaust.

Stjórn Rithöfundasambandsins gerir samninga við ríkisútvarp (hljóðvarp og sjónvarp), bókaútgefendur, Menntamálastofnun, leikhús og aðra aðila sem birta eða hafa afnot af verkum félagsmanna.

Stjórn Rithöfundasambandsins sinnir erindum sem berast frá félagsmönnum sem og öðrum. Hún veitir umsagnir um lög og reglugerðir er snerta málefni rithöfunda. Skipar og/eða tilnefnir í stjórnir eða ráð þ.m.t úthlutunarnefnd Bókasafnssjóðs höfunda, uppstillinganefnd vegna úthlutunarnefndar starfslauna rithöfunda og stjórn Miðstöðvar íslenskra bókmennta. Þá  tilnefnir hún fulltrúa í stjórn Fjölís, í stjórn IHM, í inntökunefnd ritlistar við Háskóla Íslands og Höfundaréttarnefnd. Hún skipar í stjórn Stofnunar Gunnars Gunnarssonar, stjórn Þórbergsseturs, stjórn Tónmenntasjóðs, Íslenska málnefnd, stjórn  Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO og ýmsar dómnefndir eftir því sem við á hverju sinni.

Fulltrúar stjórnar taka þátt í málþingum og ráðstefnum hérlendis og erlendis eftir því sem þurfa þykir.

Umboð sitt til ofangreindra starfa þiggur réttkjörin stjórn á aðalfundi!

Svo samþykkt á aðalfundi 26. apríl 2018.